Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 september 2004

George W. Bush forsetiHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðu sinni varði forsetinn stefnu stjórnar sinnar í málefnum Íraks. Kom fram það mat hans að heimurinn yrði að bregðast við ofbeldi og kúgun, ekkert öryggi fælist í því að líta undan. Forsetinn tjáði þá skoðun sína að Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar hefðu að markmiði sömu hugsjónir um gildi mannslífa. Bandalagsherinn í Írak hefði verið að uppfylla kröfur heimsins með því að hrekja Saddam Hussein frá völdum. Forsetinn hvatti alþjóðasamfélagið til að berjast gegn hryðjuverkum og öfgum með réttlæti og virðingu að leiðarljósi. Kom fram í ræðunni það mat forsetans að hryðjuverkamenn tryðu því að sjálfsmorð og morð væru bæði réttlætanleg og nauðsynleg til að ná fram markmiðum sínum og hegðun þeirra væri í takt við það. Vísaði Bush þar m.a. til gíslatökunnar í grunnskólanum í Beslan í S-Rússlandi fyrr í þessum mánuði. Í ræðunni hvatti forsetinn aðra þjóðarleiðtoga til að hætta stuðningi við þá palestínsku leiðtoga sem hafi brugðist þjóð sinni og svikið málstað hennar. Enginn vafi er á að þar er átt við Arafat forseta Palestínu. Þessi ræða er haldin í skugga þess að í dag eru 6 vikur, 42 dagar, til forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Eins og ég hef vikið að á þessum vettvangi er harkan í slagnum mjög mikil og fá dæmi um harðvítugri kosningabaráttu í sögu Bandaríkjanna. Ljóst er að afglöp í fréttamennsku CBS sem birtust í rangri frétt Dan Rather hefur skaðað mjög keppinaut forsetans og ef marka má fréttir í dag eru komin skýr tengsl á milli fréttarinnar og lykilmanna í kosningabaráttu Kerrys. Rather sem löngum hefur þótt vera hallur til vinstri hefur skaddast mjög sem fréttastjórnandi vegna þessa máls og þykir vera mikið áfall fyrir stöðu hans í fréttamannastéttinni. En eins og fram hefur komið er augljóst að slóð þessarar lygafréttar Rathers verði rakin að fullu.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraÍ dag birtist könnun í Fréttablaðinu um persónufylgi stjórnmálamanna. Sem fyrr er Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sá stjórnmálamaður sem nýtur mestra vinsælda almennings og er jafnframt sá sem er óvinsælastur. Hefur þetta jafnan verið með þessum hætti í könnunum af þessu tagi síðasta áratuginn. Traust fólks á Davíð eykst nokkuð frá seinustu könnun og óvinsældir hans minnka mjög. 27,6% treysta Davíð mest og bætir hann við sig nærri 7 prósentum frá seinustu könnun. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, kemur næstur en 22% treysta honum best. Þriðji er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, með 16% á bakvið sig. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, kemur í fjórða sæti með 9%. Er fylgi hennar ekkert í líkingu við aðdraganda síðustu kosninga þegar hún trónaði á toppi traustslistans og 37,8% treystu henni mest. Er fall hennar mjög athyglisvert í þessum könnunum, en skiljanlegt í ljósi þess að hún er lítt sýnileg orðið í forystusveit stjórnmála, enda óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður með næsta lítil sýnileg pólitísk áhrif, sem er viðbrigði eflaust fyrir hana eftir að hafa setið sem borgarstjóri í tæp 9 ár. Útreið Össurar Skarphéðinssonar er því verri, 5% treysta honum best, meðan 13% vantreysta honum mest. Athyglisverðar tölur. En það vekur óneitanlega athygli að ekki er sagt frá niðurstöðum á forsíðu, heldur á innsíðum blaðsins. Sennilega er það ekki fréttaefni að mati Fréttablaðsins að persónufylgi leiðtoga stjórnarflokkanna sé svo traust sem raun ber vitni, eftir gerningaveður sumarsins í stjórnmálum.

Ástþór Magnússon myndar DV-liðið
Dagbók forsætisráðherra - gargandi snilld!

KB bankiGott framtak hjá KB banka
Tilkynnt var á blaðamannafundi hér á Akureyri í gær að KB banki hefði í hyggju að auka umsvif bakvinnslusviðs bankans með því að stofna nýja deild hér í bænum. Um verður því að ræða talsverða stækkun á rekstri bankans hér. Um er að ræða 12-15 ný störf við KB banka á Akureyri en starfsmennirnir munu annast ýmis bakvinnslustörf fyrir höfuðstöðvar bankans og útibú hans. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að þessi störf hafi áður verið unnin í höfuðstöðvum bankans í Reykjavík en að hluta til í hverju útibúi fyrir sig. Hér sé um aukningu að ræða á þessu sviði innan KB banka, í réttu hlutfalli við aukin umsvif bankans. Nú er unnið að breytingum á húsnæði á 2. hæð KB banka við Geislagötu á Akureyri en þar verður hin nýja starfsemi til húsa. Á næstu vikum verður ráðið í 5-8 störf en næsta vor er gert ráð fyrir að búið verði að ráða fólk í 12-15 störf. KB banki er eins og flestir vita stærsti banki landsins og hefur umfang starfsemi hans aukist með miklum hraða á því tæpa ári sem hann hefur starfað. Bankinn rekur nú 36 útibú og afgreiðslustöðvar hér á landi en er auk þess með öfluga og sívaxandi starfsemi erlendis. Er hér um að ræða einn lið í þeirri stefnu bankans að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið. Er þetta mikið ánægjuefni og gleðilegt að bankinn vinni með slíkum krafti að því að styrkja bæinn. Er hér um mun mannlegri vinnubrögð að ræða en þau sem Landsbankinn sýndi nýlega með því að fækka starfsmönnum sínum í útibúi sínu hér í bænum.

Dagurinn í dag
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu 80 karlar fengið skírteini
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út, í kjölfar þess kom Hringadróttinssaga út
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri. Hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu

Snjallyrði dagsins
Er enn þá forsætisráðherra, trúi því varla enn. Minn langar að lækka skatta eins og Dabbi vildi gera. Minn langar líka að ganga í Evrópusambandið þó það sé erfitt núna miðað við núverandi fiskveiðistefnu þess enda mun þá verðmæti kvóta Skinneyjar lækka. Best að tala við Guðna um hvað við getum gert meira fyrir bændur landsins. Dagný vill að öll heimili landsins verði ADSL vædd áður en við seljum símann. Snjöll stúlka, þetta mun örugglega færa Framsókn aukin atkvæði. Get alveg hugsað mér að styðja þetta þó svo það kosti jafnmikið að ADSL væða þau 8% heimila landsins sem eru eftir eins og hin 92%. Spurning um að fresta sölu Símans.
Dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)