Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 október 2005

Akureyri

Landsmenn gengu að kjörborðinu á laugardag og greiddu atkvæði um sameiningu sveitarfélaga um allt land. Alls voru sameiningartillögurnar 16 talsins. Þessara kosninga verður væntanlega minnst fyrir tvennt: lélega kjörsókn og samræmdan vilja landsmanna um mestallt landið að hafna sameiningu með valdboði. Hlaut kosningin sömu örlög og hin víðtæka sameiningarkosning árið 1993. Jóhanna Sigurðardóttir talaði þá fyrir sameiningu sveitarfélaga af miklum krafti sem félagsmálaráðherra og beið nokkurn pólitískan ósigur í kosningunni. Tólf árum síðar lendir Árni Magnússon félagsmálaráðherra, í sömu aðstöðu og þessi forveri hennar í embættinu. Bæði börðust þau af krafti fyrir framgangi sameiningar með valdboði af þessu tagi og urðu undir. Bæði brugðust þau eins við slæmum úrslitunum. Þau kenndu sveitarstjórnarmönnunum um úrslitin. Það er fjarri sanni að fyrst og fremst hafi það verið sveitarstjórnarmönnum að kenna að svona fór, eins og ráðherrann hélt fram í útvarpsviðtali sem fyrstu viðbrögð við úrslitunum. Í byrjun kosningavikunnar var félagsmálaráðherra gestur á kynningarfundi á Dalvík um sameiningarmálin og fór yfir málið. Þótti mér ummæli hans þar mjög óþörf og tel reyndar að úrslitin hér í firðinum hafi markast mjög af afstöðu hans sem fram kom á fundinum. Reyndi hann reyndar að breyta túlkun sinni með frekar litlum árangri. Inntakið skildist enda mjög vel.

Athyglisverðustu úrslit sameiningarkosninganna á laugardagskvöldið voru einmitt þau að sameiningin hér við Eyjafjörð var kolfelld, svo vægt sé til orða tekið. Um var hér að ræða víðtækustu sameiningartillöguna. Kosið var um sameiningu níu sveitarfélaga í Eyjafirði, allra nema Grímseyjar. Allsstaðar var sameining felld með nokkrum mun nema á Ólafsfirði og Siglufirði. Önnur umferð verður því ekki að veruleika – sameiningartillagan í Eyjafirði er því andvana fædd. Þetta eru vissulega nokkur vonbrigði í því ljósi að margir sveitarstjórnarmenn töluðu fyrir tillögunni og studdu hana ásamt forystumönnum víða í pólitík á svæðinu. En þetta er lýðræðisleg niðurstaða sem þarna kemur fram: niðurstaða sem ber að virða og taka vel til skoðunar. Mesta athygli mína, og eflaust annarra, vekur hversu afgerandi sameiningu var hafnað hér á Akureyri. Hér höfnuðu 54% kjósenda sameiningu en 42% sögðu já. Þetta er merkileg niðurstaða - mjög afgerandi. Átti ég satt best að segja ekki von á að svona afgerandi meirihluti myndi segja nei og hafði reyndar gert ráð fyrir því að já yrði niðurstaðan hér í bæ. En svona fór þetta og í sannleika sagt tel ég þessi úrslit marka þau þáttaskil að sameining verður ekki á döfinni á þessum skala hér næstu árin. Afgerandi höfnun á sameiningu alls Eyjafjarðar hér á Akureyri eru sterk skilaboð.

Í aðdraganda þessara kosninga taldi ég að úrslitin myndu ráðast í þéttbýlisstöðunum fjórum. Myndi einhver af þeim synja væri málið andvana fætt. Taldi ég líkurnar sífellt aukast eftir því sem nær dró að sveitabyggðirnar myndu fella og var orðinn sannfærður um að það færi svo er nær dró lokum kynningaferlisins. Það fór svo að úrslitin réðust fyrst og fremst hér á Akureyri. Afgerandi höfnun á sameiningu eru mikil þáttaskil og ég tel engar líkur á svo róttækri sameiningartillögu hér næstu árin. Vilji Akureyringa virðist skýr. Allavega þeirra sem mættu á kjörstað og tóku afstöðu. Reyndar eru það tíðindin við lok ferlisins að þessu sinni hvað kosningaþátttakan hér á Akureyri er gríðarlega léleg og hvað Akureyringum virðist algjörlega vera sama um þessi mál. Segja má það almennt um landið að fólki virðist sama. Áhuginn kemur best fram í kosningaþátttökunni. Hún var víðast hvað gríðarlega léleg. Hér á Akureyri var kosningaþátttakan rúm 22%. Sú tala segir allt um stöðu mála við lok þessa ferlis við sameininguna. Áhuginn var enginn hér í bæ og fólki virtist almennt vera nokkuð sama. Sást þetta best á kynningarfundinum um málið í vikunni en þar mættu rétt um 50 manns. Víða um fjörðinn var vel mætt á kynningarfundina en áhugaleysið hér á Akureyri sagði margt um stöðu mála og var fyrirboði þess hvernig fór að lokum.

