Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 ágúst 2006

Ný forysta til verka í Framsóknarflokknum

Forysta Framsóknarflokksins

29. flokksþingi Framsóknarflokksins lauk síðdegis í dag. Þetta var stutt flokksþing hjá Framsóknarflokknum, aðeins rétt um sólarhringur. En nóg var þar þó af verkefnum. Tilgangur þess var fyrst og fremst að velja flokknum nýja forystu og greinilega til að hefja nýja sókn eftir mikla niðursveiflu í pólitískri umræðu seinustu ár og mánuði, en flokkurinn mælist aðeins með um eða rétt yfir 10% fylgi í skoðanakönnunum. Halldór Ásgrímsson kvaddi stjórnmálin á flokksþinginu og sagði skilið við forystu flokksins eftir aldarfjórðung á formanns- og varaformannsstóli. Á mánudag mun hann láta af þingmennsku og halda í aðrar áttir eftir um margt sögulegan stjórnmálaferil sinn. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var kjörinn eftirmaður hans og mun takast á hendur það verkefni að leiða flokkinn í gegnum erfiðan kosningavetur. Næg verkefni bíða hans í forystu flokksins.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, vann endurkjör á varaformannsstóli og sigraði Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, með nokkrum yfirburðum. Guðni lagði mikið undir í kjörinu, enda lagði hann ekki í formannsslaginn við Jón Sigurðsson. Hann mat stöðuna rétt og sá að landsbyggðarkjarni hans myndi skipta sköpum hvort sem að Jón eða Siv yrðu kjörin til verka á formannsstóli. Hvað svo sem segja má um Guðna má reyndar fullyrða með nokkurri vissu að hann sé hinn ekta framsóknarmaður að flestra mati og víst er að stjórnmálin væru nokkuð litlaus án hans, en hann hefur oftar en ekki vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í pólitík og hnyttinn talsmáta um menn og málefni stjórnmálanna. Það er mitt mat að Guðni hafi lesið rétt í spilin og lagt rétt undir. Hvað svo sem segja má um ákvörðun hans að leggja ekki í formannsslaginn má fullyrða að hann haldi sínum pólitísku völdum eftir brotthvarf Halldórs.

Fyrirfram var ljóst fyrir þetta flokksþing að tekist yrði á um ritaraembættið, enda höfðu fjórir mjög góðir kostir komið þar fram. Svo fór ekki er á hólminn kom. Öllum varð ljóst eftir kjör í formanns- og varaformannsembættið að Framsóknarflokkurinn þyrfti að tefla konu fram til ritarastarfans. Það fór því svo að alþingismennirnir Birkir Jón Jónsson og Kristinn H. Gunnarsson stigu til hliðar og hvöttu flokksmenn til að velja konu. Fyrirfram hafði ein kona, Sæunn Stefánsdóttir varaþingmaður og pólitískur aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar á ráðherrastóli, gefið kost á sér til embættisins. Greinilegt var með fyrrnefndum yfirlýsingum að samstaða myndi að mestu nást um hana. Sæunn hlaut um 75% atkvæða og örugga kosningu en Haukur Logi Karlsson hlaut um 15%. Hefði kona valist til formanns- eða varaformannsembættisins hefðu mál eflaust farið á annan veg en Sæunn tefldi rétt eins og Guðni er til þingsins kom.

Framsóknarflokkurinn stendur nokkuð breyttur eftir að loknu þessu sögulega flokksþingi sínu. Halldór Ásgrímsson er horfinn af velli og ný forysta tekur við flokknum af honum. Jón Sigurðsson hlaut gott umboð til formennsku, sama má segja um þau Guðna og Sæunni sem hlutu góða kosningu til sinna miklu verka á kosningavetri. Það blandast engum hugur eftir þetta flokksþing að þar fæddist ný pólitísk stjarna á sama tíma og lífsreyndur flokksmaður varð flokksformaður, sem fáum hefði órað fyrir jafnvel fyrir aðeins örfáum mánuðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum Jóns Sigurðssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins og ekki síður Sæunnar Stefánsdóttur sem ritara flokksins. Bæði eru að koma ný inn til verka í forystusveit og munu verða áberandi á Alþingi næstu mánuðina og væntanlega í kosningabaráttunni.

