Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 júní 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Umfjöllun um forsetakosningarnar á laugardag er hafin með umræðuþáttum á báðum sjónvarpsstöðvum þar sem rætt er við frambjóðendur og kynnst áherslum þeirra og stefnumálum. Frekar er þessi umfjöllun þó litlaus og allt að því leiðinleg. Áberandi er slæmt að ekki verði sameiginlegir kosningafundir með frambjóðendum fyrr en að kvöldi föstudags, eða rúmum 12 klukkutímum áður en kjörstaðir opna. Er greinilegt að forseti Íslands vill helst ekki mæta meðframbjóðendum sínum á sama vettvangi fyrr en skömmu fyrir kosninguna. Er það allundarlegt og hefur viss neikvæð áhrif á málefnalega umræðu um forsetakosningarnar. Er greinilegt á skoðanakönnunum að fólk sýnir kosningunum mjög lítinn áhuga, annaðhvort hefur ákveðið sig eða mun einfaldlega sitja heima á kjördag. Greinilegt er á nýjustu könnuninni að tæplega fjórðungur landsmanna mun fara á kjörstað og taka þá afstöðu að skila kjörseðlinum auðum til baka. Þeir sem það gera tjá sig þó með afgerandi hætti og láta í ljósi óánægju með þá geðþóttaákvörðun forseta Íslands sem enn hefur ekki verið rökstudd með afgerandi hætti að synja lagafrumvarpi frá réttkjörnum þingmeirihluta um staðfestingu sína. Það er hið eina rétta í stöðunni að tjá óánægju sína með því að fjölmenna á kjörstað og hafa seðilinn auðan, það eru sterkustu skilaboðin til forsetans á þessum tímapunkti. Þessi forseti verðskuldar ekkert annað en að fá slíkt umboð að fjórðungur kjósenda eða meira mæti á kjörstað og skili auðu til að lýsa andstöðu við verk hans.

Ástþór MagnússonÁstþór Magnússon forsetaframbjóðandi, var gestur á báðum sjónvarpsstöðvum í gærkvöldi og ræddi stefnumál sín og áherslur. Friðarstefnumál hans hafa nú sem fyrr verið umdeildar og tekist á um hvort hann sé þess megnugur að standa undir því sem hann talar um. Ástþór vill ef hann yrði kjörinn forseti gera forsetaembættið að sameiningartákni, ekki bara allra landsmanna heldur alls heimsins. Þetta markmið er nú ansi veglegt, einkum í ljósi þess að honum tekst ekki einu sinni að sameina þjóðina að baki sér, líkt og sitjandi forseti sem hefur sundrað þjóðinni margoft. Ekki er ég mjög sammála Ástþóri í þessum friðarmálum, fyrir það fyrsta tel ég forsetann ekkert umboð hafa til slíks og hann máttlausan til að verða eitthvert alheimssameiningartákn á þessum vettvangi án afskipta þings og ríkisstjórnar. Athygli mína vakti í gærkvöldi dómsdagsspár frambjóðandans um kjarnorkusprengju og fleira á næstu árum. Mér finnst merkilegt að forsetaefni á Íslandi hafi engin önnur stefnumál en alheimsmál sem koma þessu embætti ekkert við, nær væri að líta heim á við og sinna málefnum Íslands beint. Málflutningur Ástþórs er nú sem fyrr óttalega þunnur þrettándi, þó hann eigi hrós skilið fyrir að hafa velgt forsetanum undir uggum og gagnrýnt hann harkalega að undanförnu.

