Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 mars 2006

Ógleymanleg kvikmyndaperla

James Stewart og Grace Kelly í Rear Window

Flestir sem þekkja mig vita að ég er algjör kvikmyndafíkill og eflaust fer það ekki framhjá þeim sem líta á heimasíður mínar. Ég á enda gríðarlega mikinn fjölda mynda. Þær sem ég hef mest gaman af eru gamlar eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Þegar að ég vil virkilega njóta lífsins set ég gamla eðalmynd í DVD-spilarann og horfi á með miklum áhuga. Uppáhalds leikstjóri minn er (að öllum öðrum annars ólöstuðum) Sir Alfred Hitchcock. Það er enginn vafi á því að ferill Hitchcocks var algjörlega einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar - meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann tæplega 70 kvikmyndum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á kvikmyndagerð og sögu kvikmynda. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Ég á flestallar kvikmyndir meistara Hitchcocks og hef lagt mikla rækt við að safna þeim. Nokkrar á ég enn eftir að safna en sumum náði ég í ferð minni til Washington í október 2004. Meðan að flestir ferðafélaganna í þeirri ferð voru að versla föt og annan óþarfa lá ég í myndaverslunum að kaupa mér DVD-diska. Sennilega trúa því fáir þegar að ég segi það en ég segi það samt hér: ástríða mín á kvikmyndum er í hjartanu meiri en fyrir stjórnmálum. Það að horfa á góða kvikmynd, spá í öllum meginþáttum hennar og pæla svo í heildarrammanum á eftir er sannkallað listform og satt best að segja er það sönn og heilsteypt ástríða. Þegar að ég vil komast í gírinn aftur horfi ég á góða mynd eða les bók. Ég er reyndar þannig karakter að ég verð alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Það er kannski þess vegna sem þessir vefir eru meira en bara lúkkið. Hér hafa sjaldan liðið dagar vegna skrifa. Þetta er vegna þess að þetta er ástríða og áhugamál frá hjartans rótum.

Í kvöld gleymdi ég mér algjörlega og setti í spilarann eina af eðalmyndum meistara Hitchcocks. Rear Window, gerð á árinu 1954, er ógleymanlegt meistaraverk úr safni hans. Hún segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í kjölfar vinnuslyss, neyðist til að hanga heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast mannlífinu hjá nágrönnum hans og uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en það er ekki nóg, hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að hann hefur verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.

Hér gengur bókstaflega upp til að skapa ómótstæðilegt meistaraverk. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina uppi, er á skjánum allan tímann og er hrein snilld að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki sem margir höfðu hafnað áður en hann tók því, m.a. hafði Humphrey Bogart, Spencer Tracy og Cary Grant verið boðið hlutverkið. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann vonda kallinn (helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason).

Rear Window er ein af þessum úrvalsmyndum kvikmyndasögunnar sem allir verða hreinlega að sjá. Hafði ég ekki séð hana nokkuð lengi og naut hennar sem ég væri að sjá hana í fyrsta skiptið. Þannig eru eðalmyndir - þær eru alltaf ferskar og heilsteyptar sama hvort verið sé að horfa á í fyrsta skiptið eða það tuttugasta ef út í það er farið. Ég er allavega kvikmyndaáhugamaður af hjartans náð og tel það mjög áhugaverðan og góðan kost að vera áhugamaður um kvikmyndir. Þeir sem einu sinni hafa helgað hjartað sitt kvikmyndum og pælingum um það vita vel hverju ég er að lýsa. Þetta er alveg eðall.

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Það segi ég allavega fyrir mig - verandi kvikmyndáhugamaður af ástríðu. Hvet ég enda alla til að njóta kvikmynda sem sannrar ástríðu. Það bætir alla.

Umfjöllun SFS um Sir Alfred Hitchcock