Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 mars 2006

Sunnudagspistill - 26. mars 2006

Stefán Friðrik

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:

- Viðræður munu hefjast við Bandaríkjamenn um varnir landsins í vikunni. Tel ég að þær viðræður verði að snúast um hvað þeir ætli í staðinn að gera til að tryggja sýnilegar varnir hér á landi. Það er enda mat mitt að án sýnilegra varna sé varnarsamningurinn við Bandaríkin ekki pappírsins virði og þá verði að líta í aðrar áttir og við að taka frumkvæðið til okkar í því sem koma skal. Ég tel t.d. hjalið um nútímavæðingu varna vera fyrir neðan virðingu okkar. Annaðhvort eru hér sýnilegar varnir eða engar varnir. Orðið nútímavæðing er bara valið til að milda reiði okkar að talsverðu leyti. Það er alveg ljóst að án marktækra varna er hlutverki varnarsamningsins í raun lokið. Það blasir að efla verður Landhelgisgæsluna og fá fleiri þyrlur. Vil ég að ein þeirra verði staðsett hér norður á Akureyri.

- Tel ég að netskrif og virk þátttaka í þjóðmálaumræðunni sé mjög vænleg fyrir fólk. Það hefur lengi verið mitt mat að fólk geti orðið virkara með því að skrifa um stjórnmál en að standa í atinu sjálft. Hef ég reynslu af bæði virku starfi í stjórnmálum og því að skrifa um það. Það er margsannað að rödd eins manns sem berst eftir slóðum Internetsins á bloggvefi og heimasíðu geti orðið áhrifameiri en þess sem stendur í þingsal. Fjölmiðlun er orðin svo fersk og áleitin að Netið er orðinn ráðandi aðili á markaðnum. Fer ég yfir virkni í pólitík og tjái mig um mína reynslu af báðu.

- Þingkosningar verða í Ísrael á þriðjudaginn. Flest bendir til að hinn nýstofnaði flokkur Kadima vinni afgerandi sigur í kosningunum í Ísrael á þriðjudag undir forystu Ehud Olmert en í skugga alvarlegra veikinda leiðtogans Ariel Sharon forsætisráðherra, sem verið hefur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem síðan í ársbyrjun.