Eins og fyrr segir urðu örlög þessarar sameiningarkosningar þau sömu og árið 1993. Þá, rétt eins og nú, var ein tillaga um sameiningu samþykkt. Þá var tillaga um sameiningu tveggja sveitarfélaga á Snæfellsnesi samþykkt. Nú var tillaga um sameiningu Mjóafjarðarhrepps, Fjarðabyggðar, Austurbyggðar og Fáskrúðsfjarðarhrepps samþykkt. Verð ég að viðurkenna að ég átti alls ekki von á því að sameining þessi austur á fjörðum yrði samþykkt. Reyndar var mjög naumt á munum í Fjarðabyggð, en 52,9% sögðu þar já en 47% sögðu nei. Naumt en engu að síður er tillagan samþykkt. Austfirðingar viðhalda því ’93 syndrome-inu í sveitarstjórnarmálum og gera úrslitin ekki alslæm fyrir framsóknarmanninn Árna. Hafði ég heyrt í aðdraganda kosningarinnar að ekki væru allir sammála í Fjarðabyggð um ágæti sameiningar og hafði fyrirfram því talið að þar yrði sameining felld og málið færi í aðra umferð, rétt eins og ég hafði talið með Eyjafjörð. Niðurstaðan er sú að á hvorugum staðnum kemur til annarrar umferðar. Á öðrum staðnum er sameining úr sögunni, ja að minnsta kosti í bili, en á hinum staðnum er sameining staðreynd í fyrstu atrennu. Austfirðingar hafa löngum verið taldir einstakir – í þessu ferli og þessari kosningu fá þeir allavega þann stimpil. Hvað þeim finnst um þann stimpil skal ósagt látið.

Allavega er þetta ferli merkilegt – niðurstaðan er hinsvegar fengin. Sameiningu hefur víðsvegar verið hafnað. Í tveim af tillögunum fimmtán sem var hafnað verður að kjósa aftur og merkilegt að fylgjast með hvað gerist í þeirri atrennu að sameiningu. Hvað svo sem kemur út úr því er niðurstaðan í málinu öllu nokkur vonbrigði, einkum fyrir félagsmálaráðherrann sem barðist mjög fyrir samþykkt sameiningartillagna og hafði verið ötull talsmaður málsins mjög lengi. Það er því skiljanlegt að hann vilji kenna öðrum um skipbrot málsins. Það allavega hljómar ekki fallega fyrir stjórnmálamann á framabraut í landsmálum og gegnir embætti félagsmálaráðherra að gangast við niðurstöðunni á landsvísu sem við blasir. Niðurstaðan um allt land er afgerandi og skipbrot málsins er staðreynd. Það er bara ekki flóknara en það – þó að Austfirðingar bjargi að nokkru heiðrinum fyrir félagsmálaráðherrann (eins fyndið og það hljómar). Tek ég undir með mörgum andstæðingum sameiningar að það er rangt af yfirvöldum að framkvæma svona kosningu víða á sama tímapunkti. Það á að vera innri ákvörðun sveitarfélaga hvort að þau vilji sameinast eða taka upp nánari samvinnu í stórum málum. Gott dæmi er sameiningar hér í firðinum á undanförnum árum. Þær hafa komið fram vegna þess að sveitarfélögin hafa viljað vinna saman.

Ljóst er að þróunin stefnir í þá átt að Eyjafjörður verði að lokum eitt sveitarfélag, en það er alveg klárt að það verður að gerast í smærri skrefum en stíga átti um helgina. Það skref sem stíga átti þá mistókst algjörlega og við skullum nokkuð harkalega til jarðar við lok ferlisins. Niðurstaðan vekur okkur öll til nokkurrar umhugsunar að mínu mati. Fyrst og fremst verður sameining ekki fengin fram með valdboði, heldur því að sveitarfélögin vilji stíga skrefið. Það er grunnpunktur að mínu mati. Við fylgjumst með sameiningarferlinu næstu árin – en það er alveg klárt að afgerandi synjun okkar Akureyringa tefur mjög allt sameiningarferlið með fjörðinn sem heild.

