Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 janúar 2003

Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag
Undanfarna daga hefur verið í fréttum að forystumenn Dalvíkurbyggðar, Siglufjarðarbæjar og Ólafsfjarðarbæjar íhugi sameiningu þessara sveitarfélaga. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að Eyjafjörður ætti að verða eitt sveitarfélag, og finnst það mjög rökrétt. Í seinustu sveitarstjórnarkosningum í Dalvíkurbyggð var mikið rætt um sameiningu bæjarsins við önnur sveitarfélag. Í þeim kosningum var ég frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins og ákváðum við í framboðinu að hafa það á stefnuskrá okkar að huga að sameiningu, vorum eina framboðið sem settum það fram í okkar stefnu. Sameining þessara þriggja sveitarfélaga er því góður áfangi í þá átt að fjörðurinn verði ein heild, eitt sveitarfélag. Árið 1993 var kosið um tillögur þáverandi félagsmálaráðherra, þ.á.m. um þá tillögu að Eyjafjörður yrði eitt sveitarfélag. Sú tillaga var þá felld (ásamt flestum tillögum ráðherra) enda ekki tímabær þá. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri og leiðtogi okkar sjálfstæðismanna, hefur verið ötull talsmaður sameiningar og á Dalvík eru æ fleiri að komast á þessa skoðun. Veit ég að forystumenn flokksins þar eru eindregnir stuðningsmenn sameiningar. Með tilkomu jarðgangna um Héðinsfjörð mun Eyjafjörður verða eitt atvinnusvæði og eitt sveitarfélags (allavega innan næstu 15 ára), efast ekki um það. Þessar viðræður sveitarfélaganna þriggja er upphafið að þessu ferli.

Eignarhaldið á Fréttablaðinu
Í kvöld ræddi Sigmar Guðmundsson við þá Gunnar Smára Egilsson og Jónas Kristjánsson í Kastljósinu um eignarhaldið á Fréttablaðinu. Eins og við var að búast varði Gunnar Smári það að ekki er gefið upp hverjir eiga blaðið, en Jónas mælti á þá leið að það væri réttast að það lægi fyrir. Það sjá auðvitað allir að réttast er að allt sé uppi á borðinu og fyrir liggi hverjir eigi þennan fjölmiðil. Fyrr verður fréttamennska þess ekki trúverðug. Útúrsnúningarnir í ritstjóranum um að eignarhaldið á Mogganum sé ekki á hreinu eru kostulegir, það er ekkert mál að kynna sér hverjir eiga Árvakur, en svo verður ekki sagt um Fréttablaðið. Heyrst hefur að Bónusfeðgar eigi stóran hlut í blaðinu, hvort það sé satt veit ég ekki en víst er að kjaftasögur um hugsanlega eigendur verða til staðar þar til hið sanna kemst í ljós. Vissulega væri réttast að fólk vissi hver ætti þetta blað og trúverðugleiki þess yrði meiri.