Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson tók þá geðþóttaákvörðun fyrir 8 dögum að breyta algjörlega eðli forsetaembættisins og gera það að pólitísku bitbeini almennings og afmáði endanlega allan virðingarstimpil á embættinu. Gott og vel, það er hans val, sem hann verður að axla alla ábyrgð á. Það vekur því óneitanlega mikla athygli að hinn pólitíski forseti sé nú flúinn, kominn í felur fyrir fjölmiðlamönnum og mótframbjóðendum sínum til forsetaembættisins í kosningunum þann 26. júní. Hann svarar ekki spurningum fjölmiðlamanna og eins mótframbjóðanda síns um hina umdeildu ákvörðun sína um að synja lögum frá Alþingi um samþykki sitt. Fyrst Ólafur vill verða í raun pólitískur forseti, eins og hann hefur óneitanlega gert sig að undanfarna daga, er ekkert eðlilegra en að hann svari fyrir gjörðir sínar og verk í fjölmiðlum eins og aðrir pólitíkusar hérlendis. Það er því mjög merkilegt hversu miklum silkihönskum fjölmiðlar fara um forseta nú, eftir ákvörðun sína. Auðvitað á hann að svara spurningum fjölmiðlamanna og mæta meðframbjóðendum sínum í umræðuþáttum. Allt annað er bara út í hött miðað við hvernig forseti hefur sjálfur mótað hlutverk sitt og framgöngu af hálfu embættisins í málum að undanförnu. Við hvað er forseti eiginlega hræddur, hversvegna getur þetta sundrungartákn á stjórnmálavísu ekki tjáð sig um þetta mál? Er kannski málið þannig vaxið að hann getur ekki varið ákvörðun sína á efnislegum forsendum? Hvar er pressan núna, á ekki að fá svör við öllum spurningunum sem krauma undir niðri, frá stjórnmálamanninum á Bessastöðum?

Líkkista Ronalds Reagans forsetaAir Force One, flugvél bandaríska forsetaembættisins, flutti í gær líkkistu Ronalds Reagans fyrrum forseta Bandaríkjanna, til Washington. Mun Reagan verða heiðraður með jarðarför á vegum þjóðarinnar með öllu sem því tilheyrir. Jarðarför af því tagi hefur ekki verið í Bandaríkjunum í rúma þrjá áratugi, eða frá því Lyndon Baines Johnson var jarðsunginn í janúar 1973. Meiri viðhöfn er þó viðhöfð við þetta tilefni en þá og jafnast útför Reagans við jarðarför Johns Fitzgerald Kennedy í nóvember 1963, en hann var forseti þegar hann lést. Richard M. Nixon forseti, sem lést árið 1994, hlaut ekki tignarjarðarför með sama hætti í Washington. Tugir þúsunda manna vottuðu minningu hins látna forseta virðingu sína í gær og í dag með því að fara í þinghúsið. Búist er við því að rúmlega 100.000 manns muni leggja leið sína í þinghúsið til að votta Reagan virðingu sína, áður en kistan verður flutt í dómkirkjuna á morgun. Greinilegt er á öllum viðbrögðum bæði bandarísks almennings og heimsbúa, vegna andláts Reagans forseta, að hans staða í sögu landsins er sterk og forysta hans í alþjóðamálum mun lengi halda merki hans og landsins á lofti.

Rear WindowMeistaraverk - Rear Window
Fátt betra á góðu kvöldi en að horfa á meistaraverk úr kvikmyndasögunni. Að þessu sinni var horft á Rear Window, kvikmynd Sir Alfred Hitchcock. Segir frá ljósmyndaranum L. B. Jeffries sem fótbrotnar í vinnuslysi og neyðist í kjölfar þess að vera heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast mannlífinu hjá nágrönnum hans og uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en það er ekki nóg, hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að hann hefur verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint. Hér gengur bókstaflega upp til að skapa ómótstæðilegt og klassískt meistaraverk að hætti Hitchcocks. James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans og stendur sig gríðarlega vel í þessu mikla burðarhlutverki myndarinnar. Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Gamanleikkonan Thelma Ritter er eftirminnileg í hlutverki sjúkranuddarans Stellu sem kemur með hnyttna brandara þegar vel við á. Mynd sem setti mikinn svip á kvikmyndasöguna, hvet ég alla til að sjá hana, eigi þeir kost á því.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Líkkista Reagans forseta, á virðingarstalli í þinghúsinu í Washington
Tugir þúsunda standa í biðröðum í Washington til að heiða minningu Reagans
Nancy Reagan vinnur hug og hjörtu Bandaríkjamanna á kveðjustundinni
Margaret Thatcher vottar Reagan virðingu sína - útför Reagans á morgun
Minningarræða Dick Cheney varaforseta, um Ronald Reagan forseta
Hátíðleg athöfn við þinghúsið - hinsta för Reagans til Washington
75%-markið og R-listinn - grein Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Ólafur Ragnar þá og nú - um þjóðaratkvæðagreiðslu - pistlar á andríki
Þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalög verður væntanlega í ágúst
Um kjarasamninga sjómanna - pistill Steingríms Arnars Finnssonar
Davíð tekur við viðurkenningu í Washington og verður við útför Reagans
Umboðsmaður Alþingis skammar Ríkisútvarpið vegna fréttavefs
Helgi Jóhannesson hættir skyndilega sem verjandi Baugsmanna
Leiðtogar iðnríkjanna vilja vinna að friði í M-austurlöndum - vefur fundarins
Tillaga Bush milduð á fundi leiðtoga iðnríkjanna í Sea Island í Georgíu
Jacques Chirac og George W. Bush ósammála um Írak, NATÓ og fleiri mál
John Howard forsætisráðherra Ástralíu, segist hrifinn af rokktónlist
Frances Shand Kydd, móðir Díönu prinsessu, jarðsungin í Skotlandi

Dagurinn í dag
1940 Þjóðverjar hernema Noreg - Hákon konungur og konungsfjölskyldan sett í stofufangelsi
1967 Sex daga stríðinu í Miðausturlöndum lýkur - Ísrael og Sýrland semja um vopnahlé
1986 5000 króna seðill settur í umferð - prýddur með mynd af Ragnheiði Jónsdóttur
2000 Hafez al-Assad forseti Sýrlands, deyr í Damaskus, 69 ára að aldri. Hann var forseti í tæpa þrjá áratugi, frá 1971 til dauðadags. Bashar sonur hans tók við völdum við dauða hans
2001 Konur fluttu í fyrsta skipti ávörp við sjómannadagshátíð í Reykjavík - sjávarútvegsráðherra og fulltrúum útgerðarmanna var ekki boðin þátttaka þá vegna lagasetningar á sjómenn

Snjallyrði dagsins
Politics is supposed to be the second oldest profession. I have come to realize that it bears a very close resemblance to the first.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)