Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 júní 2005

Ronald Reagan
1911-2004


Ronald Reagan (1911-2004)

Ár er í dag liðið frá andláti Ronald Reagan 40. forseta Bandaríkjanna. Á langri ævi sinni auðnaðist honum að verða táknmynd Bandaríkjamannsins sem kom sjálfum sér á framfæri á hinn týpíska bandaríska hátt: varð ríkur, kvikmyndastjarna og að lokum valdamesti maður heims á vettvangi stjórnmála. Ronald Wilson Reagan fæddist í smábænum Tampico í Illinois-fylki í Bandaríkjunum, þann 6. febrúar 1911. Reagan ólst upp á millistéttarheimili, næstelstur af börnum hjónanna John Edward Reagan og Nelle Wilson Reagan. Faðir hans starfaði sem skókaupmaður. Árið 1920 eftir flutninga víða um Illinois, settist fjölskyldan að í bænum Dixon. Hann hóf nám í skólanum í Dixon og lauk þar grunnskólaprófi. Árið 1926 vann hann við sumarstörf sem strandvörður við Rock River. Árið 1928 hóf hann nám í Eureka háskólanum í Illinois og kláraði þar viðskiptanám árið 1932. Reagan byrjaði í upphafi fjórða áratugarins að vinna sem íþróttafréttamaður í Illinois og varð t.d. kynnir á leikjum Chicago Cubs. Hlotnaðist honum fyrst frægð á þeim árum og gekk þá almennt undir nafninu Dutch.

Árið 1936 hélt hinn ungi Reagan til Los Angeles í Kaliforníu, staðráðinn í að ná að koma sér á framfæri sem leikari. Hann náði í samning hjá Warner Bros. kvikmyndafyrirtækinu í kjölfarið og fluttist alfarinn til Kaliforníu. Á leikferli sínum sem spannaði tæpa þrjá áratugi, lék hann aðallega í b-myndum og fékk ennfremur aukahlutverk í betri myndum. Hann hafði þægilega sviðsframkomu og þótti glæsilegur leikari og öðlaðist heimsfrægð fyrir leikframmistöðu sína í nokkrum þeirra. Lék hann alls í 50 kvikmyndum á ferli sínum, misjöfnum að gæðum, sagði hann síðar að hann hefði verið Errol Flynn B-myndanna. Ein þekktasta kvikmynd Reagans var Knute Rockne All American, þar sem hann lék hlutverk George "The Gipper" Gipp. Upp frá því hlaut hann gælunafnið Gipper, sem honum féll alla tíð vel við. Að auki er hans helst minnst fyrir leik sinn í Bedtime for Bonzo, This is the Army, Kings Row og Hellcats of the Navy. Árið 1940 giftist hann óskarsverðlaunaleikkonunni Jane Wyman og áttu þau saman tvö börn, Michael og Maureen (hún lést í ágúst 2001 úr krabbameini). Jane og Ronald skildu árið 1948.

Ronald Reagan (1911-2004)

Reagan var kjörinn forseti leikarasamtakanna Screen Actors Guild of America (SAG) árið 1947 og var hann framarlega í flokki forystumanna leikara á þeim tíma sem ráðist var að þeim leikurum sem sakaðir voru um að vera á mála hjá Kommúnistaflokknum, og í gangi voru yfirheyrslur í þinginu vegna þeirra ásakana. Var Reagan virtur sem forystumaður SAG og þótti vaxa mjög af framgöngu sinni þar. Til marks um það var hann í miklum metum alla tíð í Hollywood og frægt varð að Óskarsverðlaunahátíðinni 1981 var frestað um sólarhring, 30. mars 1981, er honum var sýnt banatilræði og var þá um tíma vart hugað líf. Eftir skilnað Ronalds og Jane hélt hann áfram leik. Í byrjun sjötta áratugarins kynntist hann leikkonunni Nancy Davis. Þau gengu í hjónaband, þann 4. mars 1952. Var sambúð þeirra mjög farsæl og fylgdi Nancy honum í blíðu og stríðu þar til yfir lauk. Léku þau saman í einni kvikmynd, Hellcats of the Navy. Reagan öðlaðist með forystustörfum sínum fyrir leikarasamtökin mikla frægð og varð kraftmikill forystumaður þeirra. Í byrjun sjöunda áratugarins ákvað hann að hætta kvikmyndaleik og hella sér af fullum krafti út í stjórnmál.

