Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 júlí 2004

StjórnarráðiðFjölmiðlalög dregin til baka
Ríkisstjórnin kom saman til fundar kl. 18:00 í kvöld. Fyrir fundinum lá að ganga endanlega frá lausum þáttum tengdum frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og að ná samkomulagi um frumvarp sem lagt skyldi fram á þingfundi á morgun. Þess í stað var samþykkt á fundinum að afturkalla fjölmiðlalögin sem samþykkt voru á Alþingi, 24. maí sl. og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, synjaði um samþykki sitt 2. júní sl. og leggja þess í stað fram nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum á sumarþinginu sem hefst á morgun. Eftir ríkisstjórnarfundinn hófust fundir í þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þar voru samþykktir ríkisstjórnar afgreiddar af hálfu flokkanna. Með þessu er frestað að taka fyrir lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem átti upphaflega að verða eina umfjöllunarefni sumarþingsins og hætt við þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin, sem fram átti að fara í næsta mánuði. Málið hefur því á einum dagparti breyst algjörlega. Að mínu mati er hér tekin hárrétt ákvörðun. Með þessu er hægt að vinna málið betur, taka það betur fyrir og ígrunda betur lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum. Er það jákvætt skref.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um atburði dagsins, en ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í kvöld að afturkalla fjölmiðlalögin sem sett voru í vor, og forseti Íslands synjaði um samþykki sitt fyrir rúmum mánuði og munu þess í stað leggja fram nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum á sumarþinginu sem hefst á morgun. Í nýju frumvarpi verður hlutfall, sem markaðsráðandi fyrirtæki í öðrum rekstri geta átt í ljósvakamiðli hækkað úr 5% í 10%. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi eftir næstu þingkosningar, haustið 2007. Með þessu hafa öll vopn verið slegin úr höndum forseta Íslands. Einu rök hans fyrir því að synja þessum lögum eru nú horfin og hann hlýtur því að nálgast málið með öðrum hætti þegar til þess kemur að hann verði að taka afstöðu til þess. Það ætti þá að koma fram með mun afgerandi hætti en fyrir rúmum mánuði hvort forseti taki ákvarðanir útfrá einkahagsmunum og þrýstingi pólitískra velvildarmanna við ákvarðanatöku eða metur málið út frá öðrum forsendum. Ennfremur minnist ég stuttlega á eftirmála forsetakosninganna og það að æ fleiri viðurkenna breytt hlutskipti forsetaembættisins. Að lokum skrifa ég um sumarferð okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi í gær, en við héldum að þessu sinni í Flatey á Skjálfanda. Dagurinn verður lengi í minnum hafður. Að auki bendi ég á pistil minn frá því í dag um þjóðaratkvæðagreiðslur.

In memoriam
En ár og fjarlægð skilja okkur að
og engin getur komið í þinn stað
þó skal minning þín lifa
á meðan lifi ég
og, ég þakka vil
þá dýru gjöf
að lífið leit til mín
og leiddi mig til þín
Friðrik Erlingsson

Dagurinn í dag
1685 Halldór Finnbogason var brenndur á báli á Þingvöllum, fyrir að snúa Faðirvorinu upp á andskotann. Var síðasta galdrabrennan á Íslandi. 21 voru teknir af lífi með þessum hætti
1776 Bandaríki Norður Ameríku stofnuð - hefur síðan verið þjóðhátíðardagur landsins
1918 Kommúnistar taka keisarafjölskylduna í Rússlandi af lífi - lengi var deilt um afdrif dóttur keisararans, Anastasíu, en almennt er þó talið að hún hafi verið líflátin með þeim
1939 Hafnaboltakappinn frægi Lou Gehrig spilar sinn síðasta leik, hann varð að hætta á toppnum vegna hrörnunarsjúkdóms. Kvaddi aðdáendur sína í tilfinningaþrunginni ræðu
1995 John Major sigrar með afgerandi hætti í leiðtogakjöri í breska Íhaldsflokknum

Snjallyrði dagsins
Most human beings have an almost infinite capacity for taking things for granted.
Aldous Huxley (1894-1963)