Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 september 2004

AkureyriHeitast í umræðunni
Ánægjulegt hefur verið að heyra í fréttum undanfarna daga að fasteignaverð í bænum hafi hækkað nokkuð að undanförnu. Munu t.d. einbýlishús í bænum hafa hækkað í verði um nærri 6% á seinustu 12 mánuðum. Jafnframt kom fram að mun fleiri hús hafa skipt um eigendur í ár en í fyrra. Fjölbýlishús hafa hinsvegar hækkað í verði um 3% á einu ári. Eins og nærri má geta hafa þessar fréttir glatt bæjarbúa og stjórnvöld bæjarins og hefur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tjáð sig mikið um þessi mál og sagt þróunina ánægjulega. Mikið hefur verið byggt á Akureyri á undanförnum árum, enda hefur íbúum fjölgað nokkuð hin seinustu ár. Rétt er að líta á þróunina hér þennan tíma. Fyrstu átta mánuði síðasta árs var meðalverðið á hvern fermetra í fjölbýlishúsum tæplega 103.400 kr, en á þessu ári var meðalverðið þrjú þúsund krónum hærra, eða 106.400 krónur. Hækkunin er semsagt 3.000 krónur, eða sem nemur rúmum þrem prósentum. Sé litið á fjölda kaupsamninga sést að hreyfingin í fyrra og í ár er mjög svipuð. Öðru máli gegnir hinsvegar um einbýlishús. Mun fleiri kaupsamningar hafa verið gerðir á þessu ári en í fyrra. Meðalverðið á hvern fermetra í einbýli var fyrstu átta mánuði síðasta árs 91.700 krónur, en á sama tíma á þessu ári er meðalverðið á hvern fermetra rúmlega 97.000 krónur. Hækkunin er því rúmar 5.000 krónur eða rúmlega fimm og hálft prósent. Það er því ljóst að hækkunin er meiri en verðbólgan mælist. Greinilegt er því að mikið líf er á fasteignamarkaðnum og viðbúið að svo verði áfram á næstu mánuðum. Mjög ánægjuleg þróun, svo ekki sé meira sagt.

SíminnAthyglisvert er að örfáum dögum fyrir forsætisráðherraskipti í ríkisstjórninni, berast þær fréttir af flokksfundi framsóknarmanna í Borgarnesi að skilyrði skuli allt í einu sett fyrir sölu Símans. Nefnt er að þingflokkur framsóknarmanna muni ekki styðja einkavæðingu Símans nema að lokið verði við uppbyggingu dreifikerfis fyrirtækisins og grunnnetið skuli jafnvel vera undanskilið við sölu þess. Eins og fram hefur komið kannast forysta Sjálfstæðisflokksins ekki við að nein skilyrði hafi verið sett fyrr af framsóknarmönnum í þessu máli. Um sé að ræða mál sem ekki hafi borið á fyrr en nú. Að mínu mati kemur ekki til greina að tefja söluna meira en orðið er og klára þurfi hana í vetur hið seinasta. Ómögulegt er að bíða lengur eftir endanlegri afgreiðslu þess. Nú við forsætisráðherraskipti mun Framsóknarflokkurinn taka við forystu í einkavæðingarnefnd í samræmi við það að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi nefndina í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Það er undarlegt ef allt í einu á að fara að tala á þessum nótum. Spyrja má sig hvort framsóknarmenn ætli ekki að selja Símann fyrr en ADSL tenging verði komin á alla sveitabæji út um allt land og í allar byggðir. Heyrst hefur að undanförnu á nokkrum þingmönnum Framsóknar að setja eigi skilyrði í takt við það sem fram kom af hálfu Hjálmars Árnasonar þingflokksformanns, á flokksfundinum í Borgarnesi. Útilokað er að fallast á slíkt. Verður athyglisvert að sjá hvernig Halldór mun höndla þetta mál eftir forsætisráðherraskiptin og hvernig þingflokkur framsóknarmanna mun tjá sig um það við þingbyrjun. Eitt er þó ljóst, standa verður við það að selja Símann í vetur, eigi samstarf flokkanna að haldast jafntraust og verið hefur. Nú reynir á nýjan forsætisráðherra.

