Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 júní 2004

Ronald Reagan forseti (1911-2004)Jarðarför Ronalds Reagans
Ronald Reagan hefur nú kvatt hinsta sinni. Merkum kafla í sögu Bandaríkjanna hefur nú verið lokað. Segja má með sanni að seinasti hluti þessa merka kafla hafi verið tignarlegur. Fylgdist ég á föstudag vel með bæði jarðarför forsetans í Washington og svo kveðjustundinni við forsetabókasafn hans á hæðinni í Simi-dal, í gegnum erlendar fréttavefsíður og beina útsendingu á netinu. Kom vel fram við þessar athafnir hversu gríðarlega sterkur leiðtogi og kraftmikil persóna var kvaddur, þjóðin var sameinuð í að veita þessum manni þá kveðjustund sem hann bæði átti skilið og landsmenn vildu veita honum, þvert á flokkslínur. Trygg staða Reagans í sögu Bandaríkjanna var þarna endanlega staðfest. Fyrir rúmum áratug, áður en hann missti heilsuna vegna grimmdarlegs sjúkdóms sem rænir fólk og alla ættingja þeirra allri lífshamingju, hafði hann í smáatriðum skipulagt hvernig hann vildi kveðja og með hvaða hætti sú stund kæmi endanlega út. Árið 1989, strax við starfslok sín, hafði hann ákveðið hvar hann vildi hvíla. Sú ákvörðun var tekin samhliða byggingu minningarsafns hans í Kaliforníu. Fræg er sagan af því er hann bar undir Nancy eiginkonu sína, þetta val sitt á meðan þau voru enn í Hvíta húsinu. Hún mun hafa spurt hann hvort hann vildi ekki verða jarðsettur í Arlington þjóðargrafreitnum í Washington, eins og hann ætti í raun rétt á sem forseti landsins og hermaður í seinna stríðinu. Því hafnaði hann og mun hafa sagt: ég vil hvergi hvíla nema í Kaliforníu og þessi hæð við safnið er mér kær, þar er bæði útsýni yfir Kyrrahafið og þar er sólsetrið hvergi fegurra. Hann hafði sitt fram, hugur hans var alla tíð á heimaslóðum.

Nancy Reagan ásamt nánustu fjölskyldu við kistu forsetansÞað var farið að rökkva í Kaliforníu sl. föstudagskvöld þegar forsetaflugvélin lenti á flugvellinum við Los Angeles með kistu Reagans forseta. 40 mínútum síðar keyrði líkfylgdin að minningarsafninu um Reagan í Simi-dal. Þar fór fram hin endanlega kveðjuathöfn. Börn forsetans fluttu kveðjuræður og leikin var glæsileg tónlist. Sérstaklega þótti mér ræða Rons Reagans við þessa athöfn einstaklega góð, hún var stutt en sagði þó svo margt um þann mann sem kvaddur var. Rétt eins og Reagan hafði sjálfur valið grafreitinn, valdi hann alla tónlistina við kveðjuathöfnina og jarðarförina, allt var skipulagt af honum, fyrir rúmum áratug. Sólin var að setjast við Kyrrahafið er kista forsetans var flutt seinasta spölinn að gröfinni. Presturinn flutti alveg frábæra kveðjuræðu og talaði beint til ekkjunnar, Nancy, sem hafði fórnað bestu árunum eftir starfslok sín, til að sinna eiginmanninum í veikindum sínum og í raun fórnað lífsorkunni í það verkefni að kveðjustundin gæti verið honum eins tignarleg og hann átti skilið og hann gæti notið umönnunar sinna nánustu til hinstu stundar. Að mínu mati er það hún sem var hetjan við sólsetrið í Kaliforníu þegar Reagan forseti var kvaddur. Þegar kaflinn lokast nú stendur eftir maðurinn sem áorkaði svo miklu fyrir heimsbyggðina og tryggði okkur betra líf en þegar hann tók til við að vinna. Við sjáum ávextina af verki þessa duglega vinnumanns á hverjum degi, allir eru hlynntir nú í dag frelsinu sem hann barðist fyrir gegn úrtöluröddum vinstrimanna þá, og ekki söknum við kommúnismans og kalda stríðsins, sem urðu að orðum í sögubók í valdatíð þessa manns. Þessi verk eru öllum ofarlega í huga nú þegar sögulokin eru orðin staðreynd. Verkin tala, þau segja allt um manninn.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu, bendi á mínar skoðanir á því hvaða leikreglur eigi að setja um slíka kosningu og minni á að horfa þarf til framtíðar til ákvarðanatöku um það, ekki stundarhagsmuni. Ennfremur bendi ég á breytt hlutverk forsetaembættisins og undrast fjarveru forseta frá umræðunni um mál málanna og fjalla um fréttamat dagblaðs eins. Að auki fjalla ég um 10 ára valdaafmæli R-listans sem stendur nú mjög óstöðugum fótum og að lokum um þau tímamót sem eru að eiga sér stað í breskum stjórnmálum, nú þegar Tony Blair er á fallanda fæti. Tímamót eru að eiga sér stað í breskum stjórnmálum. Ægivald Tony Blair sem forsætisráðherra og leiðtoga Verkamannaflokksins, er augljóslega að líða undir lok. Niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna í landinu á fimmtudag eru í senn bæði reiðarslag fyrir forsætisráðherrann og þungur dómur yfir ríkisstjórn vinstrimanna í landinu. Missti flokkurinn 476 sveitarstjórnarfulltrúa sína og varð fyrir áfalli, enda missti flokkurinn forystuhlutverk sitt í héruðum sem almennt voru talin traust vígi flokksins. Greinilegt var á fyrstu viðbrögðum forsætisráðherrans við úrslitunum, þar sem hann tjáði sig um þau á leiðtogafundi iðnríkjanna í Sea Island í Georgíu fylki í Bandaríkjunum, að úrslitin voru sem köld vatnsgusa og án nokkurs vafa mesta pólitíska áfall ferils hans. Öll pólitísk staða hans hefur breyst til samræmis við þetta. Þegar er ljóst að hafnar eru björgunaraðgerðir af hálfu hans og stuðningsmanna innan flokksins til að snúa vörn í sókn. Staða Blairs er að verða það veik að honum verður vart sætt mikið lengur. Það sem líklega mun leiða til endaloka valdaferils hans verður þó ekki rimma við andstæðinga úr öðrum flokkum, heldur innanflokkserjur gegn þeim sem telja hann dragbít á stöðu flokksins.

Dagurinn í dag
1870 Gránufélagið stofnað á Akureyri, til að efla innlenda verslun - sameinaðist KEA 1912
1922 Gengisskráning íslensku krónunnar hófst - hún hafði áður fylgt dönsku krónunni
1941 Sigurður Jónsson kaupmaður, gaf ríkinu Bessastaði á Álftanesi - varð forsetabústaður
1971 Viðreisnarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, féll eftir tólf ára valdasetu
1973 Undirritað samkomulag um frið í Víetnam, eftir blóðuga styrjöld í tæpan áratug

Snjallyrði dagsins
We've done our part. And as I walk off into the city streets, a final word to the men and women of the Reagan revolution, the men and women across America who for 8 years did the work that brought America back. My friends: We did it. We weren't just marking time. We made a difference. We made the city stronger, we made the city freer, and we left her in good hands. All in all, not bad, not bad at all. And so, goodbye, God bless you, and God bless the United States of America.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004) - kveðjuræða Reagans (1989)