Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 mars 2006

Björgunarþyrlu til Akureyrar

Björgunarþyrla

Eins og vel hefur komið fram eru þáttaskil framundan í varnarmálum Íslands og bandaríski herinn er búinn að tilkynna brotthvarf sitt héðan með haustinu. Það er því ljóst að hlutverk Keflavíkurflugvallar breytist. Rætt er um hvernig eigi að mæta þessum breytingum og oftar en ekki ber Landhelgisgæsluna oft á góma í því samhengi. Það blasir við öllum að Gæsluna verður að styrkja verulega. Í morgun kynnti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi tillögur sínar í málinu. Þær gera ráð fyrir því að staðan verði leyst í tveim áföngum. Er ætlað að lokatillögur um framtíðarskipulag þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar liggi fyrir innan 2 mánaða og að tillögur til bráðabirgðalausnar séu ljósar innan þriggja vikna. Telur Björn að til bráðabirgða sé vænlegt að leigja þyrlur í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar en til langframa sé stefnt að því að kaupa eða leigja nýjar þyrlur. Hefur verið skipuð nefnd til að vinna að lokatillögum, sem liggja eigi fyrir bráðlega.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær lagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fram tillögu, sem var samþykkt, er bendir á mikilvægi þess að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett hér á Akureyri. Eins og bent er á í tillögu Kristjáns Þórs er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Óskaði bæjarráð samhliða samþykkt tillögu bæjarstjóra eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs Íslendinga í kjölfar brottflutnings þyrlusveitar varnarliðsins. Tillaga bæjarstjóra var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs.

Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að óháð því hvernig viðræður við Bandaríkjastjórn sem fram fara í Reykjavík í næstu viku þarf að efla Landhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun.

Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla. Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Landhelgisgæslan hefur verið efld með þeim hætti sem við blasir að verður að gera, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

Saga dagsins
1948 Breski leikarinn Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir hreint stórfenglega túlkun á prinsinum Hamlet - Olivier var einn fremsti leikari og leikstjóri Breta á 20. öld og fór á kostum í dramatískum myndum og skapaði einnig ógleymanlega karaktera á hvíta tjaldinu á löngum leikferli sínum. Sir Laurence varð bráðkvaddur í júlímánuði 1989. Hann var valinn besti leikari Bretlands á 20. öld við lok aldarinnar árið 2000.
1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið formlega í notkun - húsið var helgað minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, en borgin eignaðist flest listverk hans.
1987 Albert Guðmundsson segir af sér ráðherraembætti - var það vegna ásakana um að hann hefði ekki talið fram til skatts sérstakar greiðslur, sem fyrirtæki í eigu hans hafði fengið frá fyrirtækinu Hafskip hf. á meðan hann var fjármálaráðherra á árunum 1983-1985. Varð skipafyrirtækið gjaldþrota í árslok 1985 og Útvegsbankinn tapaði þar stórfé en Albert var formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans 1980-1983. Albert gekk í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði með stuðningsmönnum sínum Borgaraflokkinn, sem hlaut 7 þingmenn í kosningunum 1987. Albert sat á þingi fyrir flokkinn til 1989 og varð sendiherra í Frakklandi. Hann lést í apríl 1994.
1989 Eitt af verstu olíuslysum í sögu Bandaríkjanna á 20. öld á sér stað þegar að olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandar við Alaska - síðar kom það í ljós að skipstjórinn hafði verið drukkinn. Leiddi til málaferla og deilna. Varð slysið álitshnekkir fyrir Exxon sem neyddist til að borga metfé í skaðabætur.
2002 Leikkonan Halle Berry hlaut óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Leticiu Musgrove í Monster´s Ball - Berry varð fyrsta þeldökka aðalleikkonan í sögu akademíunnar til að hljóta þessi leikverðlaun.

Snjallyrðið
Everytime you smile at someone, it is an action of love, a gift to that person, a beautiful thing.
Móðir Teresa (1910-1997)