Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 janúar 2003

Pistill á frelsi.is - tveir skipstjórar á sama skipinu?
Í dag birtist á heimasíðu Heimdallar, ítarlegur pistill minn um stöðuna hjá R-listanum, aðdragandann að endalokum valdaferils Ingibjargar Sólrúnar, stöðuna í skoðanakönnunum og farsa þann sem snýst um forystu Samfylkingarinnar í komandi kosningum. Það er helst af þeim flokki að frétta að formaðurinn hefur brugðist við komu hins nýja háseta (ISG) á þann hátt að lýsa því yfir svo ekki varð um villst að hann væri enn skipstjóri á sinni fleytu. Hann ætlar ekki að gefa eftir sinn sess til hásetans. Á meðan ókyrrast undirmenn skipstjórans og vilja nýta krafta hásetans sem varð að taka pokann sinn á R-listafleytunni. Er rætt um að bæði verði við stjórnvölinn innan Samfylkingarinnar. Össur verði áfram formaður flokksins en Ingibjörg stjórni kosningabaráttunni og verði talsmaður hans. Óljóst er hver skal vera forystumaður þegar til stjórnarmyndunar kemur, ef svo illa vildi til að flokknum tækist að komast í oddaaðstöðu við myndun ríkisstjórnar. Þessi vandræðagangur innan Samfylkingarinnar vegna forystunnar er kostulegur, enda vitað mál að hjá flokk getur aðeins einn setið við stjórnvölinn. Það gengur ekki upp til lengdar að vera með tvo skipstjóra á sama skipinu samtímis. Fyrir liggur að Össur Skarphéðinsson er formaður flokksins og því augljóst að það verður hann sem leiðir flokkinn í baráttunni en ekki borgarfulltrúinn. Það er ótrúlegt að sjá hversu mjög ganga Ingibjargar í pólitíkinni er blúndulögð. Fyrst var henni stillt upp sem áttunda manni á R-listanum 1994 og hefði setið áfram á þingi ef sigur hefði ekki unnist. Í kosningunum 1998 og 2002 var samstaða um að hún fengi sætið án baráttu og henni úthlutað sínum sama sess. Nú á hún að verða forystumaður Samfylkingarinnar og sett skör hærra en formaðurinn án þess að hafa verið kjörin til þess. Já, það er margt skrýtið í henni veröld.

Félagsstarfið af stað á ný - Íslendingur kemur út
Í dag hefst félagsstarfið hjá okkur Sjálfstæðismönnum á Akureyri á ný eftir hátíðirnar. Í gær kom út málgagn flokksins, Íslendingur, þar sem er að finna ítarlegar greinar og ýmsan fróðleik. Milli kl. 17:00 og 19:00 verður opið hús í Kaupangi. Svo fer starfið fljótlega af stað á ný hjá Verði. Við sem sitjum í stjórn félagsins ætlum okkur að verða virk fram að kosningum. Ljóst er að kosningarnar í vor verða spennandi og mikilvægt að flokkurinn haldi vel á sínu. Stefnan er sett á að flokkurinn haldi þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum. Nú reynir á samstöðu sjálfstæðismanna - með samstöðu að leiðarljósi verður sigur flokksins staðreynd.