Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 júní 2005

Punktar dagsins
Jacques Chirac og Tony Blair

Eins og allir vita sem fylgjast með stjórnmálum ríkir kreppa innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að engin samstaða náðist milli helstu forysturíkja sambandsins á leiðtogafundi ESB í Brussel í síðustu viku. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Í viðtölum að loknum fundinum kenndi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, þeim Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, um að vera fasta í fortíðinni við að ræða vandamál ESB. Á móti kenndu þeir Blair um að hafa verið ófáanlegur til samstarfs um þeirra mikilvægustu verkefni. Djúpstæður ágreiningur er því milli leiðtoganna þriggja um næstu skref innan Evrópusambandsins. Algjör pólitísk krísa er því í stöðunni.

Segja má að ágreiningur milli leiðtoganna þriggja sé ekki nýr af nálinni. Þeir tókust harkalega á í Íraksstríðinu fyrir tveim árum þegar að breska ríkisstjórnin fylgdi þeirri bandarísku að málum. Þá ríkti kalt stríð milli Blair og leiðtoganna tveggja sem stóðu sameinaðir gegn stríðinu og ákvörðunum Blair og Bush. Seinustu mánuði hafði aftur byggst brú milli landanna þriggja og samstarfið skánað til muna. Svo virðist vera sem að synjun Frakka hafi leitt til versnandi samskipta og kuldalegri að nýju. Segja má að átökin hafi kristallast í ágreiningi leiðtoganna þriggja fyrir opnum tjöldum á fundinum og á blaðamannafundum eftir að ljóst varð að ekkert samkomulag hafði náðst. Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, sagði reyndar eftir fundinn að í Evrópu væru tvær fylkingar. Nefndi hann þær með þeim hætti að þeir skiptust eftir því hvort menn vildu Evrópusamband sem gæti tekist á við framtíðina, eða hvort menn vildu Evrópusamband sem væri fast í fortíðinni. Ágreiningurinn er því mjög djúpstæður og sést best af því hvernig menn túlkuðu fundinn með gjörólíkum hætti og voru ósammála algjörlega um megingrundvöll þess sem framundan væri.

Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Evrópusambandið er að upplifa sína mestu krísutíma í háa herrans tíð. Samstaða er ekki um framtíðina og tekist á um megingrundvöll Evrópusamstarfsins fræga. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Akureyri

Notaleg dagskrá var í bænum á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Var mjög þægilegt að labba um bæinn og líta á dagskrána. Fékk ég heimsókn frá vini mínum um helgina og áttum við mjög gott spjall og þægilega stund hérna og litum á stemmninguna í bænum. Að kvöldi 17. júní fórum við á kvöldvöku sem haldin var til heiðurs skáldum bæjarins í brekkunni við Sigurhæðir, hús sr. Matthíasar Jochumssonar prests og skálds. Örn Ingi Gíslason stjórnaði athöfninni. Þar var ávarp um skáld bæjarins flutt af Erlingi Sigurðarsyni forstöðumanni Sigurhæða, flutt voru falleg ljóð skálda bæjarins, falleg tónlist og hagyrðingar komu með skondnar vísur. Hápunkturinn var þegar Óskar Pétursson söngvari, flutti lag Jóhanns Ó. Haraldssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi: Sigling inn Eyjafjörð. Söng hann það án undirleiks. Óskar er einn af bestu söngvurum okkar Akureyringa í dag og sannaði hann það með kraftmiklum flutningi sínum án undirleiks á þessu fallega lagi við glæsilegt ljóð Davíðs. Þetta var annars hin notalegasta helgi hér fyrir norðan.

