Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 apríl 2006

Skemmtileg leikhúsferð til Dalvíkur

Blessað barnalán

Síðdegis hélt ég út á Dalvík. Mér hafði verið boðið í kvöldmat hjá góðvinum mínum og ennfremur var stefnt á leikhúsferð. Nokkuð langur tími var liðinn frá því að ég hafði farið úteftir síðast og var ánægjulegt að skella sér aftur. Þegar úteftir var komið blasti við mikill snjór en þar hefur snjóað mun meira seinustu vikur og ekki mikil merki um að sumarið sé gengið í garð. Að loknu góðu spjalli yfir góðum mat héldum við í leikhúsið Ungó á Dalvík. Hitti ég mikið af góðum vinum á sýningunni en ég bjó um nokkuð skeið á Dalvík og eignaðist þar marga vini og kunningja. Þau vináttubönd skipta alltaf miklu máli en ég var lengstan hluta grunnskólatímabilsins þar. Gleymdi ég mér í spjalli við einn gamlan og góðan kennara minn fyrir sýninguna en það var orðið mjög langt síðan að leiðir okkar höfðu legið saman. Viðkomandi kennari vildi vita hvað ég væri að gera og spurningar um pólitísk verk mín komu þar við sögu.

Sýningin sem ég fór að sjá var Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson. Leikfélag Dalvíkur frumsýndi sýninguna föstudaginn 7. apríl og var þetta tíunda sýning leikfélagsins á verkinu. Stefnt er að minnsta kosti fimm til viðbótar og fleirum ef aðsókn helst góð. Salurinn var troðfullur í kvöld og góð stemmning, enda er leikverkið ærslafullur og sprenghlægilegur farsi. Þarna var fólk af öllum aldurshópum og skemmtu sér konunglega saman. Leikstjóri uppfærslunnar er leikkonan landskunna Sunna Borg. Sunnu þekkja flestir fyrir störf sín hér hjá Leikfélagi Akureyrar, en þar hefur hún leikið fjölda eftirminnilegra hlutverka, haldið námskeið og leikstýrt. Sunna var einnig um tíma formaður Leikfélags Akureyrar. Ekki er hægt að segja annað en að Sunna hafi unnið gott starf útfrá með uppsetningu á Blessuðu barnaláni og hópurinn gert saman mjög góða sýningu.

Eins og flestir vita sem hafa séð verkið segir þar frá aldraðri konu, Þorgerði, sem býr með dóttur sinni, Ingu, austur á landi. Sú gamla á reyndar fleiri börn, en þau búa víðs fjarri og eru afar löt við að heimsækja móður sína. Dóttirin bregður á það ráð að sviðsetja dauða móðurinnar, til að fá systkinin heim. Þau birtast svo til að vera við jarðarför móðurinnar, þess albúin að gera það sem mestu skiptir í þeirra augum að skipta á milli sín arfinum og öllu því sem gamla konan skilur eftir sig. Presturinn á staðnum er nauðbeygður til að taka þátt í látalátunum og prestsfrúin kemur við sögu, líka læknirinn í þorpinu, heimilisaðstoðin og meira að segja ferðamaður sem kemur þarna til styttri dvalar. Úr verður sprenghlægileg atburðarás sem hittir alltaf í mark. Verkið var fyrst tekið til sýninga hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1977 og síðan verið sýnt víða um land við miklar vinsældir.

Hafði ég ætlað mér í nokkrar vikur að skella mér á verkið en loksins gafst góður tími til þess í kvöld. Var þetta svo sannarlega frábær skemmtun í leikhúsinu útfrá og mjög gaman að hlæja að öllum látunum. 11 leikarar eru í sýningunni og þess ber að geta að fimm þeirra eru með þessari sýningu að stíga sín fyrstu skref sem leikarar á sviðinu útfrá. Öll stóðu þau sig mjög vel en senuþjófarnir voru að mínu mati Arnar Símonarson í hlutverki prestsins, Dagbjört Sigurpálsdóttir í hlutverki Ingu, Dana Jóna Sveinsdóttir í hlutverki Þorgerðar og Sólveig Rögnvaldsdóttir í hlutverki Bínu. Addi Sím hefur margoft farið á kostum á leiksviði útfrá og hann er svo sannarlega fæddur leikari. Taktar hans í hlutverki prestsins voru alveg frábærir. Dana Jóna var svo alveg bráðfyndin sem Þorgerður.

Eftir sýninguna fór ég í kaffispjall heim til vinafólks míns. Haldið var heim eftir miðnættið. Stoppaði ég upp við Háls, ofan við Dalvík, við minnismerkið um Friðrik Friðriksson æskulýðsprest, skamma stund og naut kyrrðar kvöldsins og roðans og fegurðarinnar sem blasti við út fjörðinn áður en heim var haldið til Akureyrar að loknum góðum degi. Kvöldroðinn var góð áminning til mín um það að sumarið er komið og að birtan er að sigrast hægt en örugglega á myrkrinu. Það minnti mig svo vel á það að slappa vel af í sumar og njóta lífsins.