Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 október 2005

Breyting á heimasíðunni
Á þessum degi blasir vefur minn við lesendum í algjörlega nýrri mynd. Útliti hans hefur verið breytt algjörlega og eftir stendur mjög breyttur vefur sem mun taka nokkrum breytingum í viðbót á næstu dögum áður en hann er fullkláraður eins og hann verður á næstunni. Vefurinn hafði verið eins frá opnun í júnímánuði 2003 og tímabært að stokka hann aðeins upp. Ég vona að breytingarnar fari vel í lesendurna mína.

kær kveðja - SFS

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um niðurstöður sameiningarkosninganna, sem fram fóru um allt land í gær. Þessara kosninga verður væntanlega minnst fyrir tvennt: lélega kjörsókn og samræmdan vilja landsmanna um mestallt landið að hafna sameiningu með valdboði. Sameiningu var hafnað með afgerandi hætti hér í Eyjafirði en samþykkt merkilegt nokk aðeins á Austfjörðum. Fer ég yfir úrslitin og legg mat mitt á stöðu mála eftir niðurstöðurnar. Átti ég satt best að segja ekki von á að svona afgerandi meirihluti myndi segja nei og hafði reyndar gert ráð fyrir því að já yrði niðurstaðan hér á Akureyri. En svona fór þetta og í sannleika sagt tel ég þessi úrslit marka þau þáttaskil að sameining verður ekki á döfinni á þessum skala hér næstu árin. Afgerandi höfnun á sameiningu alls Eyjafjarðar hér á Akureyri eru sterk skilaboð. Í aðdraganda þessara kosninga taldi ég að úrslitin myndu ráðast í þéttbýlisstöðunum fjórum. Myndi einhver af þeim synja væri málið andvana fætt. Reyndar eru það tíðindin við lok ferlisins að þessu sinni hvað kosningaþátttakan hér á Akureyri var gríðarlega léleg. Kosningaþátttakan hér var rúm 22%. Sú tala segir allt um stöðu mála við lok þessa ferlis við sameininguna.

- í öðru lagi fjalla ég um stjórnmálalitrófið við upphaf þinghalds. Samfylkingin hefur virkað vandræðaleg undanfarna mánuði og niðurstöður skoðanakannana hljóta að vera vonbrigði fyrir flokksmenn. Á meðan eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins mjög. Það er óneitanlega engin eymd fyrir okkur pólitíska andstæðing að horfa á vandræðaháttinn sem er innan Samfylkingarinnar. Flokkurinn er ekki að fúnkera rétt – þetta staðfesta kannanir og ekki síður allur pólitíski tíðarandinn. Þetta sést umfram allt vel á vandræðalegu tali Ingibjargar Sólrúnar eftir að Davíð yfirgaf stjórnmálin. Hún á augljóslega í miklum erfiðleikum með að fóta sig eftir brotthvarf hans og virkar eins og vandræðalegur gestur í partýi þar sem hún þekkir engan viðstaddan. Hvað gerist á næstu mánuðum verður fróðlegt að sjá – allavega er það ljóst að þessi pólitíski vetur byrjar ekki sem dans á rauðum kratarósum hjá Ingibjörgu Sólrúnu.

- í þriðja lagi fjalla ég um leiðtogaslaginn í breska Íhaldsflokknum, þar sem eftirmaður Michael Howard verður brátt kjörinn. Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma. Breski Íhaldsflokkurinn hefur í stöðunni mörg sóknarfæri og allmörg tækifæri er þeir feta sig að því að finna þann sem leiðir þá áfram - til sigurs!


Stjórnmálaskóli á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins heldur námskeið á Akureyri 25. október til 15. nóvember. Á námskeiðinu verður m.a. fjallað um sjávarútvegsmál, heilbrigðismál, menntamál, sveitarstjórnarmál, ræðumennsku- og framkomu, frétta- og greinaskrif, umhverfismál, samgöngumál, stjórnskipan og stjórnsýslu, sjálfstæðisstefnuna og Sjálfstæðisflokkinn. Um er að ræða fjölbreytt og gott námskeið sem haldið er fyrir félögin á Akureyri. Sem formaður Varðar, f.u.s. á Akureyri tel ég rétt að kynna hér dagskrá skólans.

Þriðjudagur 25. október

kl. 18.00-18.10
Skólasetning: Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

kl. 18.00-19.30
Sjávarútvegsmál: Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Heilbrigðisþjónusta: Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri FSA.