Stefán Friðrik StefánssonDavíð verður utanríkisráðherra - verkefnin framundan
Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, mun láta af embætti forsætisráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á miðvikudag, eftir 13 ára samfellda setu í forystu ríkisstjórnarinnar, og tekur jafnframt við embætti utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar. Í tilefni þess fjalla ég um þessar breytingar og væntanleg verkefni hans í utanríkisráðuneytinu í ítarlegum pistli sem birtist í dag á frelsi.is. Á málefnaþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna á Selfossi, sem haldið var helgina 3. - 5. september sl. var kraftmikil umræða um utanríkismálin, þessi mál eru okkur mjög hugleikin nú, loks þegar flokkurinn tekur við ráðuneytinu, en það eru liðin 17 ár síðan við höfðum síðast utanríkisráðuneytið, en Geir Hallgrímsson og Matthías Á. Mathiesen sinntu málaflokknum kjörtímabilið 1983-1987. Á þessum 17 árum hafa utanríkismálin verið undir forystu Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Skoraði málefnaþing SUS á Davíð Oddsson sem nýjan utanríkisráðherra að beita sér eindregið fyrir einkum þrem atriðum sem ég minni á í pistlinum. Nefni ég það helsta sem blasi við að gera þurfi, t.d. að stokka upp utanríkisþjónustuna, beita sér í varnarmálunum og fjalla um umsókn Íslands um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Tjái ég stefnu SUS í þessum málum og fer yfir okkar sýn á þessi mál sem verða á borði Davíðs eftir að hann tekur við þessu embætti. Það er mikilvægt að til starfa í utanríkisráðuneytið veljist af hálfu flokksins, sterkur og traustur forystumaður sem hefur mikla þekkingu á málaflokknum og er sköruglegur talsmaður fyrir málaflokkinn. Fáir efast um hæfni Davíðs til að leiða þennan málaflokk, hann hefur sem forsætisráðherra leitt landsstjórnina með farsælum hætti og það er enginn vafi á því að forysta hans í utanríkismálum verður traust. Við blasir að tækifærið fyrir okkur sjálfstæðismenn til að hafa áhrif á gang mála í þessu ráðuneyti er framundan.

Dagurinn í dag
1948 Margaret Chase Smith kjörin fyrst kvenna á bandaríska þingið - Margaret varð fyrsta konan í sögu landsins sem kjörin var bæði í fulltrúadeild og öldungadeild bandaríska þingsins
1981 Borgarfjarðarbrúin vígð - með henni styttist leiðin milli Akraness og Borgarness talsvert
1982 Málaferli hefjast gegn foreldrum barns sem sökuð eru um að hafa myrt barn sitt, en þau segja að hafi verið drepið af villidýri - umdeilt mál sem gerð var kvikmynd um. Foreldrarnir unnu málið
1993 Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels og Yasser Arafat leiðtogi Palestínuaraba, skrifa undir samning um frið í Mið-austurlöndum. Samningurinn var virtur að mestu í upphafi og friður komst á, en friðarferlið fór út af sporinu eftir morðið á Rabin árið 1995 og ríkisstjórnarskipti í Ísrael árið eftir
2001 Iain Duncan Smith, lítt þekktur þingmaður Íhaldsflokksins, kjörinn leiðtogi flokksins - hann var mjög umdeildur innan flokksins meðan hann leiddi hann og var felldur af leiðtogastóli árið 2003

Snjallyrði dagsins
Civilization is the progress toward a society of privacy. The savage's whole existence is public, ruled by the laws of his tribe. Civilization is the process of setting man free from men.
Ayn Rand rithöfundur (1905-1982)