Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 október 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um kosningabaráttuna í Bandaríkjunum, en nú eru einungis 9 dagar, rúm vika, þar til bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu og velja á milli George W. Bush forseta Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmanns. Jafnframt fjalla ég um þær forsetakosningar sem ég hef fylgst ítarlega með og ber þær saman við þá sem nú stendur og vík sérstaklega að því hvernig tölvuvæðingin og notkun Netsins hefur haft áhrif á kosningabaráttuna og þá taktík sem notuð er í slagnum. Margt hefur breyst á þeim 12 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í samskiptum og samskiptatækni í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur auðvitað vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um stefnu sína og áherslur. Jafnframt hefur fréttamiðlun af baráttunni: kosningafundum, samkomum og flokksstarfinu sem tengist kosningum óneitanlega aukist með áberandi hætti. Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta verður hér eftir háð án notkunar Netsins sem umfangsmikils fjölmiðils. 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum til almennings með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar eins og sést í kosningabaráttunni nú og er hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestanhafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Það er áþreifanlegasta breytingin í pólitískum slag vestanhafs. Verkfall kennara hefur staðið í rúman mánuð og horfir þunglega með lausn málsins eftir að uppúr slitnaði milli deiluaðila, fjalla ég um málið og undarleg ummæli menntamálaráðherra hér á Akureyri á föstudag. Borgir, rannsóknar- og nýsköpunarhús Háskólans á Akureyri var tekið í notkun á föstudag. Vík ég að mikilvægi skólans fyrir okkur á Norðurlandi. Að lokum fjalla ég stuttlega um viðbrögð við pistli um ferðina til Washington DC.

Egill HelgasonSunnudagsspjallþættirnir
Gaman var venju samkvæmt að horfa á sunnudagsspjallþætti sjónvarpsstöðvanna. Sunnudagsþátturinn á Skjá einum fer mjög vel af stað og þau Illugi og Katrín stjórna vel sínum þætti og koma með athyglisverðar hliðar á málin. Gaman var að sjá Illuga taka Eirík Jónsson formann Kennarasambandsins, á beinið og sauma að honum um málefni tengd verkfalli grunnskólakennara. Sannaðist þar vel að hann er ekkert annað en argasti kommúnisti og telur að ríkissjóður sé eins og vasinn á pabba gamla, endalaust fullur af peningum til útgjalda og að peningar vaxi á trjánum. Vel gert hjá Illuga. Ólafur Teitur og Guðmundur Steingrímsson eru kraftmiklir með spjallhornið sitt og með fína gesti. Var gaman að sjá Óla Teit taka Ingibjörgu Sólrúnu þar vel í gegn. Í Silfri Egils ræddu Stefán Jón Hafstein, Guðrún Pétursdóttir, Ásta Möller og Eiríkur Stefánsson málefni verkfallsins og voru dugleg að tjá sig og koma með skemmtileg horn á málið. Var fróðlegt að heyra sérstaklega skoðanir Ástu og Guðrúnar og Eiríkur kom oft með athyglisverð sjónarhorn. Össur Skarphéðinsson og Guðni Ágústsson tókust á um málin, einkum Skjá 1 og fjölmiðlamálið sem er Össuri tamt um að tala þegar hann reynir að rökstyðja þvæluna sína um trúnaðarrof sem er eitt af hlægilegum nýyrðum Samfylkingarinnar. Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra, ræddi utanríkismál og fór víða yfir og barst talið m.a. að forsetakosningunum í Bandaríkjunum í næstu viku. Að lokum ræddi Egill við hinn fræga Nestor franskra fjölmiðla, Jacques Juillard, sem er einn virtasti blaðamaður Frakklands, höfundur bóka og dálkahöfundur í tímaritinu Le Nouvel Observateur, en honum eins og flestum Frökkum er ekki vel við Bush og hallast að Kerry. Mjög góðir þættir. Alltaf gaman af beittri þjóðmálaumræðu.

Dagurinn í dag
1970 Salvador Allende kjörinn forseti Chile - honum var steypt af stóli í valdaráni hersins 1973
1975 Kvennafrídagurinn - íslenskar konur tóku sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982
1975 Sjónvarpsútsendingar í lit hófust hér á landi - deilur voru uppi um hvort ætti að taka upp litaútsendingar og var tekist á í þingsölum um hvort ætti að hafa litasjónvarp eða auka dagskrárgerð
2002 Lögregla handtók John Allen Muhammad og Lee Boyd Malvo - þeir héldu íbúum á Washington-svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Þeir myrtu alls 10 manns í október 2002 og særðu nokkra. Muhammad var dæmdur til dauða fyrr á þessu ári og Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðum dómunum var svo áfrýjað til Hæstaréttar
2003 Concorde flugvél fer í síðustu flugferðina - ákveðið hafði verið að hætta að fljúga með Concorde eftir hörmulegt slys á Charles De Gaulle flugvelli í París 25. júlí 2000 þar sem 113 létust

Snjallyrði dagsins
We need men who can dream of things that never were.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)