Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 nóvember 2005

Dr. Angela Merkel

Ný ríkisstjórn Þýskalands tekur við völdum á þriðjudag í kosningu á þýska þinginu. Í dag var stjórnarsáttmáli nýrrar stjórnar undir forsæti Angelu Merkel leiðtoga CDU, undirritaður. Með því er stjórnarkreppunni í landinu lokið. Í dag eru tveir mánuðir frá þingkosningum í Þýskalandi. Ljóst varð strax að eina stjórnarmynstrið sem gæti fúnkerað af krafti væri samstjórn íhaldsmanna og krata. Og það varð niðurstaðan. Stóra samsteypa - eða grosse koalition - tekur völdin. Grosse koalition hefur ekki setið í Þýskalandi frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, og sat sú stjórn árin 1966-1969. Það verða því óneitanlega gríðarleg þáttaskil með valdatöku hennar í næstu viku. Eins og fram kom í vikunni marka stjórnarskiptin þáttaskil fyrir þýska Jafnaðarmannaflokkinn. Gerhard Schröder kanslari Þýskalands í rúm sjö ár, lætur af völdum við valdaskiptin. Hann verður ekki í stjórn Merkel og víkur af hinu pólitíska sviði. Hefur Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD. Mun Franz Müntefering, forveri hans á leiðtogastóli, verða varakanslari Þýskalands.

Óhætt er að segja að stjórnarsáttmálinn sé ítarlegur - hann er ritaður á alls 190 blaðsíður. Hefur hann að geyma áætlanir um hvernig standa skuli að því að rétta við viðskiptahalla Þýskalands. Stendur til að hækka virðisaukaskatt um 3% - úr 16% upp í 19% á árinu 2007. Ennfremur koma fram áætlanir um að standa fyrir fjárfestingarátaki upp á fjölda milljarða evra til að koma hagvexti landsins á skrið. Á þriðjudaginn fara Merkel og leiðtogar hinna tveggja flokkanna fyrir þingið og kynna stjórnina og sáttmálann formlega fyrir þingmönnum. Þar verður kosning um það. Jafnframt verður kanslari kjörinn. Mun þar með Merkel taka við embættinu. Kaldhæðnislegt er að hún tekur við embætti 22. nóvember, en þann dag eru fimmtán ár liðin frá því að eitt helsta átrúnaðargoð hennar í stjórnmálum, járnfrúin Margaret Thatcher baðst lausnar frá forsætisráðherraembættinu í Bretlandi. Mörg verkefni blasa við Merkel í embættinu - sem fyrsta konan á kanslarastóli í Þýskalandi. Stuðningsmenn binda vonir við að hún standi sig vel - andstæðingarnir vona að hún misstígi sig.

Eitt er víst: vel verður fylgst með verkum hennar og stjórnarinnar fyrstu 100 dagana - hætt er þó við að fjölmiðlar veiti stóru samsteypu fáa hveitibrauðsdaga.

Akureyri

Í dag kynnti stýrihópur á vegum Akureyrarbæjar í umhverfisráði tillögur sínar um nýjan miðbæ. Þessar tillögur eru umfram allt unnar upp úr þremur bestu verðlaunatillögunum úr íbúaverkefninu Akureyri í öndvegi. íbúaþing var haldið 18. september 2004 í Íþróttahöllinni og þar komu bæjarbúar saman og tjáðu skoðanir sínar á málefnum miðbæjarins. Á þingið mættu um 10% bæjarbúar eða um 1.500 manns. Helsta breytingin ef marka má tillögurnar er að síki verður grafið frá sjónum upp í gegnum miðbæinn. Íþróttavöllurinn mun víkja fyrir útivistarsvæði og íbúabyggð. Um 330 íbúðir verða reistar á þessu svæði - jafnframt mun rísa stórmarkaður í miðbænum - annaðhvort milli Skipagötu og Glerárgötu eða á Sjallareitnum. Ekki er gert ráð fyrir háhýsabyggð en nokkur mannvirki verða þó reist á svæðinu. Er um að ræða byggð upp á hámarkshæð 5-6 hæðir. Bæjarsjóður gerir á fjárhagsáætlun sinni ráð fyrir um 50 milljónum króna í undirbúningsvinnu en breytingarnar við síkið, gatnagerð og niðurrif húsa gætu kostað bæinn um rúmlega 500 milljónir króna.