Fimmtudagur 27. október

kl. 18.00-19.30
Listin að hafa áhrif: Gísli Blöndal markaðs- og þjónusturáðgjafi.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Greina- og fréttaskrif: Skapti Hallgrímsson blaðamaður.

Þriðjudagur 1. nóvember

kl.18.00-20.00
Listin að hafa áhrif: Gísli Blöndal markaðs- og þjónusturáðgjafi.

kl. 20.00-20.30
Matur

kl. 20.30-22.00
Sjálfstæðisstefnan og starfsemi Sjálfstæðisflokksins: Halldór Blöndal alþingismaður.

Fimmtudagur 3. nóvember

kl. 18.00-19.30
Umhverfismál: Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur

kl. 20.00-21.30
Sveitarstjórnarmál: Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi.

Þriðjudagur 8. nóvember

kl. 18.00-19.30
Menntamál: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur.

kl. 20.00-21.30
Samgöngumál á N-Austurlandi: Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar.

Þriðjudagur: 15. nóvember

kl. 18.00-19.30
Stjórnskipan og stjórnsýsla: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra.

kl. 19.30-20.00
Matur.

kl. 20.00-21.30
Pallborðsumræður um sveitarstjórnarmál: Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og bæjarfulltrúarnir Sigrún Björk Jakobsdóttir og Þóra Ákadóttir. Umræðum stýrir Stefán Friðrik Stefánsson formaður Varðar og stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Þórdísi Pétursdóttur, disa@xd.is, eða í síma 515 1777.


Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins var stofnaður 15. febrúar 1938 og er því tæplega sjötugur að aldri. Helsti hvatamaður að stofnun hans var Gunnar Thoroddsen, sem þá var sérstakur erindreki Sjálfstæðisflokksins og síðar varaformaður flokksins og forsætisráðherra. Stjórnmálaskólinn var starfræktur alveg fram til ársins 1954 og voru eitt til tvö námskeið þá haldin á hverju ári. Í skólanum voru fluttir fyrirlestrar um þjóðmál og komu nemendur víðsvegar að af landinu. Í upphafi fengu landsbyggðarnemendur gistingu hjá dyggum flokksmönnum meðan á námskeiði stóð.

Eftir 1954 varð hlé á skólahaldi en Stjórnmálaskólinn var síðan endurreistur árið 1973 eftir 19 ára hlé og hefur starfað óslitið síðan. Við endurreisn hans höfðu þeir Sigurður Hafstein, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Friðrik Sophusson veg og vanda af starfsemi hans. Nú hefur Þórdís K. Pétursdóttir umsjón með Stjórnmálaskólanum. Lauslega talið má ætla að rúmlega 3.500 manns hafi verið þátttakendur á námskeiðum Stjórnmálaskólans frá upphafi og getur engin stjórnmálahreyfing önnur á Íslandi státað af hliðstæðri starfsemi, hvorki fyrr né síðar.

Saga dagsins
1959 Breski Íhaldsflokkurinn vinnur kosningasigur undir forystu Harold Macmillan forsætisráðherra - þetta var þriðji kosningasigur Íhaldsflokksins í röð. Íhaldsflokkurinn ríkti samfellt allt til ársins 1964.
1963 Skáldatími kom út - þetta var fyrsta bók Nóbelsskáldsins sem var merkt Halldóri Laxness en ekki Halldóri Kiljan Laxness. Skáldatími markaði merkileg þáttaskil á ritferli Halldórs. Í bókinni kom fram merkilegt hugsjónalegt og persónulegt uppgjör við kommúnismann. Segja má að Halldór hafi í bókinni formlega snúist gegn kommúnismanum, eins og hann hafði predikað hann þá af krafti til fjölda ára.
1967 Hinn argentínski marxíski byltingaleiðtogi Che Guevara tekinn af lífi í Bólivíu, 39 ára að aldri.
1986 Stöð 2, fyrsta sjónvarpsstöðin í einkaeign, hóf útsendingar. Tilkoma hennar markaði þáttaskil.
2000 Tíu lögregluþjónum úr pappa var komið fyrir meðfram Reykjanesbraut, á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, til að minna vegfarendur á umferðarlög. Þrem þeirra var stolið en hinir enduðu í geymslu.

Snjallyrðið
Undir háu hamra belti
höfði drjúpir lítil rós.
þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei það er minning þín.
Guðmundur Halldórsson skáld (Rósin)

Yndislegt ljóð sem snertir mann alveg að innstu hjartarótum - ljóð með mikla sál.