Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 ágúst 2004

Halldór Ásgrímsson og Davíð OddssonHeitast í umræðunni
Ákvörðun þingflokks Framsóknarflokksins í gær, þess efnis að Siv Friðleifsdóttir víki úr ríkisstjórn er flokkurinn tekur við forsæti stjórnarinnar þann 15. september, hefur fallið í grýttan jarðveg víða í Framsóknarflokknum, einkum í kvennahreyfingunni og í Suðvesturkjördæmi, eins og við var að búast. Ljóst var af fréttum Stöðvar 2 í gær að hópur þingmanna hafði bundist samtökum um það að þessi yrði niðurstaða mála, enda sáust 8 af þingmönnum flokksins sitja fyrir utan Thorvaldsen bar í miðborginni og fá sér hressingu saman eftir fundinn og voru mjög glöð með lífið og tilveruna. Voru þar allir nema formaðurinn, Siv, Kristinn H. og Jónína. Enginn vafi er á því að allir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi hafa slegið skjaldborg um stöðu Jóns Kristjánssonar og saman hafa barist í því þingmennirnir í Suðurkjördæmi og Reykjavík norður og ennfremur Magnús Stefánsson. Öruggur meirihluti er þarmeð kominn að baki ákvörðuninni. Eins og ég benti á í gær er líklegast að uppstokkun síðar á kjörtímabilinu leiði af sér að Jón hætti í stjórnmálum og Siv komist þá aftur inn, ári fyrir næstu alþingiskosningar. Það er enginn vafi á aðrir ráðherrar flokksins séu öruggir með sæti sín í stjórninni: Árni er krónprins flokksins virðist vera, Guðni er varaformaðurinn og leiðtogi stórs landsbyggðarkjördæmis og Valgerður vann kosningasigur í Norðausturkjördæmi og hefur gríðarlega sterka stöðu og er mjög nátengd formanninum. Eftir stendur Jón, valið stóð greinilega nú á milli hans og Sivjar og brotthvarf hans síðar á tímabilinu því forsenda fyrir uppstokkun sem formaðurinn gefur nú í skyn. 26 dagar eru nú þar til uppstokkun verður í ríkisstjórninni og tel ég að fróðlegt verði að fylgjast með stjórnarsamstarfinu í vetur, við breyttar aðstæður.

Skopmynd af frambjóðendunumKosningabaráttan vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þriðjudaginn 2. nóvember nk. hefur harðnað gríðarlega eftir flokksþing demókrata, sem haldið var í lok seinasta mánaðar í Boston. Baráttan hefur náð vissu hámarki og er það hörð og tvísýn orðin að auglýsingastraumurinn heldur áfram, aldrei þessu vant í ágúst. Eru þess fá fordæmi að frambjóðendur berjist af krafti í ágúst, sem er aðalsumarleyfistími flestra Bandaríkjamanna og taki sér ekki pásu milli flokksþinga flokkanna til að vinna bakvið tjöldin í innra starfi og undirbúningi. 10 dagar eru nú í flokksþing repúblikana í New York og eru frambjóðendurnir nú á ferð og flugi um allt landið og að tjá boðskap sinn. Hafa Bush og Kerry ráðist harkalega hvor að öðrum eftir flokksþingið og saka hvorn annan um að vera með glataða stefnu í öryggis- og varnarmálum. Stefnir flest í að kosningabaráttan nú muni snúast um varnarmálin og ríkisfjármálin. Öruggt má telja að flokksþing repúblikana verði markaðssett með þeim hætti að Bush sé sterkur forseti á tímum erfiðleika fyrir þjóðina og traustur leiðtogi til næstu fjögurra ára, til að klára stríðið gegn hryðjuverkum. Er þegar ljóst að Bush mun nota þingið til að minna á sterka stöðu sína innan flokksins og sýna að hann sé öflugur þjóðarleiðtogi sem geti tekist á við stór verkefni. Útkoma þess mun skipta sköpum fyrir hann og frammistaðan þar verður honum gríðarlega mikilvæg. Allar skoðanakannanir vestanhafs sýna að það stefnir í jafnar kosningar. Má búast við að átökin milli Kerrys og Bush verði ein hatrammasta kosningabarátta í seinni tíma sögu, og verði álíka jöfn og seinasta kosningabarátta, sem réðist endanlega í sal Hæstaréttar Bandaríkjanna, eins og kunnugt var.

Skemmtilegar skopmyndir tengdar kosningaslagnum í Bandaríkjunum

SUSMálefnaþing SUS á Selfossi
Eins og fram hefur komið oft á þessum vef verður málefnaþing Sambands ungra sjálfstæðismanna haldið á Selfossi, helgina 3. - 5. september. Dagskrá þingsins var kynnt formlega í vikunni. Þingið mun hefjast með setningu í Fjölbrautaskóla Suðurlands, seinnipart föstudagsins 3. september. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, setur þá þingið og mun Grétar Magnússon formaður Hersis, flytja stutt ávarp. Að því loknu mun Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hf. flytja framsögu um íslenskt atvinnulíf og svara að því loknu fyrirspurnum frá gestum úr sal. Að því loknu mun Hersir, félag ungra sjálfstæðismanna í Árnessýslu, bjóða til móttöku í félagsheimili sjálfstæðismanna á Selfossi. Að morgni laugardagsins 4. september hefst vinna í málefnanefndum og seinnipartinn mun Hægri sveiflan, golffélag ungra hægrimanna, standa fyrir golfmóti. Röraverksmiðjan Set verður sótt heim síðdegis og þar verður boðið upp á léttar veitingar. Um kvöldið verður glæsilegur hátíðarkvöldverður og dansleikur í kjölfarið. Heiðursgestur í kvöldverðinum verður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og eiginmaður hennar, Kristján Arason. Á sunnudeginum fara fram umræður og afgreiðsla á ályktunum þingsins. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg og efla samstöðuna og samheldnina okkar á milli. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu þessa helgi, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund á Selfossi. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