Eternal Sunshine of the Spotless MindKvikmyndaumfjöllun - Eternal Sunshine of the Spotless Mind
Stórfengleg kvikmynd sem hittir beint í mark. Segir frá Joel og Clementine sem hafa átt í stormasömu ástarsambandi sem endar með því að þau fara til læknis til að láta þurrka hvort annað út úr minni sínu. Að því kemur að þau hugleiða hvort þau hafi tekið rétta ákvörðun, enda þróast atburðarás í allt aðra átt en stefnt var að. Aðalhandritshöfundur myndarinnar er hinn einstaki Charlie Kaufmann, sem gerði handritin að meistaraverkunum Being John Malkovich og Adaptation. Hann fer hér á kostum við að segja sögu sem okkur er mjög kær, athygli áhorfandans er nú sem fyrr algjörlega á atburðarásinni, hann nær að fanga athygli fólks með kraftmiklum stíl sínum. Jim Carrey og Kate Winslet fara á kostum í aðalhlutverkunum. Winslet er glæsileg leikkona sem hefur sannað snilli sína margoft og enginn efast um að Carrey er einn öflugasti leikari samtímans. Þau túlka vel aðalpersónurnar. Elijah Wood, Mark Ruffalo, Kirsten Dunst og Tom Wilkinson eiga einnig góðan leik í myndinni. Valdís Óskarsdóttir klippti myndina og gerir það meistaralega vel. Þessi mynd er nálægt því að vera fullkomin, flestallt gengur upp: handrit, leikur, tónlist og úrvinnsla öll á heildarmyndinni er til mikillar fyrirmyndar. Eternal Sunshine of the Spotless Mind er skylduáhorf fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Ólafur Ragnar Grímsson fer með rangfærslur - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Frjáls landbúnaður er allra hagur - pistill Stefáns Ottós Stefánssonar
Sumarferð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður laugardaginn 3. júlí
Fyrirhuguð stjórnarskrá ESB dregur verulega úr líkum á aðild Íslands og Noregs
Skipulagsstofnun fellst á 1.400 tonna þorskeldi Eskju á Eskifirði
Verulegur skortur á upplýsingum um ýmsa þjónustuaðila á Internetinu
14 hrefnur af þeim 25 sem veiða á í vísindaskyni eru komnar á land
Iyad Allawi forsætisráðherra Íraks, hótað á segulbandsupptöku frá al-Qaeda
Ísland er dýrasta land heims - samgönguráðherra vill lækka áfengisskattinn
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur áhyggjur af hvalveiðum Íslendinga
Kerry hittir John Edwards - flest bendir til að Edwards verði varaforsetaefni Kerrys
Tony Blair og Michael Howard takast á í breska þinginu um heilbrigðismál
Þögn Veronicu Berlusconi rofin - ævisaga forsætisráðherrafrúarinnar kemur út
Bestu kvikmyndalög sögunnar valin af AFI - Over the Rainbow valið það besta
Félagar í hljómsveitinni Deep Purple komnir til landsins, komu áður árið 1971
Pólitískar ævisögur eru almennt vel seljanlegar, en eru þær góðar eða vondar?
Jafntefli í leik Danmerkur og Svíþjóðar - Ítalir vinna Búlgari en detta samt út
Ítalir æfir vegna úrslitanna og saka Dani og Svía um að hafa samið um jafntefli
Allar upplýsingar um EM í fótbolta 2004 - sviptingar á EM - Pele hrósar Rooney

Dagurinn í dag
1926 Jón Magnússon forsætisráðherra, deyr sviplega á Norðfirði, 67 ára að aldri. Hann hafði fylgt Kristjáni 10. Danakonungi í ferð um Norður- og Austurland. Jón varð fyrst forsætisráðherra 1917 og sat til 1922 og aftur frá 1924. Eftirmaður hans varð Jón Þorláksson
1974 Mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri, 29,4°C - þetta met í hita á Akureyri stendur enn
1977 Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal opnaður - reistur í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar
1985 Boeing 747 flugvél springur í loft upp yfir Írlandi - 329 manns láta lífið í slysinu
1995 Björgunarþyrlan TF-Líf kom til landsins - markaði þáttaskil í björgunarmálum hérlendis

Snjallyrði dagsins
Furðulegasti forseti sem ég hef kynnst á ævinni.
Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi (sagt um Ólaf R. Grímsson eftir að Ólafur reyndi að fara undan í flæmingi í Efstaleiti á laugardag, við spurningum hans)