Reagan gekk árið 1962 í Repúblikanaflokkinn og vann af krafti í starfi þeirra í Kaliforníu alla tíð síðan. Hann vakti þjóðarathygli á flokksþingi Repúblikana árið 1964 þegar hann mælti fyrir kjöri Barry Goldwater í sjónvarpsútsendingu. Þótt Goldwater hafi tapað kosningunum eignuðust repúblikanar nýtt foringjaefni með því í Reagan. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn. Hann náði kjöri sem 33. ríkisstjóri fylkisins og tók við embætti í ársbyrjun 1967. Sat hann á stóli ríkisstjóra í tvö kjörtímabil, til ársins 1975, en hann gaf þá ekki kost á sér til endurkjörs. Stefndi Reagan allt frá ríkisstjórakjörinu að því að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Hann gaf kost á sér fyrsta skipti til embættisins árið 1968 en tapaði í forkosningum fyrir Richard Nixon. Hann gaf aftur kost á sér á ný í forsetakosningunum 1976 en beið þá ósigur í forkosningunum fyrir Gerald Ford forseta. Þótti engan veginn sjálfgefið þá að Ford yrði forsetaefni flokksins, þó hann sæti á forsetastóli, enda hafði hann tekið við sem varaforseti við afsögn Spiro Agnew árið 1973 og orðið forseti við afsögn Nixons í ágúst 1974.

Ronald Reagan (1911-2004)

Ford tapaði forsetaembættinu í forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter. Það opnaði leiðina fyrir Reagan að sækjast eftir embættinu árið 1980 í kosningaslag við Carter. Kosningaslagur Reagans og Carter var harður og sóttu þeir harkalega að hvor öðrum. Það lá fljótt fyrir á kosninganótt í nóvember 1980 að Reagan hafði náð kjöri og gjörsigrað Carter, með mun meiri yfirburðum en hafði verið spáð. Var hann á sjötugasta aldursári er hann náði kjöri og varð því elstur allra þeirra sem náð hafði kjöri í embættið. Hann hafði ekki setið nema tvo mánuði í embætti er honum var sýnt banatilræði, þann 30. mars 1981. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington spítalann til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í aðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvölinn. George Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans, en hann náði sér þó aldrei að fullu af sárum sínum.

Hann hafði djúpstæð áhrif bæði á heimavelli og á alþjóðavettvangi á átta ára valdaferli sínum. Vegna farsællar forystu hans leið Kalda stríðið undir lok. Tókst honum að semja við Sovétmenn um verulega fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Mikilvægasta skrefið í átt að afvopnun stórveldanna náðu Reagan og Mikhail Gorbatsjov Sovétleiðtogi, á leiðtogafundi sínum í Reykjavík í október 1986. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum Reagans forseta. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Reagan lét af embætti þann 20. janúar 1989. Þá flutti hann til Los Angeles og hóf að fara um heiminn til að flytja erindi á ráðstefnum og var fyrirlesari við háskóla víðsvegar um allan heim.

Nancy og Ronald Reagan

Reagan tilkynnti í yfirlýsingu í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer, sem leggst á heilafrumur og veldur minnisleysi. Í tilfinningaþrunginni yfirlýsingu sinni til bandarísku þjóðarinnar á þeim tímapunkti dró hann sig í hlé og kvaddi í raun þjóðina. Upp frá þeim tíma hélt hann sig á heimili sínu í Los Angeles og naut umönnunar eiginkonu sinnar Nancy og nánustu fjölskyldu þar til yfir lauk 5. júní 2004. Við andlát hans var Reagan minnst fyrir glæsilegan stjórnmálaferil og þá miklu mannkosti sem hann hafði. Var staðfest með viðbrögðum Bandaríkjamanna við láti hans hversu gríðarlega sterk staða hans var í sögu landsins. Þeim sem vilja kynna sér verk hans og forystu fyrir Bandaríkin á átta ára forsetaferli bendi ég á hina góðu bók President Reagan: The Role of a Lifetime eftir Lou Gannon. Er það gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans.