Auður Auðuns

Í dag eru 35 ár liðin frá því að Auður Auðuns tók sæti í ríkisstjórn Jóhanns Hafsteins forsætisráðherra, sem dómsmálaráðherra. Markaði það mikil þáttaskil, enda varð Auður með því fyrsta íslenska konan sem tók sæti í ríkisstjórn. Á þeim 35 árum sem síðan hafa liðið hafa alls tíu konur tekið sæti í ríkisstjórn. Nú þegar þessi orð eru rituð sitja þrjár konur í ríkisstjórn: Sigríður Anna Þórðardóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Sigríður Anna og Þorgerður Katrín eru fulltrúar sjálfstæðiskvenna í ríkisstjórn, rétt eins og Auður Auðuns var sem dómsmálaráðherra. Auður hafði er hún varð ráðherra verið lengi forystukona innan Sjálfstæðisflokksins og gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Auður var dómsmálaráðherra í rúmt ár, en setti mark sitt á ráðuneytið á þessum skamma tíma. Þó liðu tólf ár þar til að kona varð aftur ráðherra. Sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir varð menntamálaráðherra árið 1983 og sat á ráðherrastóli samfellt í fjögur ár. Þriðja sjálfstæðiskonan, Sólveig Pétursdóttir, varð dómsmálaráðherra árið 1999 og sat í ríkisstjórn í fjögur ár, en varð forseti Alþingis árið 2005. Eins og fyrr segir sitja tvær sjálfstæðiskonur í ríkisstjórn. Því hafa fimm sjálfstæðiskonur setið í ríkisstjórn á þessum 35 árum. Hinar fimm eru þrjár framsóknarkonur og tvær alþýðuflokkskonur.

Auður Auðuns var mjög litrík á vettvangi stjórnmála. Áður en hún hóf stjórnmálaþátttöku lærði hún lögfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist árið 1935, fyrst kvenna úr lagadeildinni. Hún tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1946 og átti þar sæti allt til ársins 1970. Hún var forseti borgarstjórnar 1954-1959 og 1960-1970. Auður varð fyrsta konan sem gegndi embætti forseta borgarstjórnar. Hún varð fyrst kvenna kjörin borgarstjóri í Reykjavík árið 1959. Gegndi hún embættinu í rúmt ár ásamt Geir Hallgrímssyni sem var svo einn borgarstjóri árin 1960-1972 og tók svo við formennsku í Sjálfstæðisflokknum ári síðar. Auður var kjörin alþingismaður Reykvíkinga árið 1959 og átti hún sæti á þingi í 15 ár, eða allt til ársins 1974. Auður var ein af fyrstu konunum sem mörkuðu sér sess í stjórnmálasöguna fyrir stjórnmálaþáttöku á vettvangi borgarstjórnar og þings, og hlaut hún ævarandi sess í stjórnmálasögu landsins fyrir að verða fyrsta konan sem varð borgarstjóri og ráðherra. Hún var mikil baráttukona fyrir jafnrétti kynjanna og barðist af krafti fyrir því að konur tækju virkan þátt í stjórnmálum. Er mikilvægt að hennar þáttur í jafnréttisbaráttu kynjanna sé heiðraður sérstaklega, enda skipti sköpum að hún varð ráðherra hérlendis fyrst kvenna. Hennar framlag skipti mjög miklu máli, á því leikur enginn vafi. Auður lést 19. október 1999.

Fyrir nokkru var núverandi borgarstjóri í Reykjavík að býsnast yfir því að það vantaði áberandi kvenstyttur í borgina. Er það vissulega rétt. Er reyndar með ólíkindum að Reykjavíkurborg hafi ekki reist þessari fyrstu konu sem varð borgarstjóri styttu sem heiðri minningu hennar. Er það til marks um pólitíska eymd borgarstjórans að nefna ekki beint nafn Auðar í þessu samhengi. Ef einhver kona á skilið að stytta sé af henni á miðborgarsvæðinu er það Auður. Hún var enda alla tíð ötul baráttukona fyrir því að konur tækju virkan þátt í þjóðmálum og var virk sjálf í stjórnmálabaráttu. Á hátíðarfundi stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna í Hvannagjá hinn 27. júní í sumar samþykkti þáverandi stjórn sambandsins ályktun þess efnis að reisa ætti styttu af Auði. Þótti okkur það viðeigandi í ljósi þess að 35 ár væru liðin frá því að Auður varð ráðherra, 30 ár frá kvennafrídeginum og síðast en ekki síst þess að 90 ár voru liðin frá því að konur hlutu kosningarétt hérlendis. Við hæfi er í dag að minnast Auðar. Hún var atkvæðamikil stjórnmálakona sem hafði raunveruleg áhrif á íslenskt samfélag. Hún ruddi braut jafnréttis með framgöngu sinni og verður ævinlega minnst fyrir glæsilega og skörulega framkomu.

