Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 nóvember 2005

Gerhard Schröder

Þáttaskil verða brátt í þýskum stjórnmálum. Stjórnmálaferli þýska kratans Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, lýkur í næstu viku. Hann mun þá láta af kanslaraembætti og afhenda Angelu Merkel leiðtoga CDU, völdin. Þann 22. nóvember nk. mun hin stóra samsteypa, ríkisstjórn krata og íhaldsmanna, taka við völdum. Schröder kvaddi pólitíska sviðið í gær á fundi SPD í Karlsruhe. Hann var þar hylltur sem þjóðhetja og talaði af sannfæringarkrafti í sinni síðustu pólitísku ræðu. Þáttaskil verða við brotthvarf Schröders. Hann hefur verið lykilspilari í þýskum stjórnmálum undanfarinn áratug. Hann var lengi forsætisráðherra í heimahéraði sínu, Neðra-Saxlandi. Hann varð kanslari Þýskalands í september 1998 eftir sigur vinstriflokkanna í þingkosningum. Hann vann nauman sigur í kosningunum 2002. Lengi vel þeirrar kosninganætur var útlit fyrir að Schröder missti völdin en fylgisaukning græningja undir lok talningarinnar gerði það að verkum að stjórnin hélt velli. Schröder háði erfiðan slag seinustu misseri valdaferils síns. Hann neyddist til að boða til kosninga í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí.

Hann lagði mikið undir - tókst að auka fylgi SPD en ekki að halda sér í kanslarastólnum. Úrslit kosninganna voru viss varnarsigur fyrir kratana, en engu að síður náði hann ekki að halda stöðu sinni. Stjórnin féll og með því féll yfirburðastaða hans í þýskum stjórnmálum. Fljótt varð ljóst eftir kosningarnar að Schröder gæti ekki tekist að halda kanslarastólnum nema sækjast eftir samstarfi við íhaldsmenn. Á þeim bænum kom aldrei til greina að krati leiddi stjórnina, síst af öllu Schröder. Merkel sóttist eftir stólnum, enda voru kristilegir demókratar með stærri þingflokk en kratarnir. Svo fór að kratarnir urðu að fórna Schröder. Greinileg eftirsjá er á honum við þessi þáttaskil, en nú verður fróðlegt að sjá hvað verður um þennan litríka stjórnmálaleiðtoga þýskra krata. Við Merkel blasir hinsvegar stórt og erfitt verkefni - er hægt að fullyrða að hveitibrauðsdagar hennar í embætti verði frekar fáir og næg vandræði sjáanleg í stöðunni. Merkel hefur tekist að landa stjórnarsamstarfinu - með miklum fórnum tókst henni að binda hnútana saman. En hún getur samt sem áður glaðst yfir þeim sigri að ná kanslarastólnum, fyrst kvenna.

Í dag var svo Matthias Platzeck kjörinn leiðtogi SPD á þinginu í Karlsruhe. Er hann frá A-Þýskalandi eins og Merkel. Eru mun meiri líkur á farsælu samstarfi SPD og CDU eftir þessar breytingar en þótti áður. Þau þykja um margt lík og geta unnið vel saman. Framundan eru því umbrotatímar fyrir hina sterku samsteypu - margar pólitískar áskoranir.

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að vakna upp við breytt pólitískt landslag eftir auðmýkjandi tap sitt í breska þinginu um daginn. Hann er að átta sig á því að honum tekst ekki að halda völdum mikið lengur nema bugta sig og beygja fyrir þingmönnum flokksins á aftari bekkjunum. Það er vissulega beiskt fyrir hann að uppgötva það. Hann hefur enda jafnan farið eigin leiðir og keyrt á sínum hraða. Það er ekki freistandi fyrir hann að keyra á annarra hraða í gegnum heimasvæði sitt í pólitík. Eins og vel hefur komið fram krefst órólega deildin í flokknum þess að hann hlusti á þá og vinni með þeim að málum. Það hefur skort. Staðan hefur hinsvegar breyst - þessi hópur hefur oddaatkvæði sem Blair þarf eigi hann að geta setið með einhverjum sóma fyrir sig næstu árin. Blair er að átta sig á því að harði tónninn sem hann sló í seinustu viku en var gerður afturreka með dugar ekki lengur. Annars er flokkurinn að því er virðist í mikilli krísu - stjórnin segir eitt en hópur óánægðra annað. Það er bara spurning um tíma hvenær þetta grasserar meira en orðið er. Blair var allavega tekinn í gegn um daginn og þá kynntist hann hvað hefur breyst og hvað hann þarf að gera til að halda sér áfram á pólitíska landakortinu.

Shimon Peres

Mörgum að óvörum beið Shimon Peres leiðtogi Ísraelska Verkamannaflokksins, ósigur í leiðtogakjöri í síðustu viku fyrir hinum nær óþekkta verkalýðsleiðtoga Amir Peretz. Peres, sem er kominn á níræðisaldur, hefur lengi verið einn af litríkustu leiðtogum flokksins. Það hefur hinsvegar lengi háð honum að honum hefur aldrei tekist að leiða flokkinn til sigurs í kosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Arafat og Rabin árið 1994. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir verk sín í stjórnmálum. Heima fyrir hefur hann alltaf verið umdeildur. Það má segja að myndin hér að ofan sem tekin var á minningarathöfn vegna þess að áratugur væri liðinn frá morðinu á Rabin tali vel sínu máli - Shimon Peres hefur jú alltaf verið í skugga hins öfluga leiðtoga Rabins. Hans verður minnst að lokum fyrir verk sín - en að hafa aldrei tekist að komast úr skugga hans heima fyrir.

