Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 september 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Síðasti starfsdagur Davíðs Oddssonar í forsætisráðuneytinu, var í dag. Seinasta embættisverk Davíðs sem forsætisráðherra, var að taka á móti fyrsta eintaki ritsins: Forsætisráðherrar Íslands - ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár, við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Það er gefið út í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar. Á öldinni sem liðin er frá því Íslendingar fengu heimastjórn á árinu 1904 hafa alls 24 einstaklingar gegnt embætti Íslandsráðherra eða forsætisráðherra. Með forsætisráðherraskiptum í ríkisstjórn Íslands á morgun lýkur löngum forsætisráðherraferli Davíðs sem setið hefur á stóli forsætisráðherra landsins frá 30. apríl 1991, eða í 4522 daga, samtals 13 ár, 4 mánuði og 16 daga, er hann tekur við embætti utanríkisráðherra á morgun. Hefur Davíð allan þingferil sinn setið í embætti forsætisráðherra, en hann var fyrst kjörinn alþingismaður Reykvíkinga í þingkosningunum 1991. Því er ekki að neita að viss viðbrigði fylgja þessum breytingum, fyrir okkur sjálfstæðismenn og jafnt alla landsmenn. Íslendingar, sem standa á tvítugu eða eru yngri, muna ekki eftir öðrum forsætisráðherra en Davíð, sem hefur setið lengst allra íslenskra stjórnmálamanna á þeim stóli. Um er því óneitanlega að ræða mikil þáttaskil í sögu þjóðarinnar. Ég get ekki neitað því að ég er ekki alveg sáttur við þessar breytingar, taldi rétt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærsti flokkur landsins og kraftmeiri aðilinn í stjórnarsamstarfi því sem verið hefur við völd seinasta áratuginn, leiddi ríkisstjórnina með setu í forsæti hennar. Undir leiðsögn Davíðs hefur flokkurinn aldrei verið sterkari. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi aðili í þessu stjórnarsamstarfi og verður það að sjálfsögðu áfram, enda með stærri þingflokk og hlýtur nú fleiri ráðherra en samstarfsflokkurinn, þó forsætisráðuneytið færist til um stundarsakir. Andstæðingar Davíðs í stjórnmálum höfðu sagt ótrúlegt að hann yrði áfram ráðherra, í ríkisstjórn undir forsæti annars. Við blasir nú að hann starfar áfram af krafti. Það er mikilvægt að Davíð hafi nú tekið endanlega af skarið með pólitíska framtíð sína, innan ríkisstjórnar og flokksins. Verður mjög athyglisvert að fylgjast með verkum hans í utanríkisráðuneytinu á næstunni, en þar er nóg af verkefnum framundan. Mikil eftirsjá er þó að honum úr forsætisráðuneytinu, en verkin bera þess vitni að mjög vel hefur verið unnið undir hans forystu á glæsilegum valdaferli.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, mun síðar í vikunni kynna formlega skýrslu starfshópa um styttingu náms. Í niðurstöðum skýrslunnar sem ráðherra kynnti skólastjórnendum og forystumönnum kennara í gær, er að finna tillögur sem miða að því að nám til stúdentsprófs verði stytt bæði í grunn- og framhaldsskólum. Ár er nú liðið síðan Tómas Ingi Olrich fyrrverandi menntamálaráðherra, kynnti áfangaskýrslu verkefnisstjórnar um styttingu náms til stúdentsprófs. Þar var lagt til að námstími til stúdentsprófs yrði styttur um eitt ár um leið og kennsludögum yrði fjölgað um 10 hvert hinna þriggja ára sem námið tæki. Þrír starfshópar voru skipaðir til að fjalla um málið; einn um faglega hlið námsins, einn um fjárhagslega þætti og einn um starfsmannamál skólanna. Þegar Þorgerður tók við embætti hélt starfið áfram, en þó með breyttum áherslum. Hefur hún lýst því yfir að líta beri á styttingu náms í víðara samhengi heldur en að einskorða það við framhaldsskóla og stúdentspróf, taka verði grunnskóla með í dæmið. Í samræmi við mat hennar hefur verkefnisstjórnin og starfshóparnir víkkað sviðið og rætt um styttingu náms í grunnskólum auk styttingar náms til stúdentsprófs. Skýrslan var kynnt ríkisstjórn á laugardag og haldinn verður kynningarfundur um efnið undir vikulok þegar skýrslan kemur úr prentun. Í Gallup-könnun sem gerð var meðal almennings fyrir tæpu ári kom í ljós að 72% aðspurðra voru fylgjandi styttingu framhaldsskólanámsins um eitt ár. Könnun sem Félag framhaldsskólakennara gerði á meðal félagsmanna sinna sýnir aftur á móti að 74% þeirra, sem svöruðu, voru frekar eða mjög andvígir þeim hugmyndum. Ólík viðhorf og skoðanir eru því uppi á þessu stóra og mikla máli.

