Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 október 2005

Kvennafundur á Ingólfstorgi - 24. október 2005

Í gær voru þrír áratugir liðnir frá hinum sögulega kvennafrídegi. 24. október 1975 tóku íslenskar konur sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist þá að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var á þessum degi haldinn fundur sem tæplega 30.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982 - eflaust átti fundurinn líka söguleg áhrif sem leiddu til þess að Vigdís Finnbogadóttir gaf kost á sér til forsetaembættis árið 1980 og náði kjöri. Þessa sögulega dags var minnst í gær, þrem áratugum síðar, með baráttufundi kvenna á Ingólfstorgi. Hátt í 50.000 manns, mest konur eins og fyrir þrjátíu árum, komu saman í miðborg Reykjavíkur í gær til að minnast tímamótanna. Þar var að finna fólk af öllum aldri og af öllum stéttum. Íslenskar konur lögðu niður vinnu klukkan 14:08 í gær. Sú tímasetning er vissulega táknræn - enda höfðu konur þá unnið fyrir launum sínum ef litið er til þess að þær munu hafa um 64% af launum karla. Vinnudegi kvenna var þá lokið sé litið til launamunar kynjanna.

Óhætt er að segja að auglýsingaherferð Verslunarmannafélags Reykjavíkur í síðasta mánuði, þar sem varpað er athyglisverðu ljósi á launamun kynjanna, hafi hitt í mark. Í auglýsingunum sáum við þekkta Íslendinga í öðrum kynjahlutverkum. Vöktu auglýsingarnar athygli á því þarfa umræðuefni sem launamunur kynjanna vissulega er. Í þessum auglýsingum birtust t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi, í merkilegu ljósi. Þessar auglýsingar hófu nauðsynlega umræðu á nýtt plan og vakti þörf á líflegri umræðu um málið - sem þær og gerðu. Eins og vitað er, er launamunur kynjanna algjörlega óeðlilegur og leitt að á okkar tímum sé hann enn til staðar. Það eru eiginlega merkilegustu skilaboð kvennafrídagsins árið 2005 að ekki hafi tekist að laga þessi mál öll sem mótmælt var að væru í ólestri á árinu 1975. Konur þessa lands eiga það skilið að vinnuframlag þeirra í sambærilegum störfum og karla sé metið jafnt. Jafnrétti verður að standa undir nafni - með viðeigandi aðgerðum. Kynbundinn launamunur er og verður óeðlilegur. Á árinu 2005 er ekkert annað viðeigandi en að hann hverfi!

Ég vil nota tækifærið og gratúlera konum með gærdaginn. Þær sýndu og sönnuðu þá, rétt eins og fyrir þrem áratugum, hversu mikilvægur hluti samfélagsins þær eru. Samfélagið fúnkerar ekki án þeirra. Það er vel við hæfi að þær minni á stöðu sína - nú þarf að tryggja að konur fái jafnmikið greitt fyrir sambærileg störf og karlmenn. Annað kemur ekki til greina. Það að svona dag þurfi þrem áratugum eftir hinn öfluga kvennafrídag 1975 segir sína sögu. Ég er alinn upp af öflugum konum og hef alla tíð metið mikils framlag þeirra í mitt líf - þær kenndu mér alveg gríðarlega mikið. Ef ég lít til baka og hugsa um hvar ég lærði mest á lífið hugsa ég fljótt til móðurömmu minnar, Sigurlínar Kristmundsdóttur, föðurömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur og ömmusystur, Hugrúnar Stefánsdóttur. Þær ólu mig upp sem persónu og kenndu mér að meta lífið og grunn þess í raun. Það framlag er ómetanlegt og ég tel því jafnrétti skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það þarf því ekki að kenna mér eitt né neitt í þeim efnum. Þeir sem þekkja mig og mínar skoðanir í jafnréttismálum vita hvar ég stend í þessum efnum.

Í tilefni kvennafrídagsins er við hæfi að óska íslenskum konum innilega til hamingju með daginn.

