Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 desember 2002

Styttist í uppgjör innan R-listans - nýr meirihluti?
Þáttaskil virðast hafa orðið hjá R-listanum með þeirri ákvörðun borgarstjóra að halda fast við fyrri yfirlýsingar um framboð og ætla jafnframt að sitja áfram sem borgarstjóri í óþökk meirihluta borgarstjórnar. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík útilokar nú ekki nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokk í borgarstjórn, skv. heimildum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Nú þegar ljóst er að borgarstjóraferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er að ljúka verður það hennar að velja á milli borgarstjórastóls eða þingframboðs, annað er ekki mögulegt, enda meirihluti borgarstjórnar á móti því að hún sitji áfram ef til framboðs kemur. Framsóknarflokkurinn hefur nú örlög Ingibjargar fullkomlega í hendi sér og þeirra að ákveða hvort henni verður sparkað eða þeir éta ofan í sig öll gífuryrðin. Ljóst er að mikil ólga er innan Framsóknarflokksins vegna skoðanakönnunar DV í gær og virðist hún hafa breytt öllu. Uppgjör í þessu máli verður á næstu dögum, enda gengur ekki að höfuðborg landsins sé stjórnlaus og stjórnarkreppa sé langvinnandi ástand. Þetta verður að leysa hratt og örugglega, annaðhvort með afsögn borgarstjóra eða nýjum borgarstjórnarmeirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt komið fram af ábyrgð við stjórn borgarinnar, bæði í meirihluta og minnihluta frá stofnun 1929 og mun ekki skorast undan því að tryggja farsæla stjórn borgarinnar ef til þess kemur að R-listinn splundrast.

eins og hver önnur langavitleysa - frábær grein Björns
Í Vettvangsgrein sinni í dag fer Björn Bjarnason yfir frétt liðinnar viku; sviptingarnar í R-listanum sem skeka undirstöður borgarstjórnarmeirihlutans allverulega. Jarðskjálftakippirnir magnast og spennan eykst. Nú þegar jólaundirbúningurinn er að verða búinn er sannkölluð unun að setjast niður með jólaölglas og piparkökur og lesa þessa frábæru grein Björns í Mogganum. Allir að lesa hana - algjört möst!