Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 mars 2006

Laila Freivalds segir af sér

Laila Freivalds

Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í dag. Hún hafði þá setið á ráðherrastóli í tvö og hálft ár, eða allt frá hinu skelfilega morði á forvera hennar, Önnu Lindh, í september 2003. Skipan Lailu í embætti utanríkisráðherra kom mörgum á óvart, enda fannst mörgum undarlegt að henni yrði valið það hlutskipti að taka við af Lindh, sem var einn vinsælasti stjórnmálamaður Svíþjóðar er hún lést og hafði verið talin krónprinsessa sænska Jafnaðarmannaflokksins til fjölda ára. Laila hafði hinsvegar alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og ekki allir á eitt sáttir um ágæti hennar innan Jafnaðarmannaflokksins. Hún varð t.d. að segja af sér embætti dómsmálaráðherra árið 2000 vegna fasteignahneykslis. Það þótti því til marks um ákveðni forsætisráðherrans að skipa hana til starfans í stað hinnar vinsælu Önnu Lindh, sem hafði verið sameiningartákn vinsælda innan flokks og meðal þjóðarinnar.

Laila Freivalds hefur verið umdeild og umtöluð í utanríkisráðherratíð sinni. Hún og Göran Persson forsætisráðherra, sættu harðri gagnrýni í ársbyrjun 2005 fyrir það hvernig sænsk stjórnvöld tóku á stöðu mála eftir að flóðbylgjan mikla skall á ströndum landa við Indlandshaf í árslok 2004. Þóttu viðbrögð hennar slæm, en hún batt ekki enda á jólaleyfi sitt er staða mála varð betur ljós, þ.e.a.s. að fjöldi Svía hefðu farist í harmleiknum. Frægt varð að hún ákvað að stytta ekki leyfið og hélt í leikhús um kvöldið frekar en að koma aftur til Stokkhólms og skeytti í engu ábendingum aðstoðarmanna sinna. Sama átti við um Persson. Síðar báðu þau þjóðina opinberlega afsökunar á afglöpum sínum. Í fyrra kom málið aftur er það fór fyrir rannsóknarnefnd og töldu þá flestir að Freivalds myndi þurfa að segja af sér en hún stóð málið í heild af sér. Ástæða afsagnarinnar er hinsvegar ásakanir um að hún hafi brotið stjórnarskrá með því að láta loka vefsíðu sem birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Er enda lögbrot að stjórnvöld hafi slík afskipti.

Laila Freivalds sagði á blaðamannafundi í morgun að hún hefði sjálf átt frumkvæði að afsögninni. Trúa fáir því mati og bendir flest til þess að Persson hafi skipað henni að segja af sér. Tilgangurinn er enda næsta augljós, enda er fylgi ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð dalandi og persónulegt fylgi forsætisráðherrans hefur fallið verulega á kjörtímabilinu. Kosningar verða í Svíþjóð í september og skv. skoðanakönnunum eiga borgaralegu stjórnmálaöflin góða möguleika á að velta Persson og stjórn hans úr sessi. Það kemur því fáum beinlínis að óvörum að Persson fórni Lailu Freivalds, sem hefur alla tíð verið einn af allra óvinsælustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar og var mun umdeildari í utanríkisráðherratíð sinni en hún var sem dómsmálaráðherra. Við brotthvarf sitt úr stjórn er hún sökuð um að ljúga til um aðild sína að málinu sem varð henni að falli og eins um aðdraganda eftirmála flóðbylgjunnar á Indlandshafi, þar sem hún sniðgekk allar ábendingar um að taka af skarið í viðbrögðum.

Það hafði blasað við lengi að Freivalds myndi missa ráðherrastólinn fyrir kosningar en margir töldu að tilefnið yrði annað. Persson skynjar að það er á brattan að sækja í þingkosningunum í haust og hefur metið það sem svo að Lailu Freivalds væri betra að fórna en valdaferlinum sjálfum. Reyndar fannst mörgum merkilegt að Laila skyldi gerð að utanríkisráðherra allt frá upphafi. Hún þótti útbrunninn stjórnmálamaður og hafa á sér ásýnd óheiðarleika. Hefur enda jafnan verið talið að hún hafi verið valin til starfans vegna þess að hún myndi ekki skyggja um of á forsætisráðherrann. Svo gæti þó farið að afglöp hennar í starfi kosti kratana sigur í haust og greinilegt er að Persson leggur áherslu á að hún fari svo að því verði bjargað sem mögulega sé hægt að bjarga.

Fyrst í stað mun Bosse Ringholm aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, gegna embætti utanríkisráðherra. Almennt er talið að Persson reyni að bæta ímynd sína með því að skipa sterkan og öflugan stjórnmálamann, jafnvel aðra konu, til embættisins. Reyndar er mjög hugleitt í Svíþjóð hver taki við Jafnaðarmannaflokknum af Persson, sem leitt hefur flokkinn samfellt í áratug. Aðeins Tage Erlander og Olof Palme hafa leitt flokkinn lengur. Óháð því hvort Persson sigrar í kosningunum í haust blasir við að leiðtogaskipti verði í sænska Jafnaðarmannaflokknum bráðlega. Brotthvarf Lailu Freivalds breytir engu um það.

Saga dagsins
1874 Amtmannsstofan á Möðruvöllum í Hörgárdal brann. Hún var reist í stað húss sem brann tæpri hálfri öld áður. Ennfremur voru þar nokkuð margir kirkjubrunar, sem sagt er frá í sögufrægum ritum í firðinum.
1955 Bandaríski leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á Frank Pulver í kvikmyndinni Mister Roberts. Hann hlaut verðlaunin aftur árið 1974, þá fyrir Save the Tiger. Lemmon var einn af bestu gamanleikurum Bandaríkjanna á 20. öld og þekktur fyrir grínleik sinn. Hann lést í júnímánuði 2001.
1974 Undirskriftir 55.522 Íslendinga voru afhentar forseta sameinaðs Alþingis þar sem varað var við uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Undirskriftasöfnunin gekk undir nafninu Varið land.
1994 Leikkonan Holly Hunter hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni mállausu kjarnakonu Ödu McGrath í kvikmyndinni The Piano.
1999 Leikstjórinn Steven Spielberg hlaut leikstjóraóskarinn fyrir kvikmynd sína, Saving Private Ryan. Þetta var í annað skiptið sem hann hlaut óskarinn. Áður hlaut Spielberg verðlaunin sama dag fimm árum áður, þá fyrir leikstjórn sína í hinni eftirminnilegu Schindler's List.

Snjallyrðið
Life without liberty is like a body without spirit.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)