Áhugavert á Netinu
Umfjöllun um fæðingarorlofsmálin - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Ráðherrahrókeringarnar í Framsókn - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Siv Friðleifsdóttir missir ráðherrastól og verður óbreyttur þingmaður
Viðtal við Halldór Ásgrímsson um ráðherramál Framsóknarflokksins
Tímamót hjá Framsókn - dagblaðspistill Birgis Guðmundssonar
Nemendum fjölgar alls um 9% í Háskólanum á Akureyri í haust
Flugvallarstarfsmenn töldu Edward Kennedy vera hryðjuverkamann
Clinton-hjónin hitta íslenska ráðamenn í för sinni hingað til landsins
Pólitísk staða bæði Ariel Sharon og Yasser Arafat veikist sífellt
Bandarískir kjósendur telja að bæði Bush og Kerry séu sterkir leiðtogar
Viðtal við Bobby Fischer á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu í morgun
Jón Steinar Gunnlaugsson sækir um stöðu hæstaréttardómara
Vefritið Tíkin tveggja ára - þingmaðurinn Pétur Blöndal valinn 'tík' ársins
Guðrún Árný Karlsdóttir, frænka mín, syngur eitt hugljúft og gott lag
Fjölbreytt leikár framundan hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur - alls 8 sýningar
Ítalir á Íslandi skammast sín fyrir upprunann eftir landsleikinn í vikunni
Leikaraliðið í stórmyndinni Goodfellas kemur saman á ný og hittist

Dagurinn í dag
1898 Veitinga- og gistihúsið Valhöll á Þingvöllum, vígt - nafnið kemur frá búð Snorra Sturlusonar, sem stóð áður þar sem hótelið var fyrst staðsett, en húsið var svo flutt á núverandi staðsetningu 1930
1933 Farið var í fyrsta skipti á bíl yfir Sprengisand frá Landssveit - tók ferðin alls fimm sólarhringa
1940 Rússneski byltingarmaðurinn Leon Trotsky drepinn í Mexíkó af stalínistanum Ramón Mercader
1982 18 manna hópur kleif Eldey, þ.á.m. fyrsta konan, Halldóra Filippusdóttir, sem það gerði - Eldey var fyrst klifin svo vitað sé þann 30. maí 1894, svo var hún klifin aftur árið 1940 og loks árið 1971
1998 Clinton Bandaríkjaforseti svarar sprengjuárásum al-Qaeda á bandarísk sendiráð í Tansaníu og Kenýa þann 7. ágúst með fyrirskipun um loftárásir á æfingarbúðir al-Qaeda í Afganistan og Súdan

Morgundagurinn
1011 Njálsbrenna - Njáll Þorgeirsson og fjölskylda hans brennd inni á Bergþórshvoli í Landeyjum
1238 Örlygsstaðabardagi var háður í Blönduhlíð í Skagafirði - þar féll alls á sjötta tug manna, bardaginn er almennt talinn einn sá örlagaríkasti hérlendis en þar börðust þrjá voldugustu ættir landsins um áhrif og völd. Kolbeinn ungi Arnórsson vann fullan sigur í orrustunni með atbeina Gissurar Þorvaldssonar jarls. Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans féllu t.d. í bardaganum með liði sínu
1968 Tilraun stjórnvalda í Tékkóslavakíu til að færa stjórnarfar landsins til lýðræðisáttar er kaffærð með valdaráni kommúniskra afla í Sovétríkjunum í landinu - lýðræðisleg stjórn landsins steypt af stóli
1983 Benigno Aquino leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum, myrtur á flugvellinum í Manila við heimkomu til landsins, en hann hafði verið í útlegð í Bandaríkjunum í 3 ár. Morðið á honum efldi stjórnarandstöðuna í baráttunni gegn Marcos einræðisherra landsins og Corazon Aquino, ekkja Benignos, leiddi baráttuna og varð forseti landsins árið 1986 er stjórn Marcos var steypt af stóli
1991 Valdarán harðlínuaflanna í Moskvu mistekst og forystumenn valdaránsins eru handteknir - Gorbatsjov sleppt úr varðhaldi, snýr aftur til Moskvu þar sem blasir við gjörbreytt valdaumhverfi

Snjallyrði dagsins
Ég veit ég öfunda vorið,
sem vekur þig sérhvern dag,
sem syngur þér kvæði og kveður þig
með kossi hvert sólarlag.

Þó get ég ei annað en glaðst við
hvern geisla, er á veg þinn skín,
og óskað, að söngur, ástir og rósir
sé alla tíð saga þín.
Tómas Guðmundsson (Ég leitaði blárra blóma)