Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 desember 2002

Nýr borgarstjóri - Alfreð stjórnar - ISG ýtt til hliðar
Tíðindin hafa gerst hratt í borgarmálunum í dag. Í dag varð ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir myndi víkja af borgarstjórastóli og gera tillögu um nýtt borgarstjóraefni, Þórólf Árnason fyrrum forstjóra Tals. Í upphafi var ekki samstaða um þessa tillögu og menn vildu lengri tíma, en Framsókn studdi tillöguna frá upphafi. Þá stillti Framsóknarflokkurinn leiðtogum flokkanna upp við vegg og þeir voru nauðbeygðir til að samþykkja tillöguna. Það er því ljóst að Alfreð stjórnar R-listanum nú við brotthvarf borgarstjórans og er með þetta allt í höndum sér. Ingibjörg segir af sér embætti og víkur burt sár í bragði yfir því að vera beygð. Hún stekkur nú í óvissuna og hverfur af braut, situr áfram í borgarstjórn en er ekki lengur forystumaður borgarinnar. Framundan er brothætt stjórn þriggja flokka sem virðast ekki vera sammála um margt, enda margoft legið í loftinu að uppúr sjóði. Það má búast við spennandi tímum ef þetta verður það sem bíður borgarbúa næstu 40 mánuðina, þann tíma sem R-listinn hengur saman valdanna vegna. En nú tekur valdalaus embættismaður við af drottningunni. Á bakvið tjöldin stjórnar Alfreð, óvinsælasti stjórnmálamaður borgarkerfisins. Gaman verður að sjá hvort þetta hangi til 2006, ég leyfi mér að efast um það. Allir sjá að nýi borgarstjórinn er valdalaus með öllu.

Ekki öfundsvert hlutskipti
Allir sjá að hlutskipti forstjórans fyrrverandi verður ekki öfundsvert. Hann á að leiða þrjá ósamhenta flokka í borgarstjórn og tala máli þeirra sem framkvæmdastjóri rétt eins og Egill Skúli forðum. Völdin verða ekki á hans herðum, heldur leiðtoganna þriggja nú þegar borgarstjóranum sigursæla hefur verið sparkað í burtu. Hann verður enginn leiðtogi í þessu samstarfi, völdin verða hjá formanni borgarráðs. Það verður því spennandi hver fái þann stól, enda þar munu völdin liggja í samstarfinu. Sá sem fær þann stól verður í raun nýi leiðtoginn og eflaust munu margir sækja fast að því að setjast í þennan nýja leiðtogastól. Vonandi er að framkvæmdastjóra borgarinnar farnist betur við fjárhagsstjórnunina en forvera hans sem þverskallaðist við staðreyndum um fjárhag borgarinnar eins og frægt varð. Vonandi þarf ekki að rífast um grundvallartölur og almennar staðreyndir við bissnessmanninn.