Sæunn Stefánsdóttir er greinileg ný pólitísk stjarna. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum hefðu fáir spáð því að hún hlyti hinn valdamikla sess sem ritaraembættið er innan Framsóknarflokksins. Ritarinn stjórnar öllu innra starfi flokksins og er formaður landsstjórnar hans. Sæunn mun á mánudag taka formlega sæti á Alþingi er Halldór Ásgrímsson lætur af þingmennsku eftir langa þingsetu, en hann er sem kunnugt er starfsaldursforseti Alþingis. Það er skemmtileg tilviljun að þingsæti Halldórs erfist til ungrar konu, forystukonu innan flokksins. Halldór var 26 ára þegar að hann tók sæti á Alþingi árið 1974 og Sæunn Stefánsdóttir er 27 ára þegar að hún kemur nú inn í þingflokk og forystusveit Framsóknarflokksins. Allra augu verða á henni í verkum sínum og má fullyrða að þar fari framtíðarkona innan flokksins, sem eigi eftir að láta til sín taka.

Að síðustu: margir hafa sent mér póst og haft samband við mig um þessi miklu skrif um Framsóknarflokkinn og haft áhuga á það hversu vel ég fjalla um leiðtogakjör í litlum stjórnmálaflokki. Ástæðan fyrir því að ég fjalla um þessi mál er einföld. Ég hef áhuga á stjórnmálum, ég hef áhuga á því að spá í pólitík. Því fær ekkert breytt að Framsóknarflokkurinn er áhrifamikill flokkur, þrátt fyrir minnkandi fylgi greinilega seinustu mánuði, og hann hefur verið flokkur áhrifa í stjórnmálasögu landsins alla tíð. Ég lít á þennan vef sem vettvang stjórnmálapælinga minna. Ég fjalla vel um þessi mál því að mörgu leyti hef ég ávallt metið Framsóknarflokkinn nokkurs, hann er stofnun í stjórnmálalitrófi landsins og verið áberandi þar alla mína ævi. Það er því eðlilegt að ég hafi áhuga á forystumálum hans og vilji skrifa um þau.

Ég verð enda ekki var við annað en að allra flokka fólk hafi áhuga á að analísa þá stöðu sem þar er. Það gildir það sama um stjórnmálaáhugamenn í öllum flokkum, þar á meðal mig, og svo auðvitað fræðimenn víða sem fylgjast með stöðu mála. Ég fer ekki leynt með það að ég hef alla mína ævi verið ósammála Framsóknarflokknum að mörgu leyti og haft aðra skoðun á fjölda hitamála en fram hafa komið innan hans og forystumanna hans í öll þau ár sem ég hef fylgst með stjórnmálum. En þeir sem ætla sér að fylgjast með stjórnmálum og ætla að reyna að komast hjá því að horfa til Framsóknarflokksins í pólitískum pælingum og spámennsku á opinberum vettvangi á sama tíma ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Ég fell ekki í þá gryfju, hreint út sagt. Þetta er flokkur með sögu, einkum valdasögu, sem er merk.

En já, spennandi tímar eru framundan í íslenskum stjórnmálum. Nú hafa Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson báðir horfið á braut og yfirgefið stjórnmálin eftir mjög langa og farsæla stjórnmálaforystu í ríkisstjórn landsins og Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson hafa tekið við forystu stjórnarflokkanna nokkrum misserum fyrir alþingiskosningar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að stjórnarsamstarfið gangi undir forystu þeirra á þessum kosningavetri og hvort að þetta langlífa stjórnarsamstarf lifi lengur en fram að kosningum. Það yrði sögulegt ef að það yrði áfram við völd. Fyrst og fremst er merkilegt að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki velja öflugar konur til forystu, en þeim gafst tækifærið en nýttu það ekki. En þær standa sterkar eftir, einkum Siv sem fékk góða kosningu þrátt fyrir tap.

En við stjórnmálaáhugamönnum blasir ný forysta Framsóknarflokksins. Það verður hennar hlutverk umfram allt að lægja öldur í sundruðum og ósamstilltum flokki og tryggja að hann komi ekki sem laskað fley að landi í kosningunum. Þeirra bíður mikið og erfitt verkefni, það má fullyrða það með nokkrum sanni.