Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 mars 2006

Lífróður Framsóknarflokksins í Reykjavík

Björn Ingi Hrafnsson

Það er alveg ljóst að skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær á fylgi flokkanna í borginni var reiðarslag fyrir meirihlutaflokkana innan R-listans. Ef marka má þá könnun er Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburðastöðu og með afgerandi meirihluta. Allar kannanir seinustu mánuðina hafa verið að sýna sterka stöðu flokksins og í raun blasir við að meirihlutaflokkarnir eiga verulega undir högg að sækja. Sýnu verst er staða Framsóknarflokksins, sem mælist nú með innan við þriggja prósenta fylgi. Þetta lélega gengi kemur á óvart miðað við hversu mikla athygli Framsóknarflokkurinn hefur verið að fá seinustu vikur, bæði vegna prófkjörs og kynningar á framboðslista. Ef marka má þetta mun Framsóknarflokkurinn vera utangarðs í borgarstjórn næstu fjögur árin sem væri áfall fyrir flokkinn. Hann hefur enda haft veruleg áhrif í borgarkerfinu innan R-listans og t.d. er hann nú með forsæti borgarstjórnar og forystu í ýmsum helstu nefndum borgarinnar.

Það er mjög merkilegt að innkoma Björns Inga Hrafnssonar hefur ekki bætt stöðu flokksins með neinum hætti. Það vekur athygli enda er Björn Ingi ungur maður og ekki með fortíð í borgarmálum og er því sem ferskur vindblær fyrir flokkinn. Það er þó ekki að skila sér í fylgi eða sterkri stöðu í aðdraganda kosninganna. Það hefur gengið allt á afturfótunum hjá Framsókn seinustu vikurnar eftir prófkjörið og vond staða virðist aðeins ætla að verða sífellt verri. Þar spilar mikla rullu brotthvarf Önnu Kristinsdóttur úr forystusveit flokksins. Hún varð undir í leiðtogaslag prófkjörsins og boðaði brotthvarf sitt úr borgarmálum í kjölfar þess að hún varð í öðru sæti í prófkjörinu og hafnaði formlega sætinu. Í staðinn mun Óskar Bergsson verða í öðru sæti listans, en hann varð þriðji í prófkjörinu. Greinilegt er á tali Önnu Kristinsdóttur og skrifum hennar að hún ætlar ekki að lyfta litla putta fyrir Björn Inga og reynir að gera honum sem mesta skráveifu. Það sést vel á því sem gerst hefur seinustu vikur.

Ég skil Önnu Kristinsdóttur og sárindi hennar mjög vel. Hún sóttist eftir fyrsta sætinu og lagði mikið undir. Það náðist ekki og því metur hún það best að halda sig til hlés. Ég þekki þetta vel sjálfur enda hef ég farið í prófkjör og óskað eftir stuðningi flokksfélaga til verka og orðið undir í þeim slag. Það er mjög erfitt að ætla sér að halda áfram á sama krafti eftir og áður var. En það sést reyndar vel á því hverjir eru í pólitík af ástríðu. Hafi fólk áhuga getur það ekki hætt að spá í pólitík. Það enda sést mjög vel að Anna er hvergi nærri hætt og stefnir að framboði síðar. Held ég að hún ætli í þingkosningarnar að ári. Allavega talar hún ekki eins og kona sem hefur lagt árarnar í bát í pólitík. Tel ég að hún meti það sem svo að hennar séns verði meiri en ella ef Björn Ingi siglir flokknum í strand í borgarstjórnarkosningum. En Anna er ákveðin í hörku sinni og hvergi feimin. Reyndar er það mesti skaði Framsóknar að báðir borgarfulltrúarnir hætta og því ljóst að Björn Inga skortir sárlega reynslu í baráttuna.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík rær þessar vikurnar klárlega lífróður sinn. Ef þeir þurrkast út í borgarstjórn í vor mun það klárlega teljast afhroð fyrir flokkinn og pólitískur ferill Björns Inga mun bíða verulegan hnekki. Ef Björn Ingi nær ekki kjöri þá er það auðvitað gríðarlegt kjaftshögg fyrir flokksforystuna í Framsóknarflokknum að ekki aðeins mun nánasti armur Halldórs Ásgrímssonar verða fyrir hnekki heldur hann sjálfur auðvitað. Það er því greinilegt að allt mun verða lagt í sölurnar og fróðlegt að sjá hvernig Björn Ingi og hans liðsveit spilar úr sínum spilum og möguleikum sínum næstu vikurnar. Það verður mjög athyglisvert að mínu mati að fylgjast með lífróðri Framsóknar í borgarmálunum. Einn þáttur þessa er að Alfreð Þorsteinsson er horfinn og væntanlega munu allir flinkustu auglýsingaspekúlantar landsins verða dregnir til að reyna að hífa Framsókn upp.

Það verður óneitanlega ein af stærstu spurningum þessarar kosningabaráttu hvort að Framsókn í Reykjavík þurrkast út eða tekst að halda sér á floti undir pólitískri forystu Björns Inga Hrafnssonar. Ef marka má stöðuna er tveir mánuðir sléttir eru til stefnuna blæs ekki byrlega fyrir meirihlutaflokkana og allra síst Framsókn undir forystu Björns Inga.