Á morgun hefst Listasumar 2005 með setningarathöfn í miðbænum. Kl. 13:00 hefst alþjóðlega leiklistarhátíðin "Leikum núna" með opnunarsýningu. Á Ráðhústorginu kl. 14.30 verður formleg opnun á leiklistarhátíðinni þar sem verndari hátíðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, flytur opnunarræðu. Formleg setning Listasumars 2005 verður í Ketilhúsinu kl. 16 í boði breska sendiráðsins á Íslandi. Ávörp munu þar flytja þau Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi. Á dagskránni verða einnig tónlistaratriði þar sem fram koma: Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari, flytja létta klassíska tónlist, María Gunnarsdóttir söngkona, og Eiríkur Stephensen gítarleikari, flytja leikhústónlist frá ýmsum þjóðlöndum. Kaldo Kiis tónlistarmaður og Margot Kiis söngkona, flytja létt djass og dægursveiflu. Það verður notaleg athöfn semsagt í miðbænum og skemmtilegt að fylgjast með upphafi Listasumars að þessu sinni, sem ávallt fyrr.

The Remains of the Day

Horfði í gærkvöldi á bresku úrvalsmyndina The Remains of the Day. Myndin er byggð á samnefndri bók Kazuo Ishiguro. Um framleiðslu og leikstjórn sá tvíeykið Merchant (sem er nýlega látinn) og Ivory, mennirnir sem stóðu að meistaraverkunum Howards End og A Room with a View en Ruth Prawer Jhabvala skrifaði handritið að þeim myndum, rétt eins og þessari. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem bæði vildi eiga hann og þótti í raun vænt um hann.

Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu, en á meðan er rifjuð upp saga hans og starfsfólksins á Darlington Hall, en konan sem hann hyggst hitta er fröken Sally Kenton, en hún starfaði sem ráðskona á hefðarsetrinu undir stjórn hans á þeim tíma sem áður er lýst, þ.e.a.s. árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Stevens varð þá ástfanginn af henni, en þorði ekki að segja henni hug sinn, en hún giftist öðrum manni. Hún hefur nú skilið við eiginmann sinn og hyggst Stevens reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar... Frábær mynd. Handrit, tónlist, sviðsetningin og leikstjórnin er frábær, en aðall hennar er leikur aðalleikaranna. Sir Anthony Hopkins er frábær í hlutverki hins skyldurækna yfirþjóns á hefðarsetrinu og hefur hann sjaldan leikið betur. Emma Thompson er einnig stórkostleg í hlutverki ráðskonunnar fröken Kenton. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Semsagt; einstök kvikmynd sem ég mæli eindregið með að þeir kynni sér sem ekki hafa séð hana. Hún er meistaravel gerð og stórfenglega leikin af tveimur einstökum leiksnillingum.

Fall Berlínarmúrsins 1989

Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins þann 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.

9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta októberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.

Tony Blair í aðalhlutverki í ESB :)

Um mánaðarmótin tekur Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, við forsæti í ESB. Eins og flestir vita var mjög deilt á leiðtogafundi ESB í síðustu viku. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á vegtyllu Blair innan ESB og stefnu hans er fram kom á leiðtogafundinum. :)

Saga dagsins
1959 Sigurbjörn Einarsson vígður biskup. Hann sat á biskupsstóli allt til 1981, lengst allra á öldinni.
1973 Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, var stofnaður - hann nær allt frá Dettifossi niður að Ásbyrgi.
1991 Perlan í Öskjuhlíð, útsýnis- og veitingahús Hitaveitu Reykjavíkur, var formlega tekið í notkun.
1999 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, kom í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur af öllum forsætisráðherrum landsins - Keizo Obuchi lést af völdum heilablóðfalls ári síðar, þá 62 ára að aldri.
2000 Síðari Suðurlandsskjálftinn ríður yfir - hann mældist 6,6 stig á Richter. Fyrri jarðskjálftinn var 17. júní 2000. Mikið tjón varð víða á Suðurlandi vegna þessara hamfara og skemmdust hús á Hellu.

Snjallyrðið
Loks eftir langan dag
lít ég þig, helga jörð.
Seiddur um sólarlag
sigli ég inn Eyjafjörð.
Ennþá á óskastund
opnaðist faðmur hans.
Berast um sólgyllt sund
söngvar og geisladans.

Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)