Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 ágúst 2006

"Álitsgjafinn"

Birgir Guðmundsson

Það hefur verið full vinna fyrir nokkra stjórnmálaáhugamenn og pólitíska analísera að birtast í fjölmiðlum upp á síðkastið og greina Framsóknarflokkinn, með sama hætti og læknir á stóru sjúkrahúsi greinir stöðuna á sjúklingi sem þar liggur fárveikur. Flestir stjórnmálaspekúlantar meta væntanlega seinustu 23 mánuði í sögu flokksins (eftir að Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra) með orðunum vandræðagangur og erfiðleikar. Einn er sá maður sem virðist orðinn jafnhelgaður Framsóknarflokknum í stúdíu og Hildur Helga Sigurðardóttir er bresku konungsfjölskyldunni. Það er Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og fyrrum fréttastjóri framsóknarblaðsins Tímans, sem rann saman við Dag í Dag-Tímann hérna einhverntímann í denn. Það er svolítið merkilegt að sjá hvernig að hann er ævinlega sóttur til að greina flokkinn um leið og eitthvað hið minnsta gerist.

Um tíma í fyrra, sem var eina heila ár Halldórs Ásgrímssonar á forsætisráðherrastóli og einkenndist af pólitískum erfiðleikum hans og vandræðum, fannst mér sem að framsóknarmaður mætti vart ropa nema að það þætti það fréttnæmt að Birgir væri beðinn um að greina þá hina minnstu breytingu. Sá sem gerði Birgi öðrum fremur að þessum álitsgjafa um Framsóknarflokkinn er Björn Þorláksson, fyrrum undirmaður Birgis á Degi-Tímanum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst alveg kostulegt að sjá Björn og Birgi skeggræða málefni Framsóknarflokksins, enda er oflofið sem Björn hefur ausið yfir Birgi áður en þeir fara að ræða þessi mál í viðtölunum að undanförnu á NFS svo mikið að það hvarflar að manni hvort að þetta sé háð. Altént verður seint sagt að kynningarnar séu hógværar.

Hápunkti fannst mér þetta ná í hádegisviðtalinu á NFS á mánudag þar sem þeir ræddu saman um Framsókn, nema hvað. Kynningin var fyrir það kostuleg, svo mikið oflof að meira að segja Birgi varð nóg um, og viðtalið mjög merkilegt líka. Þar kom það fram í upphafi að Birgir væri einn mesti sérfræðingurinn um sögu flokksins og bestur að meta um stöðu mála þar. Reyndar tók Björn það fram í kjölfarið að "sérfræðingurinn og álitsgjafinn" hefði spáð að Siv myndi vinna formannskjörið daginn fyrir flokksþingið og það með örlitlum mun. Það fór ekki alveg svo og var kostulegt að sjá Birgi svara fyrir þennan spádóm. Sagði hann að það væri jafnan á svona flokksþingum að staðan gæti almennt rokkast upp á svona eins og 10% þegar þangað væri komið. Fannst mér þetta nokkuð vegleg tala, en hún hentaði vissulega fyrir hann.

Nú ætla ég að taka fram að mér finnst Birgir Guðmundsson ekki leiðinlegur stjórnmálaáhugamaður en ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir þetta álitsgjafahlutverk hans hafa farið nokkuð úr böndunum. Oftar en ekki hafa spádómar Birgis reynst skjóta yfir markið. Gott dæmi var þegar að hann spáði eftir að Halldór hætti að nú myndi sennilega Valgerður hætta bráðlega í stjórnmálum. Nokkrum dögum síðar varð Valgerður utanríkisráðherra, fyrst kvenna. Nokkru síðar lýsti Valgerður yfir að hún ætlaði ekki í formannsframboð í flokknum og aftur kom sami spádómur Birgis. Reyndar var það skondið enda fylgdi það með yfirlýsingu Valgerðar að hún væri einmitt að ákveða að fara ekki í formannsframboð til að sinna betur kjördæmi sínu samhliða ábyrgðarmiklu ráðuneyti.

Það er gömul saga að álitsgjafar í stjórnmálum koma og fara. Ekki veit ég hvort að Framsóknarflokkurinn verði að falla fyrir ætternisstapann til að Birgir Guðmundsson hætti að vera álitinn sérfræðingur um hann. Ég veit að þeir félagar Birgir og Björn eru gamlir og góðir vinnufélagar sem hafa haft gaman að diskútera Framsóknarflokkinn einhverntímann í kaffihléum á framsóknarblaðinu hér í gamla daga en er til of mikils mælst að NFS reyni einhversstaðar að grafa upp annan "álitsgjafa og sérfræðing" um Framsóknarflokkinn svona áður en að Birgir fer að hljóma eins og samviska flokks sem hann hefur sjálfur yfirgefið?