Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 apríl 2006

Líf færist í kosningabaráttuna í borginni

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar. Í morgun birtist ný skoðanakönnun á stöðu mála í Reykjavík. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn með 8 borgarfulltrúa inni en mælist með innan við helming atkvæða eða rúm 47%. Forskot Sjálfstæðisflokksins á R-listaflokkana minnkar því örlítið. Í heildina eru tíðindin í þessari könnun þau að fylgi stóru flokkanna tveggja minnkar en þeir hinir minni eru að styrkjast. Það blasir við að þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi forskot er engan veginn öruggt að flokkurinn vinni þann góða sigur sem stefnt hefur í um langt skeið. Nú þegar að styttist í kjördag mun þeim óákveðnu sífellt fækka og er auðvitað mikilvægt að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík geti höfðað til hinna óákveðnu. Gott útspil í þá átt var kynnt á blaðamannafundi í dag er flokkurinn kynnti fjölskyldustefnu sína, sem m.a. innheldur að lækka gjaldskrá í leikskólum borgarinnar um 25% í haust.

Staða Sjálfstæðisflokksins hefur lengi verið mjög sterk í könnunum, eða allt frá því að R-listinn geispaði golunni vegna átaka með stólaskiptingu flokkanna. Þá reyndu sumir snillingar að skipta átta borgarfulltrúasætum jafnt milli þriggja aðila með litlum sýnilegum árangri og áður en málefnin urðu að umræðuefni þar sprakk allt á stólabitlingum. Annars þekkja allir þessi endalok R-listans og óþarfi að þreyta fólk með því að tala um of um framboð sem er gufað upp, þó að það stjórni vissulega enn borginni fram til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað búið við það að margir hafa talið sigur hans öruggan. Slíkt andrúmsloft getur bæði skapað tækifæri en líka doða. Mér sýnist á kraftinum í félögum mínum í borginni að þau séu kraftmikil og geri sér grein fyrir því hvað þau þurfi að gera til að keyra þessu beint heim í höfn og tryggja sterkan hægrimeirihluta næstu fjögur árin. Þau eru enda mjög öflug í allri kynningu.

Það er mjög athyglisvert að Samfylkingin hefur ekki markað sér neitt nýtt síðan að Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóraefni og leiðtogi flokksins eftir rándýrt prófkjör í febrúar. Ef marka má kannanir er Samfylkingin ekki að skora neitt hærra en var fyrir þetta prófkjör þeirra. Er reyndar merkilegt að sjá um allt að flokkurinn virðist ekki standa fyrir neinu sérstöku. Ekkert nýtt er í áherslum þeirra og tali. Dagur B. kemur með minni ferskleika inn í borgarpólitíkina með forystu sinni en ég hafði áður talið að myndi verða. Sennilega hefði það verið þeim farsælla að Steinunn Valdís hefði leitt þá, enda er hún sitjandi borgarstjóri og hefur notið trausts allra afla innan R-listans sáluga sem slík, merkilegt nokk. Eflaust er það vegna þess að hún hefur verið órjúfanlegur hluti R-listans alla tíð og verið borgarfulltrúi hans alla tíð. Svo er greinilegt að Stefán Jón leggur ekkert á sig og virðist farinn úr borgarmálum óháð úrslitum.

Hvíslað hefur verið um það að bæði Steinunn Valdís og Stefán Jón horfi löngunaraugum í þingframboð fari allt á versta veg og þau láti Dag að mestu um að taka á sig borgarmálin. Verði þar skellur geti þau farið frá því með þeim orðum að þeim hafi verið hafnað fyrir nýliðann í flokknum og árangurinn orðið með þeim hætti sem við væri að búast. Lukkist eitthvað hjá Degi geti þau notað það sem stökkpall inn í landsmálin og sagt að þau hafi lagt af mörkum inn í málefnagrunn flokksins í borginni. Það heyrist reyndar víða að Samfylkingin sé eins og míníútgáfa af R-listanum sáluga. Þar er enda hin fyrrum vinstri græna Björk Vilhelmsdóttir og hinn óháði lærisveinn Ingibjargar Sólrúnar, Dagur B, sem lyft var til skýjanna með samþykki ISG og liðssveitar hennar, Stefáni Jóni og Steinunni Valdísi báðum til mikillar gremju. Þetta framboð gæti skilað þeim árangri en líka skelli. Verður fróðlegt að sjá hvort það muni verða.

