Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 mars 2006

Caspar Weinberger látinn

Caspar Weinberger

Caspar Weinberger fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lést í dag, 88 ára að aldri. Weinberger var einn af lykilmönnum utanríkisstefnu Bandaríkjanna í forsetatíð Ronald Reagan á níunda áratugnum og öflugur í starfi Repúblikanaflokksins til fjölda ára. Hann fæddist í San Francisco í Kaliforníu þann 18. ágúst 1917. Hann nam lög við Harvard og gegndi herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni við Kyrrahafið. Að því loknu hóf hann störf sem lögfræðingur í Kaliforníu og tók þátt í stjórnmálum fyrir flokk sinn til fjölda ára í sínu heimafylki og var t.d. fylkisþingmaður 1952-1958. Hann var einn af nánustu pólitísku ráðgjöfum Ronald Reagan í ríkisstjóratíð hans í Kaliforníu 1967-1975 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir flokkinn í ríkisstjóratíð Reagans. Hann fluttist til Washington árið 1970 og gegndi fjölda starfa í viðskiptaheiminum til fjölda ára og þótti mjög farsæll og áberandi á því sviði.

Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1980. Weinberger hafði stutt sinn gamla félaga með öflugum hætti og lagt honum mikið lið. Í desember 1980 skipaði Reagan, Casper Weinberger sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Skipunarferli hans tók skamman tíma og öldungadeildin staðfesti skipan hans með afgerandi hætti. Weinberger hafði fram að því ekki verið þekktur sem mikill spekúlant í alþjóðastjórnmálum en þótti farsæll og öflugur stjórnandi. Hann var náinn bandamaður forsetans í lykilmálum og þeir deildu þeirri skoðun að Sovétríkin væri ógn í alþjóðamálum og í raun afl hins illa, eins og Reagan orðaði það í frægri ræðu. Weinberger var mikill talsmaður hersins og þótti afgerandi í afstöðu sinni í því að leita eftir því að hann héldi styrk sínum sem víðast. Hann varð síðar lykilmaður í samningaviðræðum stórveldanna og kom sem slíkur auðvitað með Reagan forseta til Reykjavíkur á leiðtogafund hans og Gorbatsjovs.

Caspar Weinberger varð einn litríkasti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Ferli hans lauk þó snögglega en Íran-Kontra málið veikti mjög stöðu hans og ekki síður forsetans. Weinberger ákvað að segja af sér ráðherraembættinu og boðaði afsögn sína þann 23. nóvember 1987. Weinberger nefndi veikindi eiginkonu sinnar sem ástæðu afsagnarinnar og hann vildi setjast í helgan stein. Það sem eftir lifði seinna kjörtímabils Reagans gegndi Frank C. Carlucci embætti varnarmálaráðherra. Í kjölfar þess að Íran-Kontra málið komst í hámæli blasti við að Weinberger myndi þurfa að svara til saka fyrir að hafa borið ljúgvitni vegna málsins. Til þess kom ekki en George H. W. Bush eftirmaður Reagans á forsetastóli og varaforseti hans, náðaði Weinberger í desember 1992.

Aðeins Robert McNamara hafði gegnt lengur embætti varnarmálaráðherra en Weinberger er hann lét af embætti. Reyndar styttist óðum í að Donald H. Rumsfeld jafni tímalengd hans í embættinu. Seinustu ár ævi sinnar var Caspar Weinberger lítið sýnilegur í umræðunni og hann eyddi efri árunum á heimili sínu í Mount Desert í Maine-fylki.