Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 ágúst 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um yfirlýsingu Davíðs Oddssonar þess efnis að hann muni taka við embætti utanríkisráðherra samhliða ráðherrahrókeringum í ríkisstjórninni eftir mánuð. Í gær bauð Davíð, Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, á heimili sitt í Reykjavík, en þeir náðu ekki að hittast á fundi forsætisráðherra Norðurlanda í Sveinbjarnargerði um seinustu helgi, og sat Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, fundinn í fjarveru Davíðs. Fór vel á með Davíð og Göran og eiginkonum þeirra, Ástríði Thorarensen og Anitru Steen, við þetta tilefni og var fjölmiðlum boðið að koma og ræða við Davíð. Í viðtölum við Davíð kom skýrt fram að hann hefur í hyggju að halda áfram í stjórnmálum þegar hann hefur náð fullum styrk og sagði hann það vera óneitanlega viðbrigði að veikjast snögglega og finna það að allt sé í heiminum hverfult. Sagði hann að þessi lífsreynsla hefði bæði verið erfið og lærdómsrík, en nú væri hann óðum að sækja sér styrk og kjark. Með þessu er endir bundinn á pælingar og vangaveltur stjórnmálaspekúlanta sem grasserað höfðu bæði fyrir og eftir að Davíð veiktist og hafa í raun staðið allt frá því að Davíð tilkynnti í maímánuði í fyrra að hann myndi láta af forsætisráðherraembættinu og stjórnarflokkarnir myndu skipta á milli sín að leiða ríkisstjórnina. Fagna ég því að ákvörðun hans liggi fyrir og að við sjálfstæðismenn munum áfram njóta krafta hans í forystu landsmálanna. Ennfremur fjalla ég um Evrópumálin og minnist á skipan nefndar um málið í sumar og þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu og undrast að báðar hliðar málsins fái ekki svigrúm í spjallþætti nú um helgina. Að lokum fjalla ég um markmið okkar í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins, sem er að mínu mati einfalt, þ.e. að vinna að heill flokksins og því að styrkja hann. Að mínu mati eigum við að vinna saman að því að styrkja heildina.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraRæða Björns Bjarnasonar
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, flutti hátíðarræðu á Hólahátíð í dag og fjallaði þar um ýmisleg athyglisverð álitaefni. Orðrétt sagði hann: "Dæmi eru um, að fjölmiðlar leggi þá í einelti, sem þeim eru öndverðir eða eigendum þeirra. Nýlega mátti lesa um það, að í dagblaði hefði verið ráðist harkalega og persónulega á einstakling, eftir að hann nefndi í sjónvarpsþætti, að hillurými fyrir varning í stórverslun færi eftir því, hve mikið framleiðandi vörunnar auglýsti í fjölmiðlum dagblaðs- og verslunareigandans. Þetta dæmi er nefnt hér vegna þess, að það snertir ekki stjórnmál. En það þarf ekki mikla glöggskyggni þeirra, sem fylgjast með stjórnmálaumræðu samtímans, til að sjá hvernig stjórnmálamenn eru dregnir í dilka - ekki vegna skoðana sinna eða verka heldur eftir því, hvað þjónar hagsmunum viðkomandi fjölmiðils. Svo virðist sem styrkur í umræðum ráðist ekki af því, hvaða rök eru notuð til að halda málstaðnum fram heldur af aðferðunum, sem er beitt til sverta andstæðinginn og gera lítið úr honum. Ekki er spurt um, hvað sagt er og lagt mat á það, heldur hver sagði hvað. Deilur snúast ekki um meginsjónarmið og skoðanir heldur hvað hentar best þá stundina, til að koma ár sinni betur fyrir borð eða höggi á andstæðinginn. Við aðstæður sem þessar er ekki auðvelt að rökræða eða skýra flókin og vandmeðfarin viðfangsefni, sem varða þjóðarheill." Hólaræða Björns birtist í dag á vef mínum.

Dagurinn í dag
1933 Flugkappinn Charles Lindbergh kom til Reykjavíkur frá Grænlandi ásamt eiginkonu sinni, Anne Morrow. Þau flugu austur og norður í ferð sinni til landsins og flugu svo frá Eskifirði svo til Færeyja. Lindbergh flaug á árinu 1927 fyrstur allra manna án millilendingar yfir gervallt Atlantshafið
1936 Framkvæmdir við byggingu Háskóla Íslands hófust - var svo tekin í notkun 17. júní 1940
1967 Svifnökkvi kom til landsins - var notaður til siglinga t.d. milli lands og Vestmannaeyja
1969 Woodstock tónlistarhátíðin hófst formlega í Bethel við New York - söguleg tónlistarhátíð
1994 Hryðjuverkamaðurinn Ilich Ramirez Sanchez, betur þekktur sem Carlos, handsamaður

Snjallyrði dagsins
The wisest men follow their own direction.
Euripides