Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 febrúar 2003

Colin Powell birtir gögn um vopnaeign Íraka
Í dag ávarpaði Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem hann lagði fram sannanir fyrir því að Írakar búi yfir gereyðingarvopnum. Sagði ráðherrann að gögnin sem Bandaríkjamenn hefðu undir höndum væru mikið áhyggjuefni. Meðfram málflutning sínum spilaði hann m.a. segulbandsupptökur af samræðum íraskra embættismanna þar sem þeir ræða um hvernig leika eigi á vopnaeftirlitsmenn og sýndi gervihnattamyndir af hernaðaruppbyggingu Íraka, þar á meðal verksmiðjum. Powell sagði að sönnunargögnin kæmu m.a. frá heimildarmönnum sem hefðu hætt lífi sínu við að afla þeirra. Hann sagði t.d. að Saddam Hussein og stjórn hans væru að leyna tilraunum sínum til að framleiða meiri gereyðingarvopn. Sagði hann ennfremur að Írakar beittu kerfisbundnum blekkingum og undanbrögðum til að fela hernaðaruppbyggingu sína. Sagði hann að segulbandsupptökurnar sem hann lék væru ekki einstök tilvik heldur hluti af stefnu sem framfylgt væri í æðstu stigum íraska stjórnkerfisins. Powell sagði m.a. að íraskir embættismenn hefðu falið gögn um herstöðvar, fyrirskipað að óleyfileg vopn væri fjarlægð frá stöðum þar sem vitað væri að vopnaeftirlitsmenn myndu koma og falið vopn, tölvugögn og ýmsa aðra hluti á heimilum sínum. Þá sagði Powell að Írakar hefðu ekki gert grein fyrir sýkla- og efnavopnum, sem vitað sé að þeir höfðu undir höndum og að þeir byggju yfir 18 hreyfanlegum sýklavopnaverksmiðjum sem auðvelt væri að fela og sem gætu m.a. framleitt miltisbrandsgró í stórum stíl. Ennfremur kom fram í máli hans að Bandaríkjamenn hefðu engar vísbendingar um að Saddam Hussein hefði hætt við tilraunir til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Sagði Powell að Írakar réðu nú yfir 2 af þeim þremur grundvallarþáttum sem þurfi til að smíða kjarnorkusprengju. Allur málflutningur ráðherrans er þess eðlis að þar koma fram óyggjandi sönnunargögn sem ekki verða hrakin. Það er ljóst að tíminn er að renna út fyrir Íraka og tímabært að grípa til aðgerða gegn ríkisstjórn einræðisherrans ef hún afvopnast ekki með góðu. Bendi í lokin á góða grein félaga míns, Hafsteins Þórs Haukssonar varaformanns SUS, sem birtist á heimasíðu Heimdallar, 12. desember sl.

Úrskurður Jóns - viðbrögð VG
Í síðustu viku felldi Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og settur umhverfisráðherra, úrskurð sinn vegna Norðlingaölduveitu. Er skemmst frá því að segja að Jón hafi farið bil beggja við úrskurð sinn og er niðurstaðan sú að friðlandið verður ekki fyrir skaða vegna væntanlegra framkvæmda. Er það mikið gleðiefni og ber því vitni að Jón er sannkallaður sáttasemjari og lagði sig allan fram um að reyna að skila úrskurði sem öllum myndi líka við og sátt myndi skapast um framkvæmdina. Sú verður þó ekki raunin, enda eru þingmenn VG ekki á þeim buxunum að láta af andstöðu sinni við Norðlingaölduveitu. Það er von að einhver spyrji hversvegna sú er raunin, eftir að ljóst er að friðlandinu verður hlíft. Það var lengi boðskapur þeirra að ekki mætti sökkva friðlandi en nú eru þau enn sömu skoðunar, þrátt fyrir úrskurð ráðherrans. Þarna sannast hið fornkveðna að andstaða VG byggist ekki á umhverfissjónarmiðum heldur því eingöngu að vinna gegn öllum virkjunarframkvæmdum með hvaða brögðum sem er. Er með ólíkindum að fylgjast með boðskap fulltrúa þessa flokks og undarlegum ummælum þeirra í fjölmiðlum. Kreddufull andstaða þeirra er hörð, burtséð frá öllum umhverfissjónarmiðum. Það er hin gamaldags stóriðjufóbía sem þar ræður ríkjum eins og fyrri daginn.