Oktavía Jóhannesdóttir

Prófkjör Samfylkingarinnar hér á Akureyri verður í næstu viku. Ef marka má fréttir mun þar verða kosið á milli tólf einstaklinga um fjögur efstu sæti listans. Þeir sem lenda neðar eru ekki öruggir á lista. Er fyrirkomulagið eins og hjá VG í borginni - aðeins geta tvær konur og tveir karlar komist í gegn í örugg sæti. Oktavía Jóhannesdóttir, eini bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér á Akureyri, ákvað að gefa ekki kost á sér í prófkjörið og víkur hún því úr bæjarstjórn eftir komandi kosningar. Oktavía hefur verið í bæjarstjórn samfellt frá árinu 1998, fyrstu fjögur árin fyrir Akureyrarlista vinstri manna, og þá í meirihlutasamstarfi við okkur sjálfstæðismenn. Frá 2002 hefur Oktavía verið bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Það hefur blasað við seinustu vikurnar að Oktavía myndi ekki fara fram, enda við ramman reip að draga. Varamaður hennar í bæjarstjórn, Hermann Jón Tómasson, ákvað að gefa kost á sér til leiðtogastöðunnar og þótti flestum ljóst að Oktavía hefði átt erfiðan slag fyrir höndum - hefði hún gefið kost á sér. Verður fróðlegt að sjá hvað Oktavía tekur sér fyrir hendur er hún víkur úr bæjarstjórn. Persónulega vil ég þakka Oktavíu fyrir ágæt samskipti í pólitík hér í bæ og óska henni góðs gengis á nýjum vettvangi - hvað svo sem hún tekur sér nú fyrir hendur er hún víkur úr bæjarpólitík.

Um fyrsta sætið takast Hermann Jón og nafni hans, Hermann Óskarsson, formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í NA. Það verður merkilegt að sjá hvor þeirra muni vinna prófkjörið og hvernig munurinn verði á milli þeirra í atkvæðum talið, er yfir lýkur. Þeir nafnar takast væntanlega á í bróðerni, en ljóst er að sá sem tapar slagnum tapar nokkru. Annar er varabæjarfulltrúi, hinn formaður kjördæmisráðs flokksins. Báðir vilja leiða listann. Ennfremur er í framboði Ásgeir Magnússon sem leiddi Akureyrarlistann árið 1998 og varð formaður bæjarráðs á því kjörtímabili, en varð svo undir í leiðtogabaráttunni hjá Samfylkingunni árið 2002 fyrir Oktavíu. Hann tók þá ekki sæti á framboðslista og hætti í bæjarmálum. Nú kemur hann aftur - og sækist merkilegt nokk bara eftir þriðja sæti flokksins. Hann vill vera með greinilega - en hefur ekki ambisjónir í leiðtogastól. Kannski hann ætli sér að verða baráttumaður flokksins í bænum. Fróðlegt hvað forystumenn Samfylkingarfélaga í bænum segja annars um það. Um annað sætið takast á þær Helena Karlsdóttir og Sigrún Stefánsdóttir.

Það blasir við að kona verði í öðru sætinu - enda karl í hinu fyrsta. Þetta verður merkilegt prófkjör - og ljóst að ekki verða allir sáttir að því loknu. Kannski fáum við að sjá sömu fýluna gjósa upp þarna og varð fyrir þrem árum þegar Ásgeiri Magnússyni var hafnað í lokuðu forvali innan flokksins.