Þorskur

Á laugardaginn fór ég á ráðstefnu um sjávarútvegsmál í Borgum, rannsóknar- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri. Ráðstefnan var haldin á vegum Sóknar - hugveitu í þágu sjávarútvegs. Bar ráðstefnan yfirskriftina: "Hafrannsóknir - erum við á réttri leið?". Fundarstjóri var Borgar Þór Einarsson formaður SUS, en hann er ennfremur formaður Sóknar. Hófst ráðstefnan með ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, þar sem hann fjallaði um málefni sjávarútvegs á víðum grunni. Að lokinni ræðu hans hófst formleg dagskrá. Fyrstur flutti ávarp Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Flutti hann erindi þar sem hann fór yfir hlutverk hafrannsókna: í fortíð, nútíð og framtíð. Var mjög fróðlegt að hlusta á erindi Jóhanns og kynnast betur málefnum hafrannókna frá sjónarhóli fræðimannsins. Að loknu erindi hans flutti Björn Gunnarsson deildarforseti auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, erindi þar sem hann fjallaði um mikilvægi háskólamenntunar í sjávarútvegs- og fiskeldisfræðum, útfrá kennslu og rannsóknum og hvort að pólitík kæmi þar nærri. Því næst flutti Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur, erindi og fór yfir veiðar og málefni þess hvort veiða ætti meira en Hafró leggði til. Að lokum ávarpaði Peter Weiss forstöðumaður háskólaseturs Vestfjarða, ráðstefnuna og kynnti hvaða hlutverki rannsóknastofnanir á landsbyggðinni gegndu við hafrannsóknir.

Að loknu kaffihléi var komið að pallborðsumræðum. Þar sátu fyrir svörum þau Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, Örvar Marteinsson sjómaður, Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landsambands smábátaeigenda, og Elínbjörg Magnúsdóttir varaformaður Verkalýðsfélags Akraness. Fóru þau yfir efni framsöguerindanna og kynntu skoðanir sínar á þeim og málefninu almennt. Voru framsögur þeirra mjög fróðlegar. Er þeim lauk var komið að fundarmönnum að leggja fram spurningar til þeirra. Voru líflegar spurningar og skemmtilegar umræður sem hófust um málefnið og var farið víða yfir á þeim klukkutíma sem pallborðsumræðurnar stóðu. Þótti mér þessi ráðstefna mjög skemmtileg og fræðandi og sérstaklega var ánægjulegt að heyra ólíkar skoðanir á þessu mikla málefni. Eins og gefur að skilja voru þeir Einar Oddur og Kristinn H. ekki sammála. Kom Kristinn H. reyndar með þá skoðun sína að Hafró ætti að heyra frekar undir umhverfisráðuneytið en sjávarútvegsráðuneytið, við litla gleði Elínbjargar og Einars Odds. Þetta voru skemmtilegar umræður. Fundinum lauk um hálffimmleytið. Eftir fundinn hélt ég ásamt fyrirlesurum og pallborðsþátttakendum niður í bæ, og ákváðum við að fá okkur að borða saman á Fiðlaranum áður en þau héldu suður.

Vildi svo merkilega til að lyftan stoppaði á miðri leið upp á fimmtu hæðina á Fiðlarann er við ætluðum að fara þangað. Það var því merkileg tilfinning að fara fastur þar í lyftunni í um sjö mínútur ásamt t.d. Jóhanni Sigurjónssyni, Kristni H., Einari Oddi og Borgari Þór. Vorum við átta í lyftunni og biðum við eftir að losna úr þessari stöðu. Var spjallað um fjölda mála meðan beðið var. Gekk vel að komast svo áleiðis áfram þegar að leyst hafði verið úr biluninni. Eftir að hafa fengið okkur smáveitingar héldu þau inn á flugvöll. Þetta var mjög skemmtileg dagsstund og ánægjulegt að fræðast meira um sjávarútveginn og ræða við þetta góða fólk um málaflokkinn og ekki síður almennt um þjóðmál á þessum laugardegi hér á Akureyri.

