Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 júní 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um umræðu seinustu daga um það hvort að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi verið vanhæfur í einkavæðingarferli ríkisbankanna vegna tengsla sinna við fyrirtækið Skinney-Þinganes á Hornafirði. Það fyrirtæki er eitt þeirra sem eiga fyrirtækið Hesteyri sem er stærsti hluthafinn í Keri sem var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma. Stjórnarandstaðan réðist að Halldóri vegna málsins og Ríkisendurskoðun sá ástæðu til að kanna málið. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var kynnt í byrjun vikunnar. Er það mat Ríkisendurskoðunar að Halldór hafi ekki verið vanhæfur. Fjalla ég ítarlega um umræðuna um málið, niðurstöðu minnisblaðs Ríkisendurskoðunar um það og stöðu þess nú. Ekki má leika neinn vafi á því hvort forsætisráðherra hafi verið hæfur í málinu. Því er ekki óeðlilegt að lögfræðileg athugun fari fram. Mér þykir sem ekki hafi öllum spurningum í málinu verið svarað. Það er best fyrir Halldór sjálfan að málið sé klárað með ákveðnum hætti og ætti varla að vera erfitt að kanna lögfræðilega túlkun málsins.

- í öðru lagi fjalla ég um mótmæli virkjunarandstæðinga sem réðust að ráðstefnugestum í Reykjavík með grænlituðu skyri og mótmæltu almennt stóriðju. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Merkilegt var að sjá Elísabetu Jökulsdóttur og Geir Jón Þórisson í Kastljósviðtali í vikunni. Þar talaði Elísabet með þeim hætti að eðlilegt væri að grípa til svona aðgerða til að tjá skoðanir sínar og sá ekkert athugavert við vinnubrögðin. Mátti helst skilja á henni að brjóta mætti lög og gera hvað sem væri til að mótmæla í þessu máli. Engin mörk væru á því. Þessar skoðanir Elísabetar eru með ólíkindum. Ég hef jafnan haft lítið álit á málflutningi andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Geir Jón kom með rétta punktinn er hann spurði Elísabetu beint út hvort það væri þá innan markanna sem hún setti sér jafnvel að valda öðru fólki tjóni beint með því að tala gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri við Reyðarfjörð. Fer ég yfir málið og skoðanir mínar á stóriðjuandstæðingunum almennt.

- í þriðja lagi fjalla ég á kvenréttindadeginum um 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í dag eru liðnir níu áratugir frá því að Kristján 10. konungur Danmerkur og Íslands, undirritaði lög sem veittu konum á Íslandi, eldri en 40 ára, rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þetta er því merkilegur dagur í sögu landsins og ekki síður merkilegur dagur í sögu jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þá öðluðust íslenskar konur mikilvægt skref til jafnréttis. Ég vil í tilefni dagsins óska konum til hamingju á kvenréttindadeginum með 90 ára afmæli kosningaréttar þeirra. Það er við hæfi að minnast tímamótanna.


Pólitíska ræman
All the King's Men

Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélagi og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki.

Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn. Ég mæli með því að allir sem hafi áhuga á stjórnmálum horfi á þessa úrvalsmynd.

Saga dagsins
1915 Kvenréttindadagurinn - Kristján 10. Danakonungur, staðfesti breytingar á stjórnarskránni sem gerði ráð fyrir að konur fengju kosningarétt og kjörgengi sem fyrst miðaðist við 40 ára og eldri.
1960 Keflavíkurgangan - hernámsandstæðingar efndu til fyrstu mótmælagöngunnar frá herstöðinni í Keflavík til Reykjavíkur. Keflavíkurgöngurnar, er voru aðhlátursefni NATO-sinna, voru mjög umdeildar.
1987 Útvarpshúsið við Efstaleiti í Reykjavík var tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Útvarpshúsið hafði verið 9 ár í byggingu og var ekki endanlega tilbúið fyrr en árið 2000 er Sjónvarpið flutti þangað.
1996 Fyrsta einkanúmerið, Ísland, var sett á bifreið Árna Johnsen þáv. alþingismanns. Hann hafði verið helsti baráttumaður þess að fólk gæti keypt sér númer á bifreið sína með áletrun að eigin vali.
1999 16 manna hópur fór á 2 gúmmíbátum og 3 kajökum niður Jökulsá á Brú, eftir Dimmugljúfrum.

Snjallyrðið
Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Brosir laut og leiti,
ljómar fjall og hjalli.
Lækur vætu veitir,
vökvast bakka halli.
Geislar sumarsólar
silungsána gylla
þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra (1861-1922) (Hraun í Öxnadal)