Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 júní 2004

Ólafur R. GrímssonHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson hefur reynt að bera sig vel eftir að úrslit forsetakosninganna lágu fyrir, þrátt fyrir að hafa sem sitjandi forseti hlotið atkvæði minnihluta landsmanna í forsetakjöri. Það skín þó í gegn biturð hans í garð Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðsins og fleiri aðila sem hann virðist saka beinlínis um að hafa beitt sér í því skyni að fólk gagnrýndi hann og verk hans með því að skila auðu eða mæta ekki á kjörstað. Allt slíkt tal hjá forsetanum ber vott um örvæntingarfullar tilraunir til að dreifa umræðunni og snúa út úr staðreyndum. Nú sem fyrr talar forsetinn í sama tón og forysta Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður, hefur í viðtölum í fjölmiðlum reynt að dreifa talinu, snúa umræðunni frá staðreyndum um úrslit kosninganna og beina henni að því að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi beitt sér í málinu. Það er ekkert nýtt að Ingibjörg stundi slíkan málflutning og varnarhjal hennar fyrir forsetann er eflaust hluti af varnarvirkjum Samfylkingarinnar fyrir forsetann eftir geðþóttaákvörðun hans fyrr í mánuðinum. Reyndar ætti forseti að átta sig á þeirri staðreynd að ákvörðun hans hefur gert forsetaembættið berskjaldað fyrir pólitískri gagnrýni og framganga hans nú mun ekki minnka óánægjuöldur í kringum hann og komu vel fram í þessum kosningum, heldur þvert á móti efla þær og gera embættið mun virkara pólitískt tákn og baráttuafl gegn ríkisstjórninni en verið hefur almennt í sögu landsins.

BessastaðirÓneitanlega hefur verið skondið að sjá hvernig Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Fréttablaðsins, setti sér mælistiku á þolmörk fylgis Ólafs Ragnars Grímssonar í leiðara í blaðinu á laugardag en hafði kúvent algjörlega í þeirri skoðun í sunnudagsblaðinu, þegar meginlínur í atkvæðatalningu í kosningunum lágu nokkuð skýrar fyrir. Í greininni á laugardag sagði Gunnar Smári: "Markmið þeirra hlýtur að vera að berja stuðninginn við Ólaf undir 50 prósent af öllum atkvæðabærum mönnum; það er til dæmis 71,5 prósent atvæða í kosningum með 70 prósenta kjörsókn. Ef Ólafi Ragnari tekst að verjast þessu getur hann túlkað það sem varnarsigur. Ef hann nær atkvæðum fleiri en 55 til 58 prósenta atkvæðabærra manna - í kringum 80 prósentum atkvæða í kosningum með 70 prósenta kjörsókn - getur hann túlkað niðurstöðuna sem mikinn sigur". Í blaðinu daginn eftir sagði sami ritstjóri: "Þótt það séu ekki góð tíðindi fyrir forseta að hátt í fimmtungur kjósenda skili auðu í mótmælaskyni eru niðurstöður þessara kosninga hins vegar nokkur sigur fyrir Ólaf Ragnar." Þetta eru merkileg skilaboð frá ritstjóra Fréttablaðsins og ekki gott samræmi á milli þess sem fram kemur, sé mið tekið af hvernig forsetinn kom út úr fyrri mælingu ritstjórans.

