Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 janúar 2003

Yfirgnæfandi líkur á að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika
Líkurnar á að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika aukast nú dag frá degi. Í dag kom fram í greinargerð nefndar sem eigendur Landsvirkjunar komu á laggirnar til að skila áliti um mat á arðsemi og fjárhagslegri áhættu Kárahnjúkavirkjunar, að yfirgnæfandi líkur væru taldar á að virkjunin verði arðsöm. Er það mat nefndarinnar að arðsemismat Landsvirkjunar sé vel rökstutt. Það er þeirra mat að það sé eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem felist í verkefninu og annarra þeirra þátta sem þeir telji mikilvæga. Eigendanefndin, sem skipuð er þremur mönnum, segir að hafa beri í huga að þótt í arðsemismati sé miðað við 25% eiginfjárhlutfall og veginn fjármagnskostnaður reiknaður út frá því, þá megi gera ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun verði í raun fjármögnuð að mestu eða öllu leyti með lánsfé. Í morgun samþykkti ríkisstjórnin tillögu iðnaðarráðherra um að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingi, þegar þing kemur saman þann 21. janúar nk. frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Frumvarpið er að flestu leyti efnislega sambærilegt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju á Grundartanga sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Ríkisstjórnin fjallaði einnig í morgun um greinargerð eigendanefndarinnar. Samninganefndir iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Fjarðabyggðar hafa áritað samninga vegna byggingar og reksturs álverksmiðju í Reyðarfirði. Í frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að undirrita fjárfestingar-, lóðar- og hafnarsamninga. Fyrir liggur að samningar verði undirritaðir í febrúar og málið verði þá formlega klárað. Það er því ljóst að það styttist óðum í að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika. Í komandi kosningum verður kosið í Norðausturkjördæmi um atvinnu- og samgöngumál framar öðru. Virkjunin skiptir íbúa kjördæmsins miklu máli og fyrir liggur að hún muni verða mikil lyftistöng fyrir kjördæmið og ekki síður landsmenn alla.

Staða Sjálfstæðisflokksins styrkist - Davíð traustur í sessi
Í dag birti DV skoðanakönnun um fylgi flokkanna í Reykjavík vegna komandi þingkosninga í annað skipti á tæpum mánuði. Föstudaginn 20. desember 2002 birtist skoðanakönnun sem leiddi til þess að framsóknarmenn og vinstri/grænir í borgarstjórn spörkuðu fráfarandi borgarstjóra af stóli gegn vilja hennar og neyddu hana til afsagnar. Í þeirri könnun kom fram að ISG myndi fella Halldór Ásgrímsson af þingi. Á þeirri könnun tóku Samfylkingarmenn mikið mark á og töluðu um upphafið að pólitískri sigurgöngu ISG. Í könnun dagsins í dag er ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur styrkst til muna eftir innkomu fráfarandi borgarstjóra og mælast þeir með sjö menn í norðurkjördæminu, þar sem tromp SF er í fimmta sætinu. Samkvæmt þessari könnun myndu hvorki ISG og ná kjöri. Reyndar er það svo að Samfylkingin tapar fylgi í borginni frá innkomu ISG. Samfylkingarmenn hljóta að taka sama mark á þessari könnun og þeirri fyrir þrem vikum, en ekki er ég viss um sama gleði sé með þessar tölur og þær sem birtust rétt fyrir jólin. Í dag birtist í Fréttablaðinu könnun um hvaða stjórnmálamönnum almenningur treystir best og vantreystir. Davíð Oddsson forsætisráðherra er sem fyrr umdeildur og trónir á toppum beggja listanna og er sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir best til forystu.