Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 apríl 2006

Fallegur sumardagur á Akureyri

Akureyri

Það var fallegur sumardagur hér á Akureyri í dag - sumarið heilsaði okkur með sólarbrosi og notalegu veðri. Ég fór á fætur snemma í morgun og fékk mér kaffi og ristað brauð og hlustaði á umræðuþátt á NFS á meðan. Að því loknu hélt ég í góðan og hressilegan göngutúr. Labbaði fyrst upp í Kaupang til að senda SMS-boðun á alla flokksmenn um að mæta í vöfflukaffið okkar á Kaffi Akureyri eftir hádegið. Það var auðvelt og notalegt verkefni og hélt ég göngunni áfram að því loknu. Ég labbaði áleiðis Mýrarveginn og hitti á leiðinni góðan vin og fórum við að ræða niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir NFS í vikunni. Var áhugavert að skiptast á punktum um stöðu mála nú þegar að aðeins rúmur mánuður er í kjördag.

Labbaði ég niður Mímisbraut og hélt Þórunnarstrætið á enda áleiðis að kirkjugarðinum, sem er rétt við hið nýja Naustahverfi. Þar átti ég stund með sjálfum mér. Þar hvíla ástvinir og ættingjar sem mér eru kærir. Þegar ég vil styrkja sjálfan mig og íhuga ýmis mál fer ég þangað uppeftir og á stund með sjálfum mér og hugsa um þá sem mér hefur þótt vænt um - en hafa kvatt þessa jarðvist, sumir alltof snemma. Nokkrir mánuðir eru síðan að kær frændi minn, Kristján Stefánsson, lést og fór ég fyrst að gröf hans. Eftir nokkra stund þar hélt ganga mín áfram. Ég hélt niður í Aðalstræti og labbaði hana áleiðis inn í miðbæ. Að mínu mati er Aðalstræti einstök gata í sögu Akureyrar - þar angar enda allt af sögu og gömlu húsin þar hafa mikinn sjarma og þokka. Heila sögu mætti segja í langri bók um gömlu húsin og þetta elsta hverfi bæjarins. Það er alltaf virkilega gaman að labba Aðalstrætið og kynna sér söguna.

Eftir að heim kom úr þessari löngu göngu tók ég mig til og fór í jakkafötin. Haldið var um hálfþrjú leytið á Kaffi Akureyri. Þar komum við sjálfstæðisfólk saman og fögnuðum sumarkomu með vöfflukaffi. Það var mikið fjölmenni í vöfflukaffinu. Þar skemmtum okkur saman, hittumst og ræddum málin, bæði í kjölfar skoðanakönnunarinnar sem fyrr er nefnd og mörkuðum upphaf hinnar formlegu kosningabaráttu. Pólitíkin var eins og gefur að skilja mikið rædd og greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og mikil stemmning hjá okkur. Bökuðu frambjóðendur vöfflur og þáði mikið fjölmenni vöfflur með sultu og rjóma. Var þar mikill fjöldi er hæst lét og mikil stemmning. Var einnig greinilegt að fólk sem var á göngutúr um bæinn leit við með börnin sín og þetta því sannkölluð fjölskylduskemmtun á góðum sumardegi í miðbænum. Við sem tökum þátt í kosningabaráttunni erum bjartsýn á gott gengi og vorum ánægð með daginn.

Eftir góða stund í vöfflukaffinu komst ég að því að ég hafði misst af tímanum og var orðinn of seinn á Vorkomuna í Ketilhúsinu. Ákvað ég því þess í stað að halda inn í minjasafn. Þar hafði verið dagskrá og boðið var upp á kakó og lummur. Notaleg stemmning var í Minjasafnsgarðinum. Þar var nýlokið brúðkaupsathöfn er ég kom að og mikil gleði þar vegna þess. Leit ég á safnið og fékk mér kakóbolla og hélt svo yfir í Nonnahús sem var opið í tilefni dagsins. Það er alltaf gaman að fara í Nonnahús - hús sem er fallegur minnisvarði um heiðursborgara okkar Akureyringa, Jón Sveinsson. Saga Jóns er um margt einstök og alltaf gaman að lesa hana. Nonni ritaði sögu sína af mikilli list og eru þær bækur minnisvarði um ritsnilld hans. Var ánægjulegt að labba um húsið og hitti ég þar góðan vin og ræddum við heillengi saman.

Eftir þetta hélt ég heim eftir góðan og notalegan dag. Sumardagurinn fyrsti hefur hér á Akureyri bæði verið sólríkur og kuldalegur í gegnum árin. Að þessu sinni heilsaði sumarið okkur Akureyringum með sólarbrosi og það metum við öll mikils. Við erum öll með sól í hjarta í dag og markast kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningar með þessu sólarbrosi - framundan er mikil og skemmtileg vinna og sérstaklega ánægjulegt að lykilvinna seinustu viknanna hefjist á svo fögrum og notalegum degi sem þessi dagur var.