Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 júní 2004

Lýðveldið Ísland 60 ára


Í dag eru liðnir sex áratugir frá því að hin íslenska þjóð tók sín mál í eigin hendur og hélt til móts við framtíðina á eigin vegum, frjáls og engum háð í eigin málum. Það skref sem stigið var á Þingvöllum í rigningardembunni þann 17. júní 1944 var stórt og mikið í langri sögu fámennrar þjóðar sem vildi bæði standa á eigin fótum og marka sér framtíð í eigin nafni og án afskipta annarra þjóða. Þjóðin var fámenn og vildi þrátt fyrir að vera fámenn horfa fram á veginn á eigin forsendum. Í rauninni ættu þeir 130.000 Íslendingar sem stóðu að stofnun lýðveldis árið 1944 flestum öðrum fremur skilið að fá sameiginlega mestu bjartsýnisverðlaun sem hægt væri að veita. Úrlausnarefnin voru mörg á þessum tímapunkti og viðsjárverðir tímar í sögu Íslands.

Heimsstyrjöldinni var þá ekki enn lokið og landið hersetið, atvinnulíf var mjög einhæft, samgöngukerfið í molum, tækja- og húsbúnaður stóð mjög að baki nágrannaþjóðum okkar og við höfðum misst hlutleysi okkar í utanríkismálum. Þjóðin lét þetta ekki á sig og hélt fram á veginn óviss um hvar hann endaði. Eitt var þó ljóst, Íslendingar skyldu vera sjálfs síns herrar og engum háðir. Þessi ákvörðun eins áhættusöm og hún gat verið, reyndist rétt skref á réttum tíma í sögu þjóðarinnar. Verkefnið sem virtist of stórt fyrir fámenna þjóð heppnaðist og gangan til framtíðar reyndist sigurför þjóðarinnar. Miklar breytingar hafa orðið hérlendis á sex áratugum: engin þjóð er nú tæknivæddari, engir eru nýjungagjarnari í þeim efnum en Íslendingar, íslenskur efnahagur hefur blómstrað, fjölbreytni þess eykst sífellt. Ísland er miðað við fólksfjölda í forystu ríkja í víðri veröld.

Ísland og fólkið sem býr landið hefur staðið undir hverju því verkefni sem tekist var á hendur með lýðveldisstofnuninni árið 1944. Sá mikli árangur sem náðst hefur á sex áratugum í sögu þjóðar er framúrskarandi vitnisburður um þrautseigju landsmanna og einbeittan vilja þeirra í því að verða í forystu og standa sig í hverju því sem tekist er á hendur. Nú þegar minnst er þessara merku tímamóta leitar hugurinn ósjálfrátt til brautryðjendanna sem mörkuðu veginn, leiddu þjóðina í átt að þessari ákvörðun sem tekin var fyrir sex áratugum og þeirra sem tóku við forystu þjóðarinnar við lýðveldisstofnun. Jón Sigurðsson var sjálfstæðishetja okkar. Án hugsjónar hans, hugrekkis og framsýni værum við eflaust ekki í þeim sporum að fagna þessum merkisáfanga. Fyrir hans tilstilli öðluðust Íslendingar trú á eigin getu. Forysta hans var Íslendingum mjög dýrmæt og farsæl.

Sjálfstæðisstefnan hefur alla tíð verið hin rétta stefna í stjórnmálum: með henni voru markaðir tveir höfuðþættir íslensks samfélags: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Allt frá fyrsta degi hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir frelsinu, frelsi almennings og þjóðarinnar og var ötult forystuafl í því að lýðveldi skyldi stofnað. Enginn vafi er á því einstaklingsfrelsið er það dýrmætasta sem við eigum. Við teljum sjálfstæði þjóðarheildarinnar og það frelsi sem markað hefur verið sjálfsagt. Er það vitnisburður um það að Íslendingar eru í eðli sínu sjálfstætt fólk og vill stjórna eigin málum og vera í forystu af sinni hálfu við ákvarðanatöku. Til er þó það fólk sem vill færa völd frá Íslandi til erlends bákns og veita öðrum og óþekktum aðilum forystu í okkar málum. Það er ekki heillavænlegt skref og vonandi verður það aldrei að veruleika.

Ég og fleiri sem aðhyllumst frelsið og sjálfstæðisstefnuna fögnum sérstaklega í dag þessum merku tímamótum. Framtíð Íslands er björt og allt bendir til að næstu áratugir og aldir verði farsæl og gjöful Íslendingum, ef rétt verður á haldið í forystu landsins. Íslendingar geta verið stoltir og glaðir yfir því glæsilega verki sem unnist hefur á sex áratugum í ævi þjóðarinnar. Staða Íslands er mjög sterk og enginn vafi leikur á að við erum í fremstu röð, forystuþjóð í frjálsum heimi. Okkur eru allir vegir færir á framtíðarbrautinni.

Innilega til hamingju með daginn!

Þjóðhátíðarávarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra

Dagurinn í dag
1811 Jón Sigurðsson forseti, fæðist við Hrafnseyri við Arnarfjörð - Jón varð sjálfstæðishetja Íslendinga og leiddi þjóðina fyrstu skrefin í átt að fullu sjálfstæði. Hann lést árið 1879
1911 Háskóli Íslands formlega stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta
1941 Alþingi kaus Svein Björnsson sendiherra, fyrsta og eina ríkisstjóra Íslands
1944 Lýðveldi stofnað á Lögbergi á Þingvöllum - Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Stjórnarskrá lýðveldisins var samþykkt. Ísland hafði tekið forystu í eigin málum
1994 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins var minnst á glæsilegri hátíð á Þingvöllum

Snjallyrði dagsins
Lýðræðið og frelsið eru hinir jákvæðu örlagavaldar og erum við þá ekki aðeins að nefna til sögu háleit orð og hugsjónir, heldur sjálft hreyfiafl allra framfara eins og dæmin sanna. Hundrað ára heimastjórn, með fullveldiskaflann og lýðveldiskaflann innan borðs, er samfelldasta sigurganga sem íslensk saga kann frá að greina. Þeir, sem einhvern tímann kynnu að halda því að íslenskri þjóð að henni muni best farnast fórni hún drjúgum hluta af fullveldi sínu, munu ganga á hólm við sjálfa þjóðarsöguna. Ekki er erfitt að spá fyrir um þau leikslok.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í þjóðhátíðarræðu sinni árið 2002)