AkureyriSkipulagsmál á Akureyri
Mikil umræða er þessa dagana um skipulagsmál hér á Akureyri. Seinustu mánuði hefur eitt helsta umræðuefni í bæjarmálum hér á Akureyri verið umræðan um tillögur að háhýsi, 12 hæða húsi á lóð Baldurshaga við Þórunnarstræti. Á fimmtudagskvöld var haldinn fjölmennur kynningarfundur um skipulag á lóð Baldurshaga. Umhverfisdeild bæjarins boðaði til fundarins til að kynna málið og heyra álit bæjarbúa. Óhætt er að fullyrða að skoðanir hafi verið skiptar og margir hafi haft skoðun á efninu, til máls tóku bæði stuðningsmenn byggingarinnar og harðir andstæðingar. Nauðsynlegt var að veita fólki tækifærið til að tjá sig og um var að ræða gagnlegan og góðan fund að öllu leyti. Í dag voru kynntar hugmyndir um Sjallareitinn svokallaða, lóðina á bakvið Sjallann þar sem nú stendur fjöldi minni húsa. Gera þær tillögur ráð fyrir byggingu þriggja háhýsa með glæsilegum turnum á svæðinu. Yrði hæð þeirra 60 metrar og heildarflatarmál um 23.000 fermetrar. Yrði um að ræða langhæsta íbúðarhús landsins. Er gert ráð fyrir verslunum þar ennfremur. Er um að ræða tignarlegar byggingar og glæsilegar og ber að fagna þeim háleitu hugmyndum sem fyrir liggja og þeirri uppbyggingu sem brátt hefst í miðbænum og verða til umræðu á íbúaþinginu um helgina, sem ég hvet alla bæjarbúa til að taka virkan þátt í. Vinnum saman að kraftmeiri og glæsilegri miðbæ, okkur öllum til heilla.

Dagurinn í dag
1950 Flugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu á Vatnajökli - 6 manna áhöfn komst lífs af í slysinu
1982 Kristján Eldjárn fyrrv. forseti Íslands, deyr á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð í Ohio. Þótti táknmynd alþýðleika og virðugleika í forsetatíð sinni, 1968-1980
1982 Grace Kelly furstaynja af Mónakó, deyr af völdum heilablóðfalls eftir bílslys. Grace var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug 20. aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum og hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Country Girl árið 1955. Hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún giftist Rainier fursta af Mónakó, 1956
1996 Vestfjarðagöngin, milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar vígð - eru 9 km. löng
2003 Svíar höfnuðu með afgerandi hætti aðild að myntbandalagi Evrópu, í þjóðaratkvæðagreiðslu

Snjallyrði dagsins
Don't be dismayed at good-byes. A farewell is necessary before you can meet again. And meeting again, after moments or lifetimes, is certain for those who are friends.
Richard Bach