Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 nóvember 2002

Stjórnmálanámskeið Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Næstu tvo laugardaga mun Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri, halda stjórnmálanámskeið í höfuðstöðvum flokksins, Kaupangi við Mýrarveg. Markmiðið með námskeiðinu er hiklaust að auka áhuga fólks á stjórnmálum. Dagskrá námskeiðsins er athyglisverð og lofar góðu. Ég hvet alla flokksfélaga mína hér í bænum til að taka þátt í þessu námskeiði og vera virkir þátttakendur í flokksstarfinu á kosningavetri. Með þátttöku hefur þú áhrif á flokksstarfið.

Athyglisverð ráðstefna um Evrópumál
Í dag munu Auðlindadeild og Rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri standa fyrir málstofu í stofu L201 á Sólborg. Yfirskrift málstofunnar er ESB - Ungt fólk og framtíðin. Stjórnandi hennar verður Þorsteinn J. Vilhjálmsson, þáttastjórnandi á Stöð 2. Erindi munu flytja Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálfræðingur og Birgir Tjörvi Pétursson framkvæmdastjóri Heimssýnar. Á eftir því munu alþingismennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir sitja fyrir svörum í pallborðsumræðum. Í tilefni af 100 ára afmælisári Landsbankans á Akureyri standa Landsbanki Íslands hf. og nemendafélög auðlindadeildar og rekstrar- og viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri fyrir röð málstofa og er þetta sú þriðja. Ég ætla að skella mér og segi nánar frá þessu á morgun.

Styttist í prófkjörið - spennan magnast
Nú er vika í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljóst er að slagurinn er að ná hámarki og spennan magnast. Frambjóðendur keppast við að kynna sig, málefni sín og skoðanir. Mikilvægt er að sjálfstæðismenn í borginni velji til forystu gott og frambærilegt fólk, ekki þarf að efast um að svo verður, enda 17 hæfileikaríkir einstaklingar í kjöri, þar af 9 þingmenn og tveir varaþingmenn. Flestir frambjóðendur hafa opnað heimasíðu og vil ég gjarnan benda á nokkrar þeirra. Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður og Birgir Ármannsson hafa opnað glæsilega vefi, sem vert er að kynna sér nánar. Ennfremur eru vefsíður Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur og Soffíu Kristínar Þórðardóttur mjög vandaðar. Á dögunum var heimasíða Sigurðar Kára Kristjánssonar valin besta heimasíðan í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar af sérfræðingum í netheimum. Kemur það ekki á óvart, enda síða hans mjög aðgengileg, vel uppsett og skemmtileg. Næstu vikuna munu samherjar berjast um stuðning flokkssystkina sinna í prófkjörsslagnum. Að því loknu munu Sjálfstæðismenn í borginni sameinast um þá sem valdir verða. Mikilvægt er að flokkurinn sé samhentur í borginni og takmarkið er að flokkurinn eigi að minnsta kosti helming þingmanna borgarkjördæmanna. Það tekst með því að bjóða sterka lista með góðu fólki. Ég efast ekki um að það takist.