Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 nóvember 2002

Sögulegt prófkjör - atkvæði endurtalin
Enn er sögulegt prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, aðalfréttaefnið. Í dag ákvað stjórn kjördæmisráðs flokksins að endurtelja atkvæðin í prófkjörinu. Ég tel að það muni engin vandamál leysa, eftir stendur að óánægja er með framkvæmd sjálfrar kosningarinnar og ljóst er að utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Akranesi og Grundarfirði er langt í frá í lagi. Ég sé ekkert annað í stöðunni sem leyst gæti þessi mál en nýtt prófkjör og önnur kosning. Vafaatriðin og óánægjan með prófkjörið um síðustu helgi er orðin svo mikil að aldrei verður full sátt innan alls kjördæmisins með úrslit þess. Athyglisvert verður að sjá hvort endurtalning breyti einhverju um úrslitin. Eftir mun þó standa að framkvæmd kosningarinnar var meingölluð á nokkrum stöðum og það mun valda togstreitu um niðurstöðuna, óháð því hvað kemur út úr endurtalningunni. Það er a.m.k. mitt mat.

Hver á að vera í öðru sætinu - sniðug könnun
Í dag rakst ég á Netinu á athyglisverða könnun. Þar er kannað hvort eigi að skipa annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi; Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, eða Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Hvet alla gesti þessarar síðu til að taka þátt í þessari könnun.

Athyglisverð prófkjör - þingmenn fá annan séns
Eins og flestir muna voru prófkjör Samfylkingarinnar um síðustu helgi og var niðurstaðan á þá leið að þingmenn flokksins fengu annan séns til að sanna getu sína og leiðtoginn fékk gula spjaldið framan í sig. Í vikulegum pistli mínum á heimasíðu Stefnis fer ég ítarlega yfir úrslitin í prófkjörum flokksins í kjördæmunum fimm.

Styttist í prófkjörið í borginni
Nú er ein og hálf vika í að Sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósi frambjóðendur á framboðslista sína í borgarkjördæmunum í prófkjöri. Framundan er spennandi prófkjör og athyglisverður lokasprettur. Nú þegar hafa margir frambjóðendur opnað heimasíðu. Meðal þeirra er dr. Stefanía Óskarsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Vefur þeirra eru glæsilegir og skemmtilega upp settir. Bæði eru traustsins verð í þessu prófkjöri. Stefanía hefur verið varaþingmaður á þessu kjörtímabili og Guðlaugur Þór varaþingmaður 1995-1999 og borgarfulltrúi frá 1998. Það er enginn vafi í mínum huga að Gulli eigi erindi inn á þing, hann er trúr sannfæringu sinni og er ötull baráttumaður, sem mun standa vörð um grundvallargildi Sjálfstæðisstefnunnar. Í þessu prófkjöri eru 8 nýliðar að sækja að þeim 9 þingmönnum sem allir sækjast eftir endurkjöri, ég tel nauðsynlegt að einhver endurnýjun verði í þingliðinu og vona því að ungliðarnir fái sína fulltrúa í baráttusætin og tryggt verði að SUS eigi sína fulltrúa á þingi. Ég treysti bæði núverandi formanni og þeim fyrrum formönnum sem gefa kost á sér öllum til að sitja á þingi og vona að þeim gangi öllum vel í þessum slag.