Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 janúar 2003

Samfylking nær hámarki - lausafylgið ræður úrslitum
Það er ekki hægt að neita því að komandi kosningabarátta verður meira spennandi og óvægnari en jafnvel var áður talið. Í könnun DV kemur skýrt fram að Samfylkingin er að ganga frá samstarfsflokkum í borgarstjórn og þeir eru að fóta sig nú eftir að fráfarandi borgarstjóri sveik gefin loforð. Þessi skoðanakönnun er athyglisverð mæling á stöðunni núna og segir tvennt. Í fyrsta lagi að fylgi Framsóknarflokks og VG er í miklu lágmarki og það fylgi sem þeir missa fer yfir til Samfylkingarinnar. Spurningin er; fer það aftur til baka á flokkana eða verður þetta útkoma þeirra. Ef svo er blasir við að þeir munu báðir eiga í mikilli tilvistarkreppu á komandi árum og ekki líklegt að þeir verði aðilar að ríkisstjórn með þetta fylgi. Ég tel útilokað að þessir flokkar mælist svona lágt í kosningum. Í öðru lagi að það er mikið lausafylgi á landsbyggðinni og um það verður barist, það gæti ráðið úrslitum í þessum kosningum hvert það fer. Á landsbyggðinni verður framar öðru kosið um atvinnu- og samgöngumál. Í kosningabaráttunni í mínu kjördæmi munu virkjunarmál verða áberandi og verður eftir því leitað hvar flokkarnir standa í þeim málum. Styðja þeir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða hvað? Það dugar ekkert hálfkák í þeirri kosningabaráttu og skýrra svara verður leitað. Við blasir semsagt að Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á kostnað tveggja flokka, samstarfsflokka í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eftir 12 ára stjórnarforystu. Ég minni á að Samfylkingin hefur náð hámarki og því spurningin hvenær fylgið leitar til baka í flokkana tvo. Ef það gerist ekki blasir við endalok þessara tveggja flokka. Íslenskir kjósendur eru vanafastir eins og fram kemur í lokaverkefni Einars Arnar Jónssonar og Birnu Óskar Hansdóttur í stjórnmálafræði . Framsókn er alltaf vanmetin og VG eflaust líka miðað við þessar tölur. Hvaðan munu þessir flokkar taka fylgi sitt á ný. Ekki frá Sjálfstæðisflokknum, svo mikið er víst.


R-listinn forystulaust rekald
Eftir þrjár vikur mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir láta af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkurborgar eftir tæplega 9 ára setu á þeim stól. Aðdragandinn að endalokum valdaferils hennar í stóli borgarstjóra ætti að vera öllum kunnur eftir að landsmenn horfðu á pólitískan jarðskjálfta á R-listasprungusvæðinu fyrir og um jólin eftir að ISG ákvað að fara í þingframboð og ganga á bak orða sinna í borgarstjórnarkosningunum í fyrra. Samstarfsfólk hennar í meirihlutanum neyddu hana til að segja af sér eftir að hún hafði svikið þá opinberlega og gengið á bak orða sinna við þá. Síðan 1994 hefur verið staðið þannig að stjórn mála undir forystu R-listans í borgarstjórn, að borgarstjóri hefur verið úr hópi kjörinna borgarfulltrúa og haft skýrt pólitískt umboð samstarfsmanna sinna sem málsvari þeirra. Það hefur verið stefna þeirra að við stýrið sé sterkur pólitískur forystumaður. Við þessar aðstæður hefur R-listinn ákveðið að ráða fjármálamanninn Þórólf Árnason í stól borgarstjóra en hann er eins og öllum ætti að vera kunnugt ekki kjörinn borgarfulltrúi. Síðast þegar vinstri flokkarnir stóðu að sambærilegri ráðningu kjörtímabilið 1978-1982 gaf þessi skipan alls ekki góða raun. Innan borgarstjórnar var þá fullkomin óvissa um, hvar ábyrgð hvíldi í mikilvægum pólitískum álitaefnum. Erfiðar spurningar vöknuðu um valdmörk milli kjörinna fulltrúa og embættismanna. Í raun átti Reykjavíkurborg engan málsvara með ótvírætt umboð frá borgarbúum. Þessi staða blasir nú við öllum sem á málið líta. R-listinn, valdabandalag þriggja flokka er forystulaust rekald eftir að skipstjórinn sagði upp djobbinu og réði sig sem háseta á annað skip undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar.

Ekkert gagnkvæmt traust - endalok R-listans
Í skoðanakönnun DV á mánudag kom skýrt fram að fylgi R-listans hefur minnkað verulega við það að skipstjórinn ræður sig á annað fley og yfirgefur fyrra plássið. Fylgi Sjálfstæðisflokkins eykst og er þeim spáð meirihluta atkvæða. Ráðning flokkanna þriggja sem mynda meirihluta borgarstjórnar á fyrrum forstjóra Tals í borgarstjórastólinn sýnir svo ekki verður um villst, að mikill glundroði ríkir í hópi borgarfulltrúa R-listans og ekkert gagnkvæmt traust er þeirra á milli. Það væri fróðlegt að vita hvort aldrei hafi komið til álita að aðrir borgarfulltrúar en Árni Þór Sigurðsson kæmi til álita í stól borgarstjóra, s.s. Stefán Jón Hafstein, Alfreð Þorsteinsson eða Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Atburðarásin frá því að fráfarandi borgarstjóri ákvað að bjóða sig fram til fimmta sætis á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík, glundroðinn og illindin milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og VG og ráðning ópólitísks borgarstjóra (framkvæmdastjóra) án pólitísks umboðs sýnir svo ekki verður um villst, að R-listinn er í raun úr sögunni sem sterkt pólitískt afl. Forseti borgarstjórnar hefur sagt að pólitísk stefnumótun verði alfarið í höndum kjörinna fulltrúa og borgarráðsliða en ekki borgarstjóra. Það er óhjákvæmilegt að krefjast þess af meirihluta borgarstjórnar að hann greini allavega borgarbúum frá því, hver verði málsvari Reykjavíkurborgar vegna póltískrar stefnumótunar eftir að núverandi borgarstjóri fer úr embætti eftir að hafa gengið á bak orða sinna og verið sparkað af stóli sínum sem ótvíræður pólitískur forystumaður meirihlutans.