Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 október 2002

Leiðtogamál flokksins í borginni
Nú liggur nokkuð ljóst fyrir að Davíð Oddsson og Geir H. Haarde muni leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Björn Bjarnason hefur ákveðið að sækjast ekki eftir leiðtogastólnum í borginni, en fókuserar sig þess í stað á forystu í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins og þingmennsku fyrir borgarbúa á komandi árum. Ég er sammála Birni að með því sé hagsmunum borgarbúa í raun best borgið. Svo er engin þörf fyrir valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins í þessu prófkjöri. Það er kosið um valdasæti á landsfundi en ekki í þessu prófkjöri. Mér finnst rétt af Birni að fókusera sig á borgarmálin, enda mun hann að öllu óbreyttu leiða flokkinn á komandi árum og stefnir að öllum líkindum að framboði árið 2006.

Glæsilegur fréttavefur Norðausturkjördæmis
Í dag opnaði nýr og glæsilegur fréttavefur sem er ætlaður fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Eru þetta mjög góð tíðindi og í raun nauðsynlegt að þetta nýja kjördæmi hafi slíkan vef og upplýsingavettvang. Í tilefni dagsins skrifuðu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri og Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri í Fjarðabyggð, fyrstu fréttirnar á síðuna. Kristján Þór skrifaði frétt um vinsældir heimasíðu Akureyrarbæjar, en samkvæmt vefmælingum Modernus er síða bæjarins vinsælasta heimasíða íslenskra sveitarfélaga. Fréttavefur Norðausturkjördæmis er þarft framtak, þeir sem að því standa eiga skilið miklar þakkir fyrir þessa snjöllu hugmynd. Megi vefurinn vaxa og dafna.

Umsátursástandinu í Washington lokið
Svo virðist vera sem umsátri leyniskyttnanna í Washington sé lokið. Í gær voru handteknir tveir menn grunaðir um að hafa myrt 10 manns og sært tvo á seinustu þrem vikum. Í gærkvöldi var svo staðfest að skotvopn sem fundist hafði í fórum þeirra væri vopnið sem notað hefði verið til að skjóta á fólkið. Það er mikill léttur að þessu ástandi skuli vera lokið. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með ástandinu í Washington, enda fólk vart þorað að vera utan dyra af ótta við árásir leyniskyttunnar. Ég hef fylgst nokkuð vel með fréttaflutningi af þessu máli seinustu vikurnar á fréttavef CNN, en sá vefur er með allra bestu fréttavefjum nútímans og er þar að finna ferskar fréttir og góða umfjöllun um það sem hæst ber.

Góð grein Ingvars Péturs - áfram Drífa!
Í dag birtist í Morgunblaðinu grein eftir félaga minn, Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formann Fjölnis, þar sem hann skrifar til stuðnings Drífu Hjartardóttur alþingismanni og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Góð grein hjá Ingvari og mjög mikilvægt að hann komi þessari skoðun sinni á framfæri. Ég er honum sammála, ég tel að það yrði flokknum fyrir bestu að Drífa leiddi flokkinn í Suðurkjördæmi.