Páll Magnússon útvarpsstjóri

Páll Magnússon útvarpsstjóri, birtist á skjánum að kvöldi föstudags og las fréttir í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Þetta var í fyrsta skipti sem Páll les fréttir hjá Ríkissjónvarpinu í tvo áratugi, en hann var fréttamaður þar árin 1982-1986. Þetta var í fyrsta skipti sem Páll las fréttir í sjónvarpi frá því um miðjan júlímánuð, er hann hætti störfum hjá Stöð 2 og sótti um stöðu útvarpsstjóra sem hann fékk nokkrum vikum síðar. Það markar þáttaskil að útvarpsstjóri lesi kvöldfréttir Sjónvarpsins. Hefur það ekki gerst í 14 ár að útvarpsstjóri lesi fréttir, en Markús Örn Antonsson las kvöldfréttir 30. september 1991, á 25 ára afmæli Sjónvarpsins. Svo virðist vera sem að Páll sé aðeins að leysa af, en ekki hefur enn verið ráðinn fréttalesari í stað Loga Bergmanns Eiðssonar. Er varla hægt að kvarta yfir komu Páls á skjáinn. Hann er að mínu mati einn allra besti fréttaþulur í íslenskri sjónvarpssögu seinustu fjóra áratugina. Hann hefur einhvernveginn allt sem þarf að prýða úrvalsfréttalesara: hefur glæsilega framkomu, er skýrmæltur og yfirvegaður á sjónvarpsskjánum og hefur þá virðingu sem fréttalesari verður að hafa. Þótti mér notalegt að sjá Pál lesa fréttirnar aftur á föstudaginn og svo aftur í gærkvöldi og vona að hann haldi áfram endrum og eins að lesa kvöldfréttir - það er enginn betri í fréttalestrinum en hann.

Stefán Friðrik Stefánsson

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem höfðu samband í gær við mig og tjáðu skoðun sína á breytingunni á heimasíðunni. Þótti mér tímabært að stokka hana upp og breyta til. Þótti mér vænt um að fá að heyra skoðanir annarra á breytingunum sem urðu á vefnum. Þeim sem sendu kveðjur færi ég hugheilar þakkir fyrir vinalegheitin.

Saga dagsins
1899 3 Vestfirðingar fórust, en Hannes Hafstein sýslumaður, og 2 aðrir björgðust þegar að bátur þeirra lagðist á hliðina. Þeir voru þá að reyna að komast um borð í enskan togara sem var þá að ólöglegum veiðum á Dýrafirði. 5 árum síðar varð sýslumaðurinn Hannes fyrsti ráðherra Íslendinga.
1970 Auður Auðuns tók við ráðherraembætti, fyrst íslenskra kvenna. Hún var dómsmálaráðherra í rúmt ár. Áður hafði Auður orðið fyrst kvenna borgarstjóri 1959-1960 og lengi forseti borgarstjórnar.
1972 Skyri var slett á alþingismenn og forsetahjónin er þau voru á leið frá Dómkirkju til þinghúss við formlega þingsetningu. Sá sem sletti skyrinu var Helgi Hóseasson, þekktur fyrir mótmælastöðu sína.
1980 Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, ávarpaði flokksþing íhaldsmanna í Brighton. Þar lét hún til skarar skríða gegn andstæðingum sínum innan flokksins með leiftrandi barátturæðu fyrir stefnu sinni. Þar lét hún hin fleygu orð falla: The Lady´s not for turning. Ekki var hvikað. Hún sat á valdastóli til ársins 1990 og hafði þá ríkt í 11 ár og leitt flokkinn frá 1975.
2001 Smáralind í Kópavogi var opnuð - þar eru tugir verslana og veitingastaða. Byggingin var yfir 60.000 rúmmetrar og kostnaður níu milljarðar króna. Fyrstu dagana komu þangað 250.000 manns.

Snjallyrðið
Sumir hverfa fljótt úr heimi hér.
Skrítið stundum hvernig lífið er.
Eftir sitja margar minningar,
þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig,
þarf ég bara að sitja og hugsa um þig.
Þá er eins og losni úr læðingi
lausnir, öllum hlutum við.

Þó ég fái ekki að snerta þig
veit ég samt að þú ert hér.
Og ég veit að þú munt elska mig
og geyma mig og gæta hjá þér.

Þegar tími minn á jörðu hér
liðinn er og þá ég burtu fer,
þá ég veit að þú munt vísa veg
og taka á móti mér.
Ingibjörg Gunnarsdóttir kennari (Minning)

Gríðarlega fallegt ljóð sem segir svo margt í einfaldleik sínum.