Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 mars 2006

50 ára leikafmæli Þráins Karlssonar

Þráinn Karlsson

Þann 28. mars 1956 sté Þráinn Karlsson í fyrsta skipti á leiksviðið í Samkomuhúsinu á Akureyri og lék smátt hlutverk í rómantíska alþýðuleikritinu Úlfhildi. Síðan er liðin hálf öld og í kvöld var leikafmæli Þráins fagnað með hátíðarsýningu í Samkomuhúsinu okkar gamla og góða. Þar var sýnd nýjasta afurðin á leiksviðinu í okkar sögufræga leikhúsi, Litla hryllingsbúðin í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa.

Í frétt á akureyska fréttavefritinu segir Helgi Már Barðason svo um feril Þráins Karlssonar: "Þráinn Karlsson hefur starfað hjá LA í fimm áratugi og var meðal þeirra leikara sem fyrst fengu fastráðningu þegar LA varð atvinnuleikhús árið 1973. Síðan þá hefur hann farið með mörg hlutverk fyrir félagið, stór og smá. Þar má meðal annarra nefna Sganarelle í Don Juan, Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför, Þórð í Stalín er ekki hér, Bjart í Sjálfstæðu fólki, Matta í Púntilla og Matta, Anton Antonovitsj í Eftirlitsmanninum, Roulin bréfbera í Bréfberanum frá Arles, hlutverk í My Fair Lady og í Edith Piaf, Ezra Pound í Skjaldbakan kemst þangað líka, Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni, Eddie Carbone í Horft af brúnni, karlhlutverkin í BarPari, Fangavörðinn í Leðurblökunni, Charlie Baker í Útlendingnum, Angel í Undir berum himni, Jeeter Lester í Tobacco Road, Póloníus í Hamlet og Ananías í Gullbrúðkaupi, og er þá fátt eitt talið.

Hann hefur einnig leikstýrt nokkrum vinsælustu sýningum félagsins, svo sem Ættarmótinu, Fátæku fólki og nú síðast Blessuðu barnaláni. Þá hefur Þráinn hannað og smíðað leikmyndir. Árið 1974 stofnaði hann Alþýðuleikhúsið ásamt með öðrum og vann með því að nokkrum sýningum svo sem Krummagulli og Skollaleik. Hann starfaði um tíma í Þjóðleikhúsinu og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Þráinn vinnur einnig að myndlist og helgaði sig slíkum störfum veturinn 1995-1996 en þá var hann bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. Í vetur hefur hann leikið í öllum uppsetningum LA, Fullkomnu brúðkaupi, Maríubjöllunni og Litlu hryllingsbúðinni. Fyrir hlutverk sín í vetur hefur Þráinn hlotið frábærar viðtökur." Helgi Már orðar þetta svo vel að engu er hægt við það að bæta og mun betra að vitna í ítarleg og vönduð skrif hans um feril Þráins en skrifa eitthvað sjálfur.

Þráinn Karlsson er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar. Það hefur allt frá því að ég var kornungur verið sannkölluð upplifun að fara í Samkomuhúsið og fylgjast með þessum snilldarleikara okkar, meistaranum í leikhúsinu, vinna hvern leiksigurinn og toppað sig með hverju árinu. Við hér fyrir norðan getum verið stolt af verkum hans og við hyllum hann öll sem eitt á þessum merku tímamótum. Þráinn Karlsson er einn af bestu leikurum í sögu Leikfélags Akureyrar og fyrir löngu öðlast þann sess í huga okkar allra sem förum þangað á hverju ári til að njóta góðra sýninga og vandaðra menningarviðburða sem eru á heimsmælikvarða. Innilega til hamingju Þráinn með þinn merka áfanga og hafðu mikla þökk fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt með þér í Samkomuhúsinu.

Viðtal Margrétar Blöndal við Þráinn Karlsson