Vinstri grænir sækja fram með auglýsingum á leiðtoganum Svandísi Svavarsdóttur og greinilegt að henni er teflt fram sem borgarstjóraefni og framtíðarhöfðingja á þessum væng borgarmálanna. Hún er enginn bráðabirgðaleiðtogi eða hver annar efsti maður, henni eru ætlaðir stórir hlutir á þessu sviði. Eflaust er spútnikkynning VG á Svandísi sönnun þess að VG sleit R-listanum sáluga með því að byggja leiðtoga úr Svandísi. Þess ber einmitt að geta að það var hin sama Svandís sem leiddi borgarmálafélag VG og lagði fram tillöguna um slit R-listans. Enginn vafi leikur á því að Svavar Gestsson fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, er einn af lykilmönnum VG, þó að hann sé staddur í Kaupmannahöfn sem sendiherra okkar allra. Hans áhrif innan VG eru ráðandi og engum dylst lykilstaða afkomenda hans innan VG. Svandís hefur sem leiðtogi sótt í þennan grunn og eru ætluð áhrif vegna ætternis síns.

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn sækir á ný mið núna undir forystu Björns Inga Hrafnssonar og byggir annan grunn undir flokkinn í borgarmálunum en var undir leiðsögn Alfreðs Þorsteinssonar. Framboðið er það ferskt að það byggir ekki á flokksgrunninum og spilar allt með lógóinu exbé. Þetta lógó hannað í Reykjavík er notað um allt land, enda er Framsóknarflokkurinn jafnóvinsæll sem flokkur úti á landsbyggðinni sem og í borginni - það eru óneitanlega stór tíðindi. Björn Ingi er ungur maður og byggir á því að hann sé nýr maður nýrra tíma í borgarmálum. Það er því ekki auðvelt fyrir hann að hafa grunn byggðan á umdeildum verkum Alfreðs innan Orkuveitu Reykjavíkur. Ein leið Framsóknar til að sækja fram er að boða flugvöll á Lönguskerjum. Hefur flokkurinn gert mjög góðar auglýsingar að mínu mati sem sækja fram og sýna hvað flokkurinn vill gera í þessum málum.

Ef marka má könnunina í dag á Frjálslyndi flokkurinn meira fylgis að fagna. Þar tel ég margt spila inn í. Tilkoma Guðrúnar Ásmundsdóttur, vinsællar og virtrar leikkonu í forystusveit flokksins, hefur vakið athygli og hefur flokkurinn grætt á því - á því leikur enginn vafi. En hvort að það að fá Guðrúnu dugar skal ósagt látið. En það er enginn vafi að með hana í framboði getur flokkurinn betur höfðað til eldri borgara en áður var. En það er þó alveg ljóst að Ólafur F. er verulega litlaus en gæti húrrast inn á kjörþokka Guðrúnar og Margrétar Sverrisdóttur. Annars er það skondið að sjá leiðtoga flokksins barma sér í dag yfir auglýsingum í þessari kosningabaráttu, en eins og allir vita hafa Frjálslyndir verið iðnir við þann kola að undanförnu. Hvað varðar möguleika þessara örflokka að komast inn ræðst allt á auglýsingum. Við eigum því eftir að sjá alla þessa spekinga sem andmæla auglýsingum eyða á kafi. Sjáið bara VG sem dæmi.

Línur í þessum kosningum virðast skýrar. Falli meirihluti vinstriaflanna mun Sjálfstæðisflokkurinn komast til valda væntanlega einn. Ég sé það reyndar ekki fyrir mér að Vilhjálmur Þ. og Sjálfstæðisflokkurinn fari í meirihluta með ráðandi stöðu nema að hafa borgarstjórann komi til meirihlutaviðræðna ef flokkurinn nær ekki einn meirihluta. Eðlilegur fyrsti kostur haldi R-listaflokkarnir velli er að þeir reyni fyrir sér. Þar eru flokkar og forystumenn sem allir kynna sig sem borgarstjóraefni. Það sjáum við best á kynningum á Svandísi og Birni Inga. Þetta eru allt materíal í borgarstjórastól eða presentera sig sem slíka. R-listaflokkarnir hafa oftar en einu sinni á líðandi kjörtímabili barist um hver eigi að verða borgarstjóri og hvernig skipta skal bitlingum. Það yrði fyrst spennandi að sjá kattaslaginn þeirra ef svo ólíklega vildi til að þetta ósamstíga lið héldi fulltrúafjölda sínum sem heild.

Fyrst og fremst stendur valið um það hvort að fólk vill sterkan Sjálfstæðisflokk til valda eða ósamstíga félagshyggjuöfl í framboði. Þessi könnun í dag er eins og aðrar vísbending - að mínu mati er hún skýr skilaboð til flokksfélaga minna í borginni um það að passa upp á að landa góðum og afgerandi sigri eftir fimm vikur.