Reagan leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Minningin um manninn sem sigraði kommúnismann mun ávallt lifa.

Nancy Reagan leggur blóm á leiði manns síns - 5. júní 2005



Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi um þá kreppu sem Evrópusambandið er komið í eftir að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í vikunni. Úrslitin í Frakklandi voru mikið högg fyrir Jacques Chirac forseta og stokkaði hann upp ríkisstjórn sína. Fer ég yfir stöðu mála í frönskum stjórnmálum eftir þessa sögulegu synjun Frakka á ESB-samstarfinu. Staðan er þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Þó er ljóst að mjög hefur dregið af hinu mikla og langa plaggi, stjórnarskrá ESB, og framtíð hennar er komin í mikinn vafa. Ekki síður er Evrópusambandið að upplifa sína mestu krísutíma í háa herrans tíð. Það ætti að ráðast fljótlega hvort stjórnarskráin muni bresta alveg eða bara kikna af þunga málsins og menn leggi í annað vinnuferli - aðra atlögu að því að endurlífga plaggið miklu. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

- í öðru lagi fjalla ég um uppljóstrun Mark Felt fyrrum aðstoðarforstjóra FBI, á því að hann hafi verið Deep Throat, heimildarmaður The Washington Post í Watergate-málinu í byrjun áttunda áratugarins. Felt er nú 91 árs að aldri og aðeins eru þrjú ár síðan hann skýrði fjölskyldu sinni frá því að hann væri heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972 við fráfall J. Edgar Hoover. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Er ánægjulegt að öll atriði málsins liggi fyrir og nú sé vitað hver heimildarmaðurinn var. Þrem áratugum eftir lok málsins var kominn tími til að hulunni sé svipt af þessum meginpunkti málsins: hver það var sem veitti upplýsingarnar sem svipti hulunni af Watergate-málinu sem leiddi til afsagnar forseta landsins í fyrsta og eina skiptið. Fer ég yfir Watergate-málið og söguleg áhrif þess og fjalla eilítið um persónu Nixons.

- í þriðja lagi fjalla ég um val þýsku hægriblokkarinnar á dr. Angelu Merkel sem leiðtoga sínum í þingkosningunum í september. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Líst mér mjög vel á þá niðurstöðu mála að dr. Angela Merkel leiði kosningabaráttu hægrimanna í Þýskalandi.

Saga dagsins
1878 Thor Jensen kom fyrst til Íslands og gerðist verslunarþjónn við Hrútafjörð. Hann varð einn af umfangsmestu kaupsýslumönnum landsins á 20. öld og hafði mjög mikil áhrif - Thor lést árið 1947.
1944 Bandamenn ná völdum í Róm - íbúar í borginni fagna gríðarlega þessum gleðilegu tíðindum.
1963 John Profumo varnarmálaráðherra Bretlands, segir af sér embætti sínu vegna hneykslismáls - hneykslið, auk innri valdabaráttu, leiddi til falls hægristjórnarinnar í Bretlandi í kosningum árið eftir.
1968 Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður, skotinn á framboðsfundi á hóteli í Los Angeles.
2004 Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, deyr á heimili sínu í Los Angeles, 93 ára að aldri - Reagan varð langlífastur allra forseta landsins og sá elsti (sjötugur) til að ná kjöri í forsetaembætti.

Snjallyrðið
Því allt sem var
er með henni farið burt frá þér,
sem fugl að hausti horfinn er.
Eins og sólin heit í sumarhjarta
er sökk í myrkrið svarta.

En ég veit,
að sólin vaknar á ný,
handan vetrarins, þú mátt trúa því.
Og ef þú opnar augu þín
muntu sjá hana þíða sorg úr hjarta þínu.
Karl Mann (Hjartasól)