Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 ágúst 2006

Svartur dagur í umferðinni

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar

Gærdagurinn var í senn svartur og sorglegur í umferðinni. Þrír einstaklingar í blóma lífsins létust í alvarlegum umferðarslysum. Ég verð að viðurkenna að það er alveg gríðarlega erfitt að heyra svona fréttir, hafandi upplifað sjálfur sorgina sem fylgir alvarlegu umferðarslysi og láti náins vinar og ættingja. Ég þekkti ekkert til þeirra sem létust í slysunum en það nístir alltaf hjartað mitt að heyra svona fréttir. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 15 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Þetta er sorglega há tala og það er skelfilegt að verða vitni að því að nú stefnir í enn eitt stórslysaárið í umferðinni.

Þegar að ég skrifaði síðast um þessi mál var það í kjölfar sorglegra umferðarslysa í júlíbyrjun þar sem að tveir Akureyringar létu lífið. Þá voru 9 látnir í umferðinni, síðan hafa sex bæst við á rétt rúmum mánuði. Það er mjög dapurlegt að heyra fréttir af þessu tagi, enda vita allir að þessum fréttum fylgir sorg og depurð ættingja og vina sem horfa á bak fólki sem hefur verið miðpunktur ævi þeirra. Það er sárt að vita af fjölskyldum í sorg vegna sorglegra umferðarslysa seinustu vikurnar. Eins og við vitum öll sem þekkjum til þessara mála heyrum við oft sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.

Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hefur Umferðarstofa staðið sig vel í að koma öflugum boðskap sem einfaldast og best til skila.

Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.