Ef marka má tillögurnar er ekki gengið eins langt og í vinningstillögunni sem hafði gert ráð fyrir að fjarskiptahjarta bæjarins hefði orðið að flytja til: t.d. jarðlagnir og aðstöðu Símans. Mér líst vel á þessar tillögur - verður áhugavert að sjá þær verða að veruleika.

Akureyrarkirkja

Í gær voru liðin 65 ár frá vígslu Akureyrarkirkju. Í tilefni afmælis kirkjunnar verður hátíðarmessa í kirkjunni sunnudaginn 20. nóvember nk. klukkan 14:00. Í hátíðarmessunni verður frumflutt nýtt tónverk, "Da pacem Domine" eftir Jón Hlöðver Áskelsson, sem hann samdi að beiðni Listvinafélags Akureyrarkirkju. Verkið er skrifað fyrir kór, orgel og málmblásara. Það er Kór Akureyrarkirkju sem frumflytur verkið en á þessu ári minnist kórinn þess að 60 ár eru liðin frá stofnun hans. Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson predikar en sr. Svavar A. Jónsson, sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Valgerður Valgarðsdóttir djákni þjóna fyrir altari. Að messu lokinni verður Kvenfélag Akureyrarkirkju með kaffisölu og lukkupakkasölu í Safnaðarheimilinu. Ég hvet alla til að mæta - við sem unnum kirkjunni okkar fallegu og trúarstarfinu hér í bæ munum mæta.

NFS

Í dag hóf ný fréttastöð 365-miðla, NFS, útsendingar. Er þetta mjög áhugaverð þáttaskil sem þarna verða í fréttamiðlun í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig muni ganga með stöðina. Sjá allir hversu miklar breytingar verða í fjölmiðlun með tilkomu fréttastöðvar í sjónvarpi sem muni ganga í 16 tíma á dag - með því halda úti fréttaveitu til landsmanna í gegnum daginn. Spyrja má sig að því hver tilgangur RÚV sé orðinn ef einkaaðilar geta haldið úti fréttaveitu með þessu tagi sem gengur allan daginn og getur með því haldið á almannavarnarhlutverkinu sem RÚV hefur jafnan haft. Með tilkomu fréttastöðvar af þessu tagi er komin fréttaveita sem haldið getur á stórfréttum allan sólarhringinn, hvað svo sem RÚV gerir. Óska ég nýrri stöð velfarnaðar og vona að henni muni ganga vel í samkeppninni.

Saga dagsins
1709 Biskupsstofan á Hólum í Hjaltadal, brann til kaldra kola - tapaðist mikið af fornum dýrgripum.
1920 Sr. Matthías Jochumsson prestur, skáld og heiðursborgari á Akureyri, lést - viku áður á 85 ára afmæli sínu var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar og heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands. Matthías orti þjóðsöng Íslands, Lofsöng, og fjölda ljóða og samdi ennfremur fjölda leikrita.
1959 Kvikmyndin Ben-Hur í leikstjórn William Wyler frumsýnd - hún hlaut 11 óskarsverðlaun 1960.
1984 Jón Baldvin Hannibalsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins - hann sigraði Kjartan Jóhannsson sitjandi formann flokksins, en hann hafði setið á formannsstóli allt frá árinu 1980. Jón Baldvin var fjármálaráðherra 1987-1988 og utanríkisráðherra 1988-1995. Jón Baldvin varð sendiherra árið 1998.
1991 Terry Waite sleppt úr gíslingu hryðjuverkaafla í Beirút í Líbanon - honum hafði verið haldið frá árinu 1987, en hann hafði verið valinn til að vera samningamaður af hálfu breskra stjórnvalda til að reyna að leysa aðra gíslinga úr haldi. Hann var sjálfur hnepptur í varðhald, og sleppt seinast úr haldi.

Snjallyrðið
I love argument, I love debate. I don't expect anyone just to sit there and agree with me, that's not their job.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)