Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 mars 2006

Snúinn ökkli

Ökkli

Jæja, ég varð fyrir því óláni seinnipartinn í dag að hrasa svo illa að ég varð að fara á slysadeildina. Niðurstaðan er sú að ég sneri upp á ökklann og er því draghaltur. Hitti reyndar góðan vin minn í biðinni á slysadeildinni og ræddum við um margt og mikið á meðan. Fannst merkilegt að eftir allt saman myndum við enda saman í bið á slysadeild. Alveg kostulegt. Ég fékk hina fínustu umönnun og fór við svo búið heim og sleppti fundi í kvöld sem var um bæjarmál. Hringdi í Björn Magnússon og bað hann að bera fundinum kveðju mína. Fannst honum og Guðmundi reyndar skondið að fá símtal um að ég væri með snúinn ökkla enda höfðum við hist aðeins nokkrum klukkutímum áður og átt saman langan og góðan fund.

Þetta var alveg skelfilega sárt fyrstu stundirnar eftir óhappið en ég drattast svona um eins og haltur gamall maður. :) Reyndar hefur mér ekki liðið djöfullegar í fætinum í mörg ár, allt síðan í slysinu forðum er ég fór illa á öðrum fætinum. En þetta er enginn heimsendir og ég ætla að halda áfram á fullu eftir fremsta megni. Mæti í vinnuna á morgun auðvitað, enda ég ekki þeirrar gerðar að láta mig vanta lengi. Ég er þannig týpa að ég held alltaf áfram - sama hvað gerist. Ég er semsagt alveg þrælsnúinn, eins og venjulega reyndar. :)

Saga dagsins
1939 Þýsk sendinefnd kom til Reykjavíkur, tæpu hálfu ári fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Fóru þeir fram á að fá að koma upp flugbækistöð hérlendis. Beiðninni var hafnað af stjórnvöldum.
1948 Breski leikarinn Ronald Colman hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Anthony John í kvikmyninni - var einn af virtustu leikurum Bretlands á 20. öld. Colman lést árið 1958 úr lungnasýkingu.
1952 Bandaríski leikarinn Humphrey Bogart hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Charlie Allnut í kvikmyndinni The African Queen. Bogart var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og hlaut vinsældir fyrir kraftmikla og litríka túlkun á sterkum og hnarreistum karakterum. Hann lést í janúar 1957 úr krabbameini. Bogart var valinn besti leikari 20. aldarinnar við aldamótin 2000.
1991 Ásgeir Hannes Eiríksson flutti stystu þingræðuna í sögu Alþingis Íslendinga. Við umræðu um álversbyggingu á Keilisnesi tók Ásgeir Hannes til máls og sagði aðeins 4 orð: "Virðulegi forseti. Álverið rísi!".
2003 Sprengjum Bandamanna rignir yfir stjórnsýslubyggingar Íraka og helstu höfuðstöðvar Saddam Hussein í höfuðborginni Bagdad - fljótt dró úr mætti Baath-stjórnarinnar og ljóst varð allt frá upphafi að auðvelt yrði að fella hana. Árásirnar lömuðu forystu landsins og landhernaður hófst í kjölfar þess. Stjórnin féll 20 dögum síðar.

Snjallyrðið
Disciplining yourself to do what you know is right and importance, although difficult, is the highroad to pride, self-esteem, and personal satisfaction.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)