The LadykillersKvikmyndaumfjöllun - The Ladykillers
Coen bræður, Ethan og Joel, eru án nokkurs vafa snillingar í kvikmyndagerð og hafa sannað þá snilli í meistaraverkum á borð við t.d. Fargo, Raising Arizona, The Man Who Wasn't There, O Brother, Where Art Thou?, The Big Lebowski og Barton Fink. Óneitanlega er mikið verkefni að ætla sér að endurgera klassíska gamanmynd á borð við The Ladykillers, sem var gerð árið 1955, og skartaði í aðalhlutverkum, Sir Alec Guinness, Peter Sellers og Cecil Parker. Í flestum tilfellum sannast hin gullna regla að annaðhvort heppnast slík djörfung algjörlega eða mistekst hrapallega. Í endurgerðinni er sagt frá prófessornum G.H. Dorr sem leigir herbergi hjá Mörvu Munson, aldraðri konu í smábæ. Henni líst vel á hann, enda er hann nokkuð heillandi við fyrstu sýn. En það er ekki allt sem sýnist, enda er prófessorinn ásamt félögum sínum að undirbúa rán með því að grafa göng yfir í nálægt spilavíti sem þeir ætla að ræna. En brátt kemur þó í ljós að þeir mæta ofjarli sínum í leigusalanum, hinni öldnu Mörvu. Tom Hanks fer eins og venjulega á kostum í aðalhlutverkinu og ekki er Irma P. Hall síðri sem fröken Munson. Coen-bræður hafa markað sér þann stíl að í myndum þeirra er sagt frá skrautlegum karakterum og þar koma fyrir hin skondnustu atvik. Þeir hafa jafnan náð að laða fram hið besta frá leikurum sínum. Tónlistin er hér sem venjulega í myndum þeirra alveg fullkomin. Sem aðdáandi Sellers og Guinness og þ.a.f.l. gömlu myndarinnar verð ég að viðurkenna að ég var ekki sáttur við handrit myndarinnar og hluta úrvinnslu myndarinnar. Engu að síður er The Ladykillers hin ágætasta skemmtun fyrir bíóáhugafólk.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Gjá milli forseta og þjóðarinnar - pistill Stefáns Friðriks Stefánssonar
Helgarpistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra - viðbót við pistli
Úrslit kosninganna eru áfall fyrir Ólaf Ragnar - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Úrslit forsetakosninganna 2004 - máttlítið umboð Ólafs R. Grímssonar
Ólafur R. Grímsson tjáir sig um úrslit forsetakosninganna 2004 og fleiri efni
Hyldýpisgjá milli forseta og þjóðar - viðbrögð Davíðs Oddssonar við úrslitunum
Lítil kosningaþátttaka vekur athygli - viðbrögð Halldórs Ásgrímssonar við úrslitum
Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Ingibjörg Sólrún ræða úrslitin
Ólafur R. Grímsson snýr út úr úrslitunum - sakar Morgunblaðið um að hafa beitt áróðri
Ritstjórn Morgunblaðsins svarar fullyrðingum Ólafs Ragnars í leiðara blaðsins
Ólafur Ragnar og tengsl hans við Sigurð G. Guðjónsson - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Hinn huldi frambjóðandi - Gunnar Smári kúvendir í skoðunum um túlkun forsetakjörs
Starfshópur skilar niðurstöðu - gerir ráð fyrir að sett verði skilyrði um kjörsókn
Mat starfshóps - atkvæði 25-44% atkvæðisbærra þurfi til að ganga gegn vilja Alþingis
Formleg valdaskipti í Írak - heimamenn taka við stjórn landsins af Bandamönnum
Hákon krónprins Noregs, og Mette Marit eiginkona hans, í opinberri heimsókn
Valdas Adamkus kjörinn forseti Litháens - sigraði í kjörinu með yfirgnæfandi hætti
Jose Manuel Durao Barroso forsætisráðherra Portúgals, verður næsti forseti ESB
Hægrimaðurinn Boris Tadic kjörinn forseti Serbíu - sigraði Tomislav Nikolic naumlega
David Beckham ræðst að Real Madrid - Perez svarar Beckham fullum hálsi
Grikkir koma mjög á óvart og slá út Evrópumeistara Frakka, öllum að óvörum
Hollendingar slá Svía út á EM eftir daufan leik en magnaða vítaspyrnukeppni
Tékkar glansa í enn einum leiknum og tóku Dani í gegn og sigra með yfirburðum

Dagurinn í dag
1914 Franz Ferdinand hertogi, myrtur ásamt eiginkonu sinni, Sophie, af Gavrilo Princip, í Sarajevo. Morðið á þeim leiddi til upphafs deilna og að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar
1919 Versalasáttmálinn er undirritaður - lauk með því fyrri heimsstyrjöldinni sem stóð í 5 ár
1991 Margaret Thatcher tilkynnir að hún gefi ekki kost á sér í bresku þingkosningunum 1992 eftir 33 ára þingferil - hún lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands í nóvember 1990
1997 Mike Tyson dæmdur úr leik í hnefaleikabardaga við Evander Holyfield, í kjölfar þess að hann bítur bita úr eyra Holyfields. Þeir voru að keppa um heimsmeistaratitil í boxi í þungavigt
2001 Slobodan Milosevic fv. forseti Júgóslavíu, framseldur til stríðsglæpadómstólsins í Haag

Snjallyrði dagsins
History will be kind to me for I intend to write it.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)