Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 júní 2005

Punktar dagsins
Vegurinn um Lágheiði milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um umferðarmál á íhald.is. Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Fer ég annars ítarlega yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Cinema Paradiso

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri - við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig og tónlist meistara Ennio Morricone í myndinni er sérstaklega eftirminnileg, eins og öll hans verk. Uppúr stendur Love Theme sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar, hvorki meira né minna. Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna.

Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en það var svo sjónvarpið sem drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Mikil kaldhæðni. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni - hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd. Þessa verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá! Ólýsanlega góð kvikmynd.

Hrísey

Sumarferð okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi verður farin um næstu helgi, laugardaginn 2. júlí. Að þessu sinni munum við halda út í Hrísey og skemmta okkur vel saman. Þar verður borðað saman, farið í skoðunarferð um eynna, sungið saman og haft það notalegt í góðra vina hópi. Hvet ég alla sjálfstæðismenn í kjördæminu til að skrá sig í ferðina og skella sér með okkur í þessa ferð. Það er alltaf gaman að hitta flokksfélaga sína og eiga skemmtilega stund. Alltaf er gaman að fara til Hríseyjar. Nú er reyndar eyjan orðin hluti af Akureyrarbæ, en ár er nú um helgina frá því að sameining Akureyrar og Hríseyjar var samþykkt með afgerandi hætti. Það verður því notalegt og gott fyrir okkur akureyska sjálfstæðismenn að taka á móti flokksfélögum okkar í kjördæminu út í eyju, í sveitarfélaginu okkar eftir viku. Ég hlakka til að sjá mæta félaga þar á góðri stund.

ESB-krísunni vel lýst :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian hafa verið iðnir við að tjá stöðuna þar með skondnum grínteikningum. Þessi mynd hér er engin undantekning frá því og hún segir sína sögu sjálf. :)

Saga dagsins
1000 Kristin trú var lögtekin á Alþingi á Þingvöllum - átök höfðu verið milli kristinna og heiðingja um þessar breytingar en Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði, úrskurðaði þá að allir menn skyldu verða kristnir og friður yrði að ríkja milli þessara tveggja hreyfinga. Sátt náðist loks um þá niðurstöðu.
1865 Keisaraskurði var beitt í fyrsta skipti af Jóni Hjaltalín - barnið lifði aðgerðina en móðirin ekki.
1886 Góðtemplarar stofnuðu Stórstúku Íslands til að berjast einkum fyrir bindindi á áfenga drykki.
1934 Gunnar Thoroddsen var kjörinn til þingsetu - Gunnar var þá 23 ára gamall og er hann yngstur þeirra sem hafa hlotið kjör til þings - Gunnar varð einn af virtustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Hann varð á löngum ferli borgarstjóri, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra og loks varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var forsætisráðherra 1980-1983. Gunnar lést haustið 1983.
1994 Jóhanna Sigurðardóttir sagði af sér embætti félagsmálaráðherra, vegna pólitísks ágreinings við Jón Baldvin Hannibalsson en hún hafði tapað formannskjöri innan Alþýðuflokksins við Jón skömmu áður. Afsögn Jóhönnu leiddi til klofnings flokksins, myndunar nýs flokks Jóhönnu, Þjóðvaka, og að lokum endaloka stjórnarsetu Alþýðuflokksins í apríl 1995. Klofningurinn skaðaði Jón og Jóhönnu.

Snjallyrðið
Hér sit ég einn og sakna þín.
Með sorg í hjarta drekk ég vín.
Og mánaljósið líkfölt skín
á legubekkinn minn.
Og aleinn sit ég þar í þetta sinn.

Hve ást þín mig á örmum bar.
Hve innileg vor gleði var,
er saman tvö við sátum þar,
svo saklaus, góð og hrein,
sem fuglar tveir, er syngja á sömu grein.

Og alltaf skal ég að því dást,
að enn skuli mitt hjarta þjást
af sömu þrá og sömu ást,
þótt sértu farin burt,
þótt sértu farin fyrir löngu burt.

Hún þykir fágæt þessi dyggð.
Ég þekki enga slíka tryggð.
En tíminn læknar hugans gryggð
og hylur gömul sár,
en sumum nægir ekki minna en ár.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Tryggð)