Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 febrúar 2004

Ralph NaderHeitast í umræðunni
Ralph Nader neytendafrömuður og forsetaframbjóðandi Græningjaflokksins í Bandaríkjunum árið 2000, tilkynnti í dag að hann myndi gefa kost á sér í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Hann tilkynnti um framboð sitt í fréttaþættinum Meet the Press á NBC. Með þessu virti hann að vettugi beiðni demókrata um að halda sig utan við kapphlaupið í ár svo keppnin væri aðeins á milli frambjóðanda Demókrataflokksins og Bush forseta. Allt frá kosningunum 2000 hafa demókratar kennt Nader um að Al Gore tapaði fyrir Bush, því er líklegt að framboð hans nú veki ekki hrifningu þeirra. Nader fékk tæplega 3% atkvæða í forsetakosningunum 2000 og í nýlegri könnun kemur fram að 2/3 Bandaríkjamanna vilja ekki að Nader bjóði sig fram. Orðrétt sagði Nader í þættinum Meet the Press: "Báðir flokkarnir eru að falla á prófinu, repúblikanar með D mínus og demókratar með D plús. Það er kominn tími til að breyta jöfnunni“. Ljóst er að samkvæmt þessu að líkur forsetans á að halda velli aukast til muna. Líklegt er að demókratar reyni að grafa undan trúverðugleika Naders, til að ná til markhóps hans árið 2000, þess hóps sem hefði getað tryggt Gore sigur þá.

Björn BjarnasonÍ pistli sínum fjallar Björn um fyrirspurnir til hans á þingi um áfengisauglýsingar og stjórnarráðssögu, ennfremur um líkfundinn á Austurlandi og varnarsamstarfið. Orðrétt segir í pistlinum: "Ég lét af embætti menntamálaráðherra 2. mars 2002 og fékk rúmar 200 þúsund krónur greiddar fyrir formennsku í ritstjórninni á því ári. Þóknananefnd hefur ekki ákveðið greiðslur fyrir árið 2003 eða 2004 en samkvæmt reglum á ég rétt á greiðslum til þess tíma, þegar ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra í maí 2003. Frá mínum bæjardyrum séð hefur DV rekið þetta stjórnarráðssögumál á þeirri forsendu að gera hlut okkar, sem að verkinu höfum staðið sem tortryggilegastan, án þess á hinn bóginn að hafa til þess nokkra aðra ástæðu en eigin hugarburð. Hefði ég að óreyndu ætlað, að ritstjórum blaðsins þætti sómi af meira metnaði en hér birtist. Ég get skýrt framgöngu Marðar Árnasonar með vísan til pólitískrar óvildar í minn garð og forsætisráðherra – en þar sem allir stjórnendur Baugstíðinda segjast yfir hana hafnir á ég enga skýringu á þessum dylgjum og hálfsannleika í DV um okkur, sem höfum leitast við að gera stjórnarráðssöguna sem best úr garði."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um málefni ráðuneyta og mögulega uppstokkun á þeim samhliða framtíðarbreytingum á Stjórnarráðinu, tel ég mikilvægt að hefjast handa við að finna leiðir til mikillar hagræðingar í rekstri ráðuneyta í Stjórnarráðinu. Mikilvægt er að mínu mati að ganga mun lengra en gert var í tillögum sem samþykktar voru á ríkisráðsfundi 1. febrúar sl. Fer ég yfir tvær leiðir til þess með breytingar á ráðuneytum, en aðra þeirra hefur SUS sérstaklega lagt áherslu á og samþykki ályktun um á SUS þingi í Borgarnesi 2003. Ég fer ennfremur yfir stöðu mála í kosningaslagnum í Bandaríkjunum, sem harðnar stöðugt, og að lokum fjalla ég um eitt helsta fjölmiðlamál seinustu viku, líkfundinn í Neskaupstað.

A Beautiful MindSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Hanna systir og fjölskylda komu í mat til okkar í gærkvöldi og áttum við virkilega góða stund og var mikið spjallað, virkilega gott kvöld. Horfðum á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Eftir það litum við á magnaða kvikmynd Ron Howard, A Beautiful Mind. Í henni er rakin saga nóbelsverðlaunahafans og stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994, eftir einstakan feril. Sagan hefst árið 1947 þar sem hann er við nám í Princeton. Strax er ljóst að hann er ekki eins og venjulegt fólk á að sér að vera, er bæði sérvitur og einkar ómannblendinn. Í náminu kynnist hann Charles Herman og er vinátta að því er virðist einstök og ósvikin. Eftir námið fær Nash prófessorsstöðu við virtan háskóla og svo virðist sem hann muni feta hinn beina og greiða veg, þegar hann kynnist nemanda sínum Aliciu og verður hrifinn af henni. Það breytist þó allt þegar í ljós kemur að stærðfræðisnillingurinn er geðklofi. Mögnuð úrvalsmynd á allan hátt, hlaut fern óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2001. Russell Crowe fer á kostum í hlutverki stærðfræðisnillingsins og túlkar persónu hans og andlega erfiðleika óaðfinnanlega. Þetta er besta leikframmistaða hans að mínu mati. Jennifer Connelly sem er stórfengleg í hlutverki Aliciu Nash, vinnur sannkallaðan leiksigur og vann óskarinn fyrir leik sinn. Eðalmynd eins og þær gerast bestar.

Dagurinn í dag
* 1903 Fríkirkjan í Reykjavík vígð - í söfnuðinum voru þá um fimm þúsund manns
* 1952 Hús Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu vígt við hátíðlega athöfn
* 1979 Menningarverðlaun DV afhent í fyrsta skipti - eru veitt árlega
* 1980 Hæstiréttur kvað upp dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum
* 1991 Sigríður Snævarr verður fyrst íslenska kvenna sendiherra

Snjallyrði dagsins
Perhaps it is good to have a beautiful mind, but an even greater gift is to discover a beautiful heart.
John Nash í A Beautiful Mind