
Á aðalfundi Heimdallar sem fram fer kl. 13:00 á morgun mun fara fram stjórnarkjör í félaginu og verður kosið á milli Helgu Árnadóttur og Bolla Thoroddsen um formennsku í félaginu. Eins og flestum ætti að vera orðið vel kunnugt hef ég ekki farið leynt með að ég tel að það yrði Heimdalli mestur akkur í því að Helga yrði formaður félagsins og hefur sá vilji minn sést vel í því að ég er ásamt góðum hópi fólks á stuðningsmannalista á vef hennar. Hef ég reynt eftir fremsta megni, með greinaskrifum og fleiru að tala hennar máli, enda er það mín skoðun að reynsla hennar og starf innan flokksins muni verða Heimdalli til góðs og hún verði kraftmikill og traustur forystumaður félagsins á næsta starfsári. Viðburðaríkt starfsár er að baki hjá fráfarandi stjórn Heimdallar, undir forystu Atla Rafns, sem nú lætur af formennsku. Stjórnin vann af miklum krafti þetta starfsár sitt. Vefur félagsins, frelsi.is, var ritstýrður af Kristni Má Ársælssyni og Snorra Stefánssyni á þessu starfsári stjórnarinnar, og einkenndist hann sem fyrr af líflegum fréttum og öflugum greinaskrifum, nefndir voru starfræktar í félaginu um áhugaverð málefni og blómlegt málefnastarf og nóg um að vera í starfinu í félaginu. Kemur þetta allt vel fram í ársskýrslu Heimdallar sem birt var á frelsi.is í dag. Það er afskaplega leitt að fylgjast með sumum skrifum í kosningabaráttunni sem nú fer fram í Heimdalli og neikvæðni og hálfkveðnar vísur sumra aðila sem gagnrýna stjórn félagsins og saka hana um að hafa unnið illa á þessu starfsári. Ársskýrslan staðfestir svo ekki verður um villst að kraftur var í starfinu. Í vikunni skrifaði félagi minn, Bjarki Már Baxter um þetta mál á vef sínum. Orðrétt sagði hann: "Ég styð framboð Helgu Árnadóttur heils hugar og veit að hún og þeir sem eru með henni í framboði eiga eftir að vinna vel hljóti þau til þess brautargengi. Frá fyrsta degi hefur framboð Helgu verið opið fyrir þá sem vilja taka í því þátt og veit ég að fjölmargir hafa haft samband við hana til að vinna að framboðinu. Ég hvet fólk til að koma og kjósa á laugardaginn og kynna sér framboð Helgu vel. Heimdallur þarf öflugt starf næsta vetur, enda er nú rétti tíminn til að vinna vel í flokksstarfinu til að efla Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar. Fólk á að kjósa öfluga forystu í Heimdalli og sættir. Framboð Helgu er framboð sátta í Heimdalli." Ég vil taka heilshugar undir þessi orð og geri þau að mínum, það er ekkert við þau að bæta.


Í pistli mínum sem birtist á frelsinu á miðvikudag fjallaði ég um skattamál og vék að mestu orðum mínum að stórundarlegri ályktun forsætisráðherra Norðurlanda á fundi sínum hér í Eyjafirði um seinustu helgi og minnti á mikilvægi þess að skattalækkanir sem stjórnarflokkarnir lofuðu í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári, komi til framkvæmda strax í haust. Pistlinum lauk með þessum orðum: "Það hvernig Halldór kom fram á ráðherrafundinum í Sveinbjarnargerði og tjáði sig varðandi skattamálin er mjög lítið gleðiefni fyrir mig og okkur sem erum í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Það er okkur algjörlega ómögulegt að skrifa upp á þessa skoðun sem hann studdi á fundinum og hefur gert að sínum. Nú þegar styttist í ráðherrahrókeringar og uppstokkun innan ríkisstjórnarinnar er vel við hæfi að minna verðandi forsætisráðherra á að töfin sem verið hefur á efndum skattaloforða stjórnarflokkanna vegna ákvarðana hans og flokks hans er með öllu óásættanleg. Þessi bið var og er enn með öllu óásættanleg. En það er auðvitað ekki of seint að bregðast við. Ekki er hægt að sætta sig við neitt annað en að gengið verði frá öllum hliðum málsins strax í haust og fyrir liggi skýrar útlínur að ákvörðun um skattalækkanir og þær verði kynntar strax við upphaf þinghalds í október. Það er jú ekki eftir neinu að bíða." Þessi pistill vakti mikla athygli og bárust mér fjöldi pósta um málið sem ég hef reynt eftir fremsta megni að svara, það er nú sem fyrr ávallt gaman að heyra skoðanir annarra á efninu.
Dagurinn í dag
1899 Leikstjórinn Sir Alfred Hitchcock fæddist í London - á ferli sínum varð hann einn litríkasti kvikmyndaleikstjóri 20. aldarinnar og hlaut viðurnefnið meistari spennunnar. Hitchcock lést 1980
1950 Minningarhátíð um Jón Arason biskup var haldin að Hólum, 400 árum eftir að hann var líflátinn
1961 Kommúnistastjórnin í A-Berlín hefur byggingu Berlínarmúrsins sem skilur að austur og vesturhluta borgarinnar þar sem vestræn og kommúnísk yfirvald er til staðar - múrinn stóð til 1989
1987 Verslunarmiðstöðin Kringlan í Reykjavík opnuð - 40.000 manns komu þangað fyrsta daginn
1993 Kvikmyndin Jurassic Park frumsýnd í Reykjavík - á tveimur mánuðum sáu 74.000 manns myndina hérlendis, og var það met í áhorfi, stóð metið allt til ársins 1998 er Titanic var frumsýnd
Snjallyrði dagsins
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Ég vil þakka öllum þeim sem sendu mér góðar kveðjur í vikunni. Ég met þær mjög mikils!
<< Heim