Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 júní 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 75 ára afmæli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Fer ég yfir sögu SUS og Sjálfstæðisflokksins sem fagnaði 75 ára afmæli sínu á síðasta ári. Jafnframt minni ég á mikilvægi þess að við ungliðarnir í flokknum vinnum vel saman að þeim verkefnum sem blasa við á komandi árum í aðdraganda tveggja kosninga sem að mínu mati þurfa að vinnast samhent og sameinað í okkar röðum. Hefur það alltaf verið grunnur míns starfs í flokknum að sjálfstæðismenn horfi fram á veginn en ekki til baka. Markmið okkar á að vera nú sem ávallt að vinna að heill Sjálfstæðisflokksins og gera allt það sem mögulega getur styrkt hann til framtíðar og eflt hann sem stærsta flokk landsins og tryggir forystu hans í landsmálum og á vettvangi sveitarstjórna um allt land. Með öflugri og virkri ungliðahreyfingu er unnið stórt skref í þá átt að heilla sífellt fleiri til fylgilags við sjálfstæðisstefnuna, sem er nú sem ávallt fyrr hin eina rétta stefna í íslenskum stjórnmálum.

- í öðru lagi fjalla ég um pólitísku krísuna í ESB. Segja má að þetta sé einhver mesta og flóknasta pólitíska kreppa sem orðið hefur innan Evrópusambandsins frá stofnun þess. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Sú krísa margfaldaðist á leiðtogafundinum er ekki samdist um næstu skref í málinu. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Það er reyndar svo merkilegt að enn er til fólk hér á landi sem er hlynnt því að verða hluti af þessu bandalagi kaos og reglugerða. Reyndar ber lítið á þeim þessar vikurnar þegar mestu lætin ganga þarna yfir. Er það svosem skiljanlegt, enda varla við því að búast að nokkur tali fyrir því að verða hluti af þessu meðan vandræðin eru svo yfirgnæfandi og áberandi sem raun ber vitni þessar vikurnar.

- í þriðja lagi fjalla ég um skrautlegar fréttir af þotulífinu sem einkennir nú forsetaembættið og PR-mennsku forsetans í þágu vissra einstaklinga. Og ekki minnkuðu spurningarnar þegar að forsetinn var eins og PR-fulltrúi í breskum sjónvarpsþætti um Baug nýlega. Sýnd voru brot úr þessum þætti á Stöð 2 í vikunni og var merkilegt að fylgjast með því. Þar birtist maður sem kallaður er gamall nágranni, sjálfur forsetinn sem bjó eins og Bónusfeðgar á Seltjarnarnesi. Ég get ekki sagt annað en að kómískt hafi verið að sjá þetta brot úr þættinum. Segja má að mér hafi verið hugsað til þess að forsetinn væri einn PR-fulltrúi þessa fyrirtækis seinustu ár, sem hæst bar með sögulegum blaðamannafundi á Bessastöðum fyrir ári síðan. Fyrir hverja annars breytti Ólafur Ragnar annars eðli þessa forsetaembættis á undarlegum forsendum?


Pólitíska ræman
The War Room

Heimildarmyndin The War Room er ein besta pólitíska mynd seinni tíma. Hún fjallar mjög nákvæmlega um kosningabaráttu Bill Clinton þáv. ríkisstjóra í Arkansas, gegn George H. W. Bush þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 1992. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Er myndin mjög fróðleg og veitir skemmtilega innsýn í forsetakosningarnar 1992 þar sem Clinton vann sigur á Bush í spennandi kosningabaráttu. Voru þá kosningar háðar á nýstárlegan máta og eru áhorfendur í návígi við helstu atburðarás í innsta hring Clintons í kosningabaráttunni. Kynnist áhorfandinn vel með þessu vinnubrögðum og strategíu kosningaspekúlanta í bandarískum forsetakosningum, þar sem valdamesti maður heims er kjörinn beinni kosningu. Margt hefur breyst á þeim 13 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur allir vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um kosningabaráttuna og birta þar skrif eftir sig.

Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta háð á okkar tímum án notkunar Internetsins sem umfangsmikils fjölmiðils. Árið 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum út með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar og hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestan hafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Árið 1992 var staða Bush tekin að daprast eftir að hann náði sögulegu hámarki í skoðanakönnunum eftir Persaflóastríðið. Kosningabaráttan snerist að mestu leyti um efnahagsmál er á hólminn kom en ekki utanríkismál þar sem forsetinn var sterkastur fyrir. Ekki bætti úr skák að hann hafði gengið á bak orða sinna í mikilvægasta kosningaloforði sínu 1988, að hækka ekki skatta. Þekkt var frægt slagorð hans þá: Read my lips - no new taxes! Var þetta óspart spilað í kosningabaráttunni 1992 og frægt varð þegar gert var rapplag með þessum orðum og þau spiluð aftur og aftur. Þetta varð loforðið sem varð Bush að miklu leyti að falli. Kosningabaráttan varð í heildina mjög hörð og óvægin.

Myndin er góð heimild um þessa kosningabaráttu og kemst áhorfandinn í innsta kjarna kosningabaráttu Clintons og fylgist með mikilvægum augnablikum í kosningaslagnum. Þessi mynd er því í senn nauðsynlegur hluti stjórnmálasögunnar fyrir áhugamenn um pólitík og áhugaverð lýsing á pólitískum kosningaslag þar sem tekist var á um allt eða ekkert með ósvífnum hætti. Hvet ég alla þá sem unna bandarískri pólitík og lykilpunktum þessarar sögulegu kosningabaráttu árið 1992 að horfa á þessa mynd.

Saga gærdagsins
1244 Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslendinga var háð á Húnaflóa. Bardaginn var háður á milli tveggja voldugra ætta, Sturlunga (undir forystu Þórðar kakala) og Ásbirninga (undir forystu Kolbeins unga).
1809 Danski ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen tók sér öll völd á Íslandi og lét fangelsa Trampe stiftamtmann og fleiri. Hann lýsti sig verndara landsins og hæstráðanda til sjós og lands. Hann sat á valdastóli í tæpa tvo mánuði. Enskur skipstjóri batt loks enda á valdaferil Jörundar þann 22. ágúst.
1985 Reynir Pétur Ingvarsson vistmaður á Sólheimum í Grímsnesi, lauk styrktargöngu sinni hringinn í kringum landið til styrktar starfinu á Sólheimum - gangan var 1.411 km. og tók hún rúmlega mánuð.
1988 Vigdís Finnbogadóttir endurkjörin forseti Íslands - hún sigraði Sigrúnu Þorsteinsdóttur með yfirburðum í kosningu og hlaut tæplega 93% greiddra atkvæða. Var það í fyrsta skipti sem sitjandi forseti Íslands fékk mótframboð og varð að heyja kosningabaráttu. Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands í júní 1980 og sat Vigdís í embætti samfleytt í 16 ár, eða allt til 1. ágúst 1996.
1990 Elísabet II Englandsdrottning og Filippus hertogi af Edinborg, komu í heimsókn til Íslands.

Saga dagsins
1855 Gufuskip kom til Reykjavíkur í fyrsta skipti, það var danska gufuskipið Thor. Rúmlega tveim árum síðar kom fyrsta gufuskipið til Akureyrar. Það var þrímastrað dampskip að nafni H.M.S. Snake.
1885 Öxar við ána, ljóð Steingríms Thorsteinssonar við lag Helga Helgasonar, var flutt í fyrsta skipti við upphaf Þingvallafundar. Öxar við ána er án nokkurs vafa eitt fremsta ættjarðarljóð Íslendinga.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og lætur hin fleygu orð, Ich bin ein Berliner, falla. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi síðar á sama ári.
1990 Popptónlistarmaðurinn Bob Dylan hélt ógleymanlega rokktónleika í Laugardalshöll í Reykjavík.
2003 Strom Thurmond fyrrum öldungadeildarþingmaður, deyr, 100 ára að aldri. Thurmond sat í öldungadeild Bandaríkjaþings lengur en nokkur þingmaður, í rúma hálfa öld eða nær til dauðadags.

Snjallyrðið
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er yndislegt um vor,
í björtu veðri er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor

Er sólin heit í heiði
baðar haf og dali og fjöll.
Í háum hamraborgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll

Um háreist hamraskörðin
hoppa lömb í frið og spekt.
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er óviðjafnanlegt.
Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður (1940) (Að sigla inn Eyjafjörðinn)