Háskólinn á Akureyri (Borgir)

Í sunnudagspistli mínum um helgina fjallaði ég um málefni Háskólans á Akureyri. Þakka ég fyrir þau góðu viðbrögð sem pistillinn fékk eftir birtingu á sunnudaginn. Fékk ég fjölda tölvupósta frá ýmsu fólki og góðar ábendingar á efnið - er ég ánægður með þau viðbrögð og skoðanaskipti um HA. Það er alveg ljóst að við hér fyrir norðan megum ekki vera sofandi á verðinum hvað varðar stöðu Háskólans á Akureyri. Við verðum að standa vörð um hann af miklum krafti – tryggja að hann haldi styrk sínum og stöðu með markvissum hætti. Hann hefur byggst upp af miklum krafti og nýtt námsframboð hefur verið einkenni hans. En blikur eru á lofti eftir atburði seinustu vikna - það blandast engum hugur um það. Við hér fyrir norðan vitum og skynjum að ekkert er sjálfgefið með skólann og berjumst fyrir því að hann verði áfram sterkur og kraftmikill.

SUS

Á laugardaginn mun stjórn SUS funda hér á Akureyri. Þann dag verður ennfremur haldin á Hótel KEA formannaráðstefna Sambands ungra sjálfstæðismanna. Síðar sama dag verður fundur undir yfirskriftinni: Einkaframkvæmd í samgöngum, á Hótelinu. Það er gleðiefni fyrir okkur í stjórn Varðar að stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skuli funda á fyrsta fundi tímabilsins utan Reykjavíkur hér á Akureyri. Staðfestir þetta að mínu mati að ný stjórn SUS hefur í hyggju að vinna af krafti í landsbyggðarstarfinu - telur það skipta sköpum og vilji vinna með okkur í því sem skiptir máli. Það er ánægjuefni fyrir okkur að sjá hversu vel nýr formaður sér að starf okkar hér úti á landi er mikilvægt. Hlökkum við til að vinna með honum í þeim verkefnum - sé ég allavega ekki eftir þeirri ákvörðun minni að styðja hann til formennsku í SUS. Tel ég að þessi ákvörðun um fundahald hér sýni okkur vel hvernig starf okkar hér á Akureyri sé metið.

Saga gærdagsins
1917 Lögræðislög voru staðfest - samkvæmt þeim urðu menn sjálfráða 16 ára og fjárráða 21 árs. Fjárræði var lækkað í 20 ár, 1967, og í 18 ár, 1979. Sjálfræðisaldur var svo hækkaður í 18 ár, 1998.
1963 Eldgos hófst á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum. Þar sem áður var 130 metra dýpi kom upp eyja sem var nefnd Surtsey. Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, fram í júní 1967, og mun vera með lengri gosum frá upphafi Íslandsbyggðar. Surtsey var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur minnkað mjög í tímanna rás, hún var hæst 174 metrar. Eldgosið í sjónum árið 1963 er alveg einstakt.
1963 Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum - hún sat við völd í tæp sjö ár og var hluti af viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat á árunum 1959-1971. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lést á Þingvöllum, 10. júlí 1970. Bjarni fæddist þann 30. apríl 1908. Á löngum ferli sínum var dr. Bjarni, borgarstjóri í Reykjavík, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og varð loks forsætisráðherra, Hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í 9 ár, allt frá 1961 til dauðadags 1970. Var líka ritstjóri Morgunblaðsins.
1983 Tómas Guðmundsson skáld, lést, 82 ára að aldri - hann var einna fyrstur skálda til að yrkja um Reykjavíkurlíf og mannlífsbraginn í borginni við sundin. Hann vakti mikla athygli með ljóðabók sinni Fögru veröld, sem kom út 1933. Tómas vakti mikla athygli með liprum og undurljúfum skáldstíl sínum.
1985 Hólmfríður Karlsdóttir, 22 ára fóstra úr Garðabæ, kjörin Ungfrú Heimur (Miss World) í London.

Saga dagsins
1923 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, hóf að rita bréf til Láru Ólafsdóttur á Akureyri - bréfin sem hann skrifaði henni urðu undirstaðan í bók hans, Bréf til Láru, sem varð mikið tímamótarit í sögu bókmenntanna og gerði Þórberg landsfrægan sem rithöfund - Þórbergur Þórðarson lést árið 1974.
1969 Samtök frjálslyndra og vinstri manna, stofnuð - hann var stofnaður sem sérframboð Hannibals Valdimarssonar og bauð fyrst fram í alþingiskosningunum 1971 og sat í ríkisstjórn 1971-1974. Eftir slit stjórnarinnar og brotthvarf Hannibals úr pólitík fjaraði fljótt undan flokknum - var lagður niður 1979.
1978 Mesta slys íslenskrar flugsögu varð þegar 197 manns fórust er þota sem var í eigu Flugleiða hf. hrapaði í lendingu á Colombo í Sri Lanka. 8 íslenskir flugliðar létu lífið en fimm komust lífs úr slysinu.
1990 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að gefa afgreiðslutíma verslana í borginni alveg frjálsan.
1999 Edduverðlaun, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, voru afhent í fyrsta skipti. Mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, byggð á sögu föður hennar, var þá mjög sigursæl.

Snjallyrðið
Success is having a flair for the thing that you are doing; knowing that is not enough, that you have got to have hard work and a sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)