Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 ágúst 2006

Geir tekur boði um austfirska skoðunarferð

Geir H. Haarde

Fyrir nokkrum dögum ritaði Ómar Ragnarsson grein í Morgunblaðið og bauð þar formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, þrem ráðherrum Framsóknarflokks og nokkrum fjölmiðlamönnum formlega skoðunarferð um Kárahnjúkasvæðið undir sinni leiðsögn. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hringdi í gærkvöldi í Ómar og þáði boð hans til sín og Þorgerðar Katrínar en ennfremur fyrir hönd allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Er það að mínu mati rétt ákvörðun hjá Geir að þiggja þetta boð og rétt skilaboð sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins senda með því að fara á svæðið og skoða náttúruna þar. Boð Ómars var rausnarlegt og vart um annað að ræða en að því yrði tekið og rétt ákvörðun af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að fara austur.

Varla mun þessi ferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar þó breyta miklu um stöðu mála. Framkvæmdir við virkjun við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði eru langt á veg komnar og sér fyrir endann á þeim. Þær hafa farið rétta leið og hlotið lögformlega staðfestingu sem við öllum blasir. En það er auðvitað mjög mikilvægt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þiggi þetta boð og skoði náttúruna undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar. Það verður þeim aðeins fræðandi og jákvæð upplifun hvernig staða mála er og hvernig svæðið er. Ferðin breytir þó auðvitað engu um þær ákvarðanir sem fyrir liggja um framkvæmdir og eðlilegt að allt hafi sinn gang í því. Alþingi hefur samþykkt tilteknar framkvæmdir og mikið um þær rætt í samfélaginu, enda eitt af mestu hitamálum seinustu ára.

Ómar Ragnarsson og sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega þessum framkvæmdum. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Margir þeirra hafa verið mjög friðsamlega að segja sínar skoðanir og það ber að virða, þó að vissulega séu margir þeim ósammála. Aðrir kjósa hinsvegar að beita valdi og þröngva sínum skoðunum á aðra með lítt áhugaverðum aðferðum. Það eru atvinnumótmælendurnir sem við höfum séð til austan heiða í fréttum síðustu daga í fréttum af fáu góðu. En meira um það síðar í kvöld hér á blogginu mínu....