Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 ágúst 2006

Smárinn floginn

Gunnar Smári

Þær fréttir bárust í dag að Gunnar Smári hefði verið settur af sem forstjóri Dagsbrúnar og forstjóri Og Vodafone settur einnig yfir Dagsbrún. Já, þetta gat varla úr því sem komið var endað öðruvísi. Gunnar Smári fékk mikinn séns á sínum tíma þegar að Sigurði G. Guðjónssyni var hent út fyrir hann eftir að Norðurljósum var slátrað og eignirnar færðar annað og undir merki 365. Hallinn var orðinn mjög mikill og fyrirtækið gat varla staðið undir óbreyttri forystu lengur. En já nú fer Gunnar Smári til Danmerkur, sem verður varla flokkað öðruvísi en sem stöðulækkun. Það sjá allavega allir hvernig í pottinn er búið.

Þetta hljóta að teljast nokkur þáttaskil að Gunnar Smári sé settur af forstjórastóli, enda hefur hann verið áberandi innan þessarar fjölmiðlasamsteypu hérlendis alveg síðan að hann ritstýrði Fréttablaðinu. Alla tíð voru honum færð meiri völd og áhrif innan fjölmiðlasamsteypu Baugs en margir botnuðu í, með tilliti til sögu hans á íslenskum fjölmiðlamarkaði áður en hann tók við Fréttablaðinu. Hann var mjög hvass og ákveðinn meðan að hann stýrði Fréttablaðinu og beitti því miskunnarlaust til undarlegra verka.

Virtist hann vera keyrður áfram (með tryggðu fjármagni) til að reyna að höggva í einn flokk og einn stjórnmálamann. Hann varð svo eldsneytislaus á íslenskum blaðamarkaði þegar að viðkomandi stjórnmálamaður fór úr Stjórnarráðinu. Það er svosem varla orðum á þetta komandi en það er ekki fjarri því að margir fagni því að hann sé farinn úr rekstri hér á Íslandi. Væntanlega eru eigendur Dagsbrúnar þar ánægðastir, enda var fjölmiðlaveldi Baugs hérlendis allt að riða til falls vegna stjórnunar hans og hallinn orðinn yfirgengilegur og virtist risi fjölmiðlunar hér farinn að tafsa undir hans leiðsögn.

Gangi honum sem best að berjast í Danmörku, enda sýnist honum varla veita af góðum óskum í erfiðu stríði þar.