Abba

Haldið var upp á hálfrar aldar afmæli Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, síðastliðið laugardagskvöld. Sá ég ekki útsendinguna en horfði á upptöku af henni í gærkvöldi. Var ánægjulegt að horfa á þessa skemmtilegu athöfn - kynna sér þar þekkt lög keppninnar seinustu hálfu öldina og merkilega sögulega punkta keppninnar samhliða því. Vegna afmælisins var valið besta lag keppninnar seinustu hálfu öldina. Það kom fáum á óvart að sigurlagið á þessu tímabili var Waterloo, sem hljómsveitin Abba flutti í söngvakeppninni í Bretlandi árið 1974. Er það að mínu mati ennfremur besta lag keppninnar. Vel var valið í aðdraganda keppninnar en þar var hægt að kjósa á milli fjórtán laga sem sett hafa svip sinn á sögu keppninnar. Eins og ávallt þegar farið er yfir langan feril og valið á milli merkra sögulega punkta vantar alltaf eitthvað inn í sem manni hefði þótt getað sómað sér vel þar. Vantaði að mínu mati fjölda laga sem skarað hefur fram úr á síðustu hálfu öld og hefði getað hlotið meiri heiðurssess en önnur lög. En það er eins og það er, segi ég bara.

Niðurstaðan er glæsileg og vel viðeigandi. Fá lög hafa sett sterkari svip á tónlistarsöguna en Waterloo - varð það enda upphaf að merkum frægðarferli sænsku sveitarinnar Abba, sem starfaði af krafti í um áratug og sigraði heiminn. Í öðru sæti í kosningunni varð Volare, sem heitir réttu nafni Nel blu, di pinto di blu en Ítalinn Domenico Modugno söng það árið 1958. Í 3. sæti varð Hold me now sem Johnny Logan söng til sigurs árið 1987. Hef ég aldrei verið neinn æstur Eurovision-aðdándi - á t.d. ekkert complete safn laga þess en hef fylgst með eins og flestir. Hversu oft hefur maður ekki heyrt Jón í næsta húsi segjast ekki fylgjast með en hann er svo fyrsti maður að skjánum á hverju ári. Mörg lög íslensk sem erlend í sögu keppninnar eru eftirminnileg. Öll erum við annars aðdáendur keppninnar - hvert á sinn hátt. En það er alltaf gaman að fallegum lögum - sem vekja athygli og eignast stað í hjartanu.

Páll Magnússon útvarpsstjóri

Það hefur varla farið framhjá neinum að Páll Magnússon útvarpsstjóri, birtist nú á sjónvarpsskjám landsmanna í hverri viku og les fréttir í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Hefur þetta mælst misjafnlega vel fyrir og er umdeilt meðal sumra, að því er virðist. Er einsdæmi að útvarpsstjóri lesi fréttir í sjónvarpi. Markús Örn Antonsson las kvöldfréttir 30. september 1991, á 25 ára afmæli Sjónvarpsins. Markús Örn var einn af fyrstu sjónvarpsfréttamönnum þjóðarinnar og las hann fréttir vegna afmælisins þetta kvöld merkisafmælis Sjónvarpsins þetta afmæliskvöld, ásamt Magnúsi Bjarnfreðssyni. Var það engin tilviljun, en þeir lásu fréttir í fyrsta sjónvarpsfréttatímanum hérlendis í októberbyrjun 1966. Sá munur er þó á að Markús Örn var þá ekki starfandi útvarpsstjóri, heldur borgarstjóri. Páll tók sæti Loga Bergmanns Eiðssonar, er hann fór yfir á Stöð 2. Er að mínu mati varla hægt að kvarta yfir komu Páls á skjáinn. Hann er að mínu mati einn allra besti fréttaþulur í íslenskri sjónvarpssögu - hefur allt til að prýða sem þarf í starfið. Síðasta laugardagskvöld gerði Páll grín að þessu með kostulegum hætti - er hann lék sjálfan sig í hinum ýmsu störfum hjá RÚV. Sást þar vel að Páll hefur húmor - fyrst og fremst fyrir sjálfum sér.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri hefst í kvöld. Þá munu Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, verða með framsögur. Arnbjörg, sem setur námskeiðið, fjallar um sjávarútvegsmál en Sigrún Björk um sveitarstjórnarmál. Er um að ræða fyrsta kvöldið af sex þar sem fjallað er um fjölda áhugaverðra málefna. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um sjávarútvegsmál, heilbrigðismál, menntamál, sveitarstjórnarmál, ræðumennsku- og framkomu, frétta- og greinaskrif, umhverfismál, samgöngumál, stjórnskipan og stjórnsýslu, sjálfstæðisstefnuna og Sjálfstæðisflokkinn. Um er að ræða fjölbreytt og gott námskeið sem haldið er fyrir sjálfstæðisfélögin hér á Akureyri. Mun námskeiðið standa allt til 15. nóvember, en því lýkur með pallborðsumræðum þar sem fyrir svörum verða Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi.

Saga gærdagsins
1970 Salvador Allende kjörinn forseti Chile - honum var steypt af stóli í valdaráni hersins 1973.
1975 Kvennafrídagurinn - íslenskar konur tóku sér frí á degi Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegu kvennaári, til að sýna fram á mikilvægi starfa kvenna í þjóðfélaginu. Athafnalíf í landinu lamaðist að miklu leyti. Á Lækjartorgi í Reykjavík var haldinn fundur sem 25.000 manns sóttu, nær eingöngu konur. Fundurinn markaði upphaf jafnréttisbaráttu kvenna og leiddi til stofnunar Kvennalista 1982.
1975 Sjónvarpsútsendingar í lit hófust hér á landi - deilur voru uppi um hvort ætti að taka upp litaútsendingar og var tekist á í þingsölum um hvort ætti að hafa litasjónvarp eða auka dagskrárgerð.
2002 Lögregla handtók John Allen Muhammad og Lee Boyd Malvo - þeir héldu íbúum á Washington-svæðinu í greipum óttans um margra vikna skeið með því að skjóta á fólk með veiðiriffli úr launsátri. Þeir myrtu alls 10 manns í október 2002 og særðu nokkra. Muhammad var dæmdur til dauða fyrr á þessu ári og Malvo var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Báðum dómunum var svo áfrýjað til Hæstaréttar.
2003 Concorde flugvél fer í síðustu flugferðina - ákveðið hafði verið að hætta að fljúga með Concorde eftir hörmulegt slys á Charles De Gaulle flugvelli í París 25. júlí 2000 þar sem 113 létust.

Saga dagsins
1875 Fyrsta borgaralega hjónavígslan hér á landi fór fram í Vestmannaeyjum, með leyfi konungs.
1937 Ljósafossstöðin var gangsett - með því jókst afl á svæði rafveitu RVK um rúm 13.000 hestöfl.
1976 Elísabet II Englandsdrottning, opnaði formlega þjóðleikhús Bretlands, eftir mörg ár í byggingu.
1993 Jean Chretien varð forsætisráðherra Kanada - hann sat á valdastóli allt til desember 2003.
2002 Öldungadeildarþingmaðurinn Paul Wellstone frá Minnesota, ferst í flugslysi ásamt eiginkonu sinni Sheilu og dótturinni Marciu, í N-Minnesota á kosningaferðalagi. Hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1990 og endurkjörinn 1996. Í kosningunum 11 dögum síðar var Walter Mondale fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, frambjóðandi demókrata í stað hans. Hann tapaði kosningunum fyrir Norm Coleman sem vann nauman sigur þrátt fyrir andlát Wellstone, skömmu fyrir kjördaginn.

Snjallyrðið
Svo er um ævi
öldungamanna
sem um sumar
sól fram runna;
hníga þeir á haustkvöldi
hérvistardags
hóglega og blíðlega
fyrir hafsbrún dauðans

Gráti því hér enginn
göfugan föður
harmi því hér enginn
höfðingja liðinn;
fagur var hans lífsdagur,
en fegri er upp runninn
dýrðardagur hans
hjá drottni lifanda.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Höfðinginn)

Jónas Hallgrímsson var skáld tilfinninga og sannra hughrifa - þetta ljóð hans um hinn fallna höfðingja snertir streng í hjartarót minni. Fallegt og